360. fundur

360. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn fimmtudaginn 24. nóvember 2022 kl. 15:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Magnús Vignir Eðvaldson aðalmaður, Magnús Magnússon aðalmaður, Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður, Friðrik Már Sigurðsson aðalmaður, Elín Lilja Gunnarsdóttir aðalmaður og Hallfríður Sigurbjörg Óladóttir varamaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Oddviti setti fund. Gengið var til dagskrár.

1. Gjaldskrár ársins 2023.

Gjaldskrár til seinni umræðu
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hirðu, móttöku- og flokkunarstöð úrgangs í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá sorphirðu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hreinsun og losun rotþróa í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hvammstangahöfn, hafnarsjóð.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Vatnsveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Hitaveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Brunavarna Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

 

2. Fjárhagsáætlun ársins 2023, ásamt 3ja ára áætlun fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.

Lögð fram til síðari umræðu tillaga að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2023, ásamt 3ja ára áætlun fyrir 2024 – 2026. Lögð fram svohljóðandi tillaga:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2023, ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2024 – 2026.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

 

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2023

Í fjárhagsáætlun þeirri sem nú liggur fyrir vegna ársins 2023 má sjá að Húnaþing vestra glímir nú við erfiða fjárhagsstöðu líkt og mörg önnur sveitarfélög, þar sem há verðbólga og hækkandi vaxtastig ásamt launahækkunum hafa mest að segja. Fjárhagsáætlun ársins 2023 gerir ráð fyrir neikvæðri rekstrarafkomu, en sveitarstjórn hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að verja þjónustustig þrátt fyrir að áhrif heimsfaraldursins COVID-19 sé enn að finna í fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

 

Útsvarsprósenta ársins 2023 verður óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52%. Samkvæmt áætlun munu útsvarstekjur hækka um 5,66%. Áhyggjuefni er að þrátt fyrir fólksfjölgun í sveitarfélaginu undanfarið, hafa tekjur sveitarfélagsins frá útsvari hækkað hlutfallslega minnst árið 2022 samanborið við nágrannasveitarfélögin. Álagning fasteignagjalda er óbreytt frá árinu 2022, þar sem fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði er 0,4%. Hækka tekjur vegna fasteignaskatta um 15,34% vegna hækkaðs fasteignamats. Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu ákvað sveitarstjórn að ganga ekki lengra í heimild sinni til skattlagningar á íbúðarhúsnæði, en hæst má hún vera 0,65% með fullnýtingu álagsheimildar. Vert er að fram komi að í Húnaþingi vestra er álagningarprósenta fasteignagjalda lægri en hjá flestum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra.

 

Sveitarstjórn Húnaþings vestra ákvað að gjaldskrárhækkanir yrðu hóflegar fyrir árið 2023, eða um 5,4%. Frá því að sú ákvörðun var tekin á haustdögum hafa fjárhagshorfur fyrir árið 2023 versnað til mikilla muna og eru mörg sveitarfélög að ganga út frá hækkunum sinna gjaldskráa um 7 – 10%.

 

Þrátt fyrir að almennt séu gjaldskrár hækkaðar um 5,4%, hækka þó hreinsun rotþróa og sorphreinsun umfram það. Sveitarfélagið hefur verið að greiða með sorphirðu síðastliðin ár á bilinu 18-20 milljónir árlega, þrátt fyrir að þjónustan eigi að standa undir sér. Ástæða fyrir mikilli hækkun á sorp- og sorpeyðingargjöldum má rekja til nýrra laga sem taka gildi þann 1. janúar nk. Með innleiðingu laganna er sveitarfélögum óheimilt að niðurgreiða kostnað vegna sorphirðu. Í undirbúningi er sameiginlegt útboð á sorphirðu með sveitarfélögunum í Austur-Húnavatnssýslu þar sem tekið verður mið af þeim kröfum sem ný lög segja fyrir um. Niðurstaða þess mun leiða í ljós hvort að nauðsynlegt verði að endurskoða gjaldskrána þegar líður á árið.

 

Að framansögðu er ljóst að álagning á fasteignaeigendur mun aukast nokkuð. Vegna þessa ákvað sveitarstjórn að fjölga gjalddögum fasteignagjalda um tvo og verða þeir 8 í stað 6. Fyrsti gjalddagi verður í febrúar en síðasti í september.

 

Samkvæmt þeirri áætlun sem hér er lögð fram verður rekstrarafkoma Húnaþings vestra á árinu 2023 neikvæð um 80,6 milljónir kr. Einkum má rekja neikvæða rekstrarafkomu til hækkandi fjármagnskostnaðar og hallarekstrar málefna fatlaðs fólks.

 

 

Í fjárhagsáætlun þeirri sem nú er lögð fram má glöggt sjá hve viðkvæmt sveitarfélagið er fyrir áhrifum verðbólgu á fjármagnskostnað. Verðbólga stendur nú í 9,4% (október 2022), fyrir ári síðan 4,5% og á sama tíma árið 2020 var verðbólga 3,6%. Fjármagnskostnaður næsta árs er áætlaður tæpar 104,9 milljónir, en væri 57,7 milljónir væri verðbólgan á pari við 2,5% markmið Seðlabanka Íslands. Vegna vaxtar og mikilla framkvæmda í sveitarfélaginu undanfarin misseri hefur lántaka reynst nauðsynleg, m.a. í tengslum við viðbyggingu grunnskólans. Í hefðbundnu árferði hefði sá fjármagnskostnaður sem slíku fylgir verið mun lægri og ekki haft eins mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins og raun ber vitni.

