Ósk um umsögn um drög að frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Málsnúmer 2502067

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1239. fundur - 03.03.2025

Guðni Geir Einarsson, Árni Sverrir Hafsteinsson, Aðalsteinn Þorsteinsson og Guðmundur Baldvin Guðmundsson komu til fundar kl. 15:00.
Mál í samráðsgátt stjórnvalda nr. S-32/2025.



Fulltrúar Jöfnunarsjóðs koma inn á fund byggðarráðs kl. 15 í gegnum fjarfundabúnað.
Á árinu 2023 var lagt fram frumvarp til laga um breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sem ekki náði fram að ganga. Frumvarpið hefur nú verið lagt fram að nýju með nokkrum breytingum.

Byggðarráð Húnaþings vestra vill byrja á því að fagna allri vinnu sem miðar að því að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika í ráðstöfun fjármuna Jöfnunarsjóðs. Hins vegar getur ráðið ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá því að það var lagt fram árið 2023. Þegar frumvarpið var lagt fram það ár hafði það ekki í för með sér breytingu á framlögum Húnaþings vestra. Þegar þær breytingar sem gerðar hafa verið nú eru skoðaðar kemur í ljós að framlög til Húnaþings vestra munu lækka