204. Fundur

204. Fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn fimmtudaginn 2. nóvember 2023 kl. 13:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Sigríður Ólafsdóttir formaður, Dagbjört Diljá Einþórsdóttir, Halldór Pálsson, Ingveldur Linda Gestsdóttir.

Starfsmenn

Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Ármann Pétursson boðaði forföll.

1. Uppgjör refa- og minkaveiða 2023 - 2310051
Lagðar fram upplýsingar um refa- og minkaveiði frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2023.
Heildarkostnaður vegna refa- og minkaveiði á þessu tímabili er alls kr. 6.900.149. Unnin grendýr eru 84, yrðlingar 162, hlaupadýr 116 og minkar 75.
 
2. Alvarleg staða í landbúnaði - 2310087
Húnaþing vestra býr yfir þeirri miklu gæfu að vera gjöfult landbúnaðarhérað. Hér hefur landbúnaður byggst upp í sátt við land og fólk sem hefur skilað sér í því að héraðið er eitthvert grónasta hérað landsins og vel fallið til matvælaframleiðslu af ýmsu tagi. Þéttbýli og dreifbýli reiðir sig á hvert annað, ungir bændur sjá sér hag í að setjast hér að sem er ótvírætt gæðamerki á því landsvæði sem við búum á.
Miklar kostnaðarhækkanir og hátt vaxtastig undanfarin misseri hafa hins vegar haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi flestra búgreina og nú er svo komið að fjölmargir bændur íhuga að bregða búi vegna stöðunnar. Ekki hvað síst á það við um bændur sem hafa nýlega hafið rekstur og eru þar með, eðli málsins samkvæmt, skuldsettari en aðrir.
Stjórnvöld hafa undanfarin misseri farið fögrum orðum um hina nýkrýndu matvæla-og landbúnaðarstefnu ásamt því að hugtakinu fæðuöryggi er flaggað á tyllidögum. Nú verða orðum að fylgja efndir. Stefna í fæðu- og matvælaöryggisstefnum þarf að vera þannig útfærð að bændum sé raunverulega kleift að stunda matvælaframleiðslu.
Landbúnaðarráð skorar hér með á stjórnvöld að fylgja eftir eigin landbúnaðarstefnu og sjá til þess að ungir bændur, sem og aðrir bændur, geti skammlaust lifað af sínum búskap eins og almennt er álitið sjálfsagt hjá nágrannaþjóðum okkar.
 
3. Riða í Húna- og Skagahólfi - 2310093
Landbúnaðarráð telur rétt að minnast bókunar á 200. landbúnaðarráðsfundi er haldinn var þann 5. apríl sl., sjá 5. dagskrárlið:
„Riða í Miðfjarðarhólfi. Í ljósi riðusmits sem upp kom í Miðfjarðarhólfi nýverið vill landbúnaðarráð leggja áherslu á að ráðist verði í breytingu á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, nr. 651/2001, svo ekki þurfi að slátra fé með verndandi arfgerð gegn riðu komi upp smit. Samhliða þarf að stórauka arfgerðargreiningar á fé til að útrýma eins fljótt og auðið er áhættuarfgerð vegna riðu. Brýnt er að Miðfjarðarhólf ásamt öðrum sýktum svæðum í Húnaþingi vestra verði hér eftir í fyrsta forgangi varðandi kaup á gripum með verndandi arfgerð ásamt því að vera í forgangi við útdeilingu sæðis úr gripum með verndandi arfgerð. Einnig vill ráðið árétta enn og aftur mikilvægi þess að sauðfjárveikivarnarlínum sé viðhaldið með fullnægjandi hætti en á því hefur verið mikill misbrestur vegna skorts á fjármagni. Slíkt viðhald krefst stóraukins fjármagns frá hinu opinbera. Ráðið felur formanni og sveitarstjóra að óska eftir því við MAST að haldinn verði almennur upplýsingafundur fyrir bændur á svæðinu þar sem fjallað verði um stöðuna og þær breytingar sem fylgja í kjölfar smitsins.“

Vegna riðusmits sem upp kom í Húna- og Skagahólfi nýverið vill landbúnaðarráð leggja áherslu á að ráðist verði í breytingu á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, nr. 651/2001, svo ekki þurfi að slátra fé með verndandi arfgerðir gegn riðu komi upp smit. Samhliða þarf að stórauka arfgerðargreiningar á fé til að útrýma eins fljótt og auðið er áhættuarfgerð vegna riðu. Brýnt er að sýkt svæði í Húnaþingi vestra verði hér eftir í fyrsta forgangi varðandi kaup á gripum með verndandi arfgerðir ásamt því að vera í forgangi við útdeilingu sæðis úr gripum með verndandi arfgerðir. Einnig vill ráðið árétta enn og aftur mikilvægi þess að sauðfjárveikivarnarlínum sé viðhaldið með fullnægjandi hætti en á því hefur verið mikill misbrestur vegna skorts á fjármagni. Slíkt viðhald krefst stóraukins fjármagns frá hinu opinbera. 