 

Annar kostnaður sem er verulega íþyngjandi í fjármálum sveitarfélagsins er kostnaður vegna flutnings málefna fatlaðs fólk yfir til sveitarfélaganna. Nú ríður á að ríkið setji nauðsynlega fjármuni inn í málaflokkinn. Samkvæmt fjárhagsáætlun leiðandi sveitarfélags er hlutur Húnaþings vestra í áætluðu tapi með málaflokknum árið 2023 55,3 milljónir.

 

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur sem fyrr mikið upp úr stuðningi við íþrótta- og tómstundastarf barna. Sveitarfélagið greiðir áframhaldandi fjárframlag til USVH, sem útdeilir því fjármagni til íþróttafélaganna í sveitarfélaginu sem gerir það að verkum að kostnaður foreldra vegna íþróttaiðkunar barna í Húnaþingi vestra er með því lægsta sem gerist á landinu. Frístundastyrkur til foreldra 6 – 18 ára barna verður áfram kr. 20.000, sem foreldrar geta nýtt á móti greiðslu vegna tómstunda barna. Íþróttafélögin, sem njóta ekki eingöngu fjárhagslegs styrks frá sveitarfélaginu heldur einnig gjaldfrjálsra afnota af íþróttamannvirkjum, bjóða upp á afar fjölbreytt íþróttastarf. Húnaþing vestra greiðir líkt og undanfarin ár akstursstyrki til foreldra í dreifbýli sem þurfa að keyra börn sín sérstaklega til og frá æfingum.

 

Skólagjöld Tónlistarskóla Húnaþings vestra eru sem fyrr hófleg, en árið 2023 verður árgjald barna yngri en 18 ára kr. 81.200. Dæmi eru um að árgjald tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu sé kr. 210.000 fyrir árið 2022. Lág skólagjöld tónlistarskólans eru án efa ástæða þess að í gegnum tíðina hefur hátt hlutfall grunnskólabarna sótt nám í tónlistarskólanum við ýmis hjóðfæri og í söng. Skólaárið 2022 – 2023 er 47% grunnskólabarna í tónlistarnámi.

 

Húnaþing vestra veitir fjölmörgum félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2023 að fjárhæð alls 20,6 milljónir króna. Því til viðbótar eru greiddir styrkir til leikfélags, styrkir vegna fasteignagjalda, hitaveitu til félaga, afnota íþróttafélaga af íþróttamannvirkjum o.fl.

 

Í fjárhagsáætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir að áfram verði fjármagni veitt í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra sem stofnaður var árið 2014. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu. Sjóðurinn hefur sannað gildi sitt og á tímum sem þessum er mikilvægt að leggja áherslu á nýsköpun og atvinnuþróun.

 

Þrátt fyrir að hart sé í ári er gert ráð fyrir fjárfestingum upp á 175,4 milljónir kr. árið 2023. Vegur þar þyngst endurnýjun vatnsveitu á Laugarbakka að fjárhæð 74,4 milljónir kr. og endurnýjun lagnakerfis við sundlaugina að fjárhæð 59 milljónir kr. Auk þess er áformað að setja upp 9 holu frisbýgolfvöll árið 2023. Þrátt fyrir að fullur vilji sveitarstjórnar sé til að bæta íþróttaaðstöðu í Kirkjuhvammi með því að reisa aðstöðuhús, er ekki svigrúm til framkvæmdarinnar innan ársins 2023 nema ytri aðstæður breytist.

 

Aðkoma forstöðumanna einstakra deilda í fjárhagsáætlunarvinnunni verður seint fullþökkuð. Forstöðumenn hafa sýnt einstakan vilja til að velta við öllum steinum og leita leiða til að hagræða í rekstri.

 

 

Helstu forsendur fjárhagsáætlunarinnar 2023 eru eftirfarandi (upphæðir eru í þúsundum króna):

image

Samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2022 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 verður sveitarsjóður rekinn með neikvæðri rekstrarafkomu. Aldrei hefur verið jafn mikilvægt að sýna ráðdeild í rekstri og sýna skynsemi í fjárfestingum á meðan sveitarsjóður nær jafnvægi að nýju, eftir síðbúin áhrif COVID-19 heimsfaraldursins. Á sama tíma og rekstur sveitarfélagsins kemst í jafnvægi að nýju með lækkandi verðbólgu og stýrivaxtalækkunum, er einnig mikilvægt að ríkið bæti Húnaþingi vestra, sem og öðrum sveitarfélögum landsins, langvarandi hallarekstur vegna málefna fatlaðs fólks.

3. Lántaka.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 45.000.000.-, með lokagjalddaga 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórn hefur kynnt sér.

Sveitarstjórn samþykkir að til tryggingar á láninu (höfuðstól, vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standi tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjur og framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Lánið er tekið til að fjármagna viðbyggingu grunnskólans sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Unni Valborgu Hilmarsdóttur, sveitarstjóra, kt. 160673-3119, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Húnaþings vestra að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.“


Rithandarsýnishorn umboðshafa:


___________________________

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Oddviti vakti athygli á að samkvæmt upphaflegri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir lántöku að fjárhæð 145 milljónir kr. Því er ekki verið að fullnýta lánaheimild fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:30.

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?