Landbúnaðarráð vekur hér með sérstaka athygli á að um tvær bókanir er að ræða, annars vegar vegna riðu í Miðfjarðarhólfi og hins vegar riðutilfellis í Húna- og Skagahólfi. Glöggt fólk rekur líklega augun í að það er sáralítill munur á þessum tveimur bókunum sem skýrist af því að málefni riðuvarna hafa verið algerlega hundsuð af matvælaráðuneyti síðustu sjö mánuði. Nú standa vonir til þess, í kjölfar nýrra niðurstaðna í riðurannsóknum, að hægt sé að innleiða verndandi arfgerðir fljótt og vel með þeim fyrirvara að allar arfgerðir sem metnar voru mjög verndandi í prófunum verði viðurkenndar og þar með undanskildar niðurskurði.

Landbúnaðarráð leggur hér með til að hin seinni tillaga, sem byggir að svo gott sem öllu leyti á bókun 5. apríl síðastliðinn, verði studd af sveitarstjórn og skorar hér með á matvælaráðherra að breyta nú þegar reglugerð nr. 651/2001 á þann veg að sauðfé með verndandi arfgerðir verði hlíft við niðurskurði enda er það óumdeilanlega hagur bæði bænda og stjórnvalda að sjúkdómnum verði útrýmt eins fljótt og auðið er.
Hið nýuppgötvaða smit kom fram í greiningarsýni í sláturhúsi og engin sjúkdómseinkenni hafa komið fram í hjörðinni. Jafnframt eru allir hrútar á búinu með verndandi arfgerðir.

Landbúnaðarráð leggur því til að viðkomandi bú verði nýtt sem tilraunabú varðandi það að hlífa villiarfgerðinni í þessu tilfelli, þ.e. skera einungis ær með áhættuarfgerð og sjá í framhaldinu hvort og þá hversu mikil hætta er á að villiarfgerð smitist ásamt því að fylgjast með því hvernig aðrar arfgerðir en ARR virka í reynd. Komi upp sjúkdómseinkenni yrði viðkomandi grip lógað samstundis. Með þessu móti yrði hægt að fjölga gripum með verndandi arfgerðir mun hraðar en ella ásamt því að vísindalegt gildi slíkrar tilraunar er ótvírætt.
 
4. Erindi frá Fjallskiladeild Víðdælinga - 2310094
Lagt fram erindi frá fjallskiladeild Víðdælinga vegna girðingarmála á afréttum. Í því er fjallað um mikilvægi þess að Stórisandur verði friðaður fyrir beit sem mótvægisaðgerð vegna lagningar byggðalínu Landsnets yfir heiðar í Húnaþingi sem áður hafa nánast verið ósnertar. Landbúnaðarráð þakkar fyrir erindið.
 
5. Vetrarveiði á ref veturinn 2023-2024 - 2310002
Auglýst var eftir aðilum til vetrarveiði á ref með umsóknarfrest til 1. nóvember sl. Eftirtaldir sóttu um:
Bjarni Kristmundsson, vegna veiða í austanverðum Hrútafirði.
Þorbergur Guðmundsson, vegna veiða á Miðfjarðarsvæði.
Benedikt Guðni Benediktsson, vegna veiða á Miðfjarðarsvæði.
Elmar Baldursson, vegna veiða á Vatnsnesi.
Björn Viðar Unnsteinsson, vegna veiða í Vesturhópi.
Hannes G. Hilmarsson, vegna veiða í vestanverðum Hrútafirði.
Sigfús Heiðar Árdal Jóhannsson, vegna veiða í Víðidal.
Landbúnaðarráð felur sveitarstjóra að gera samninga við eftirtalda aðila:
Bjarni Kristmundsson, vegna veiða í austanverðum Hrútafirði.
Þorbergur Guðmundsson, vegna veiða á Miðfjarðarsvæði.
Elmar Baldursson, vegna veiða á Vatnsnesi.
Björn Viðar Unnsteinsson, vegna veiða í Vesturhópi.
Hannes G. Hilmarsson, vegna veiða í vestanverðum Hrútafirði.
Sigfús Heiðar Árdal Jóhannsson, vegna veiða í Víðidal.

 

Fundi slitið kl. 14:19



Var efnið á síðunni hjálplegt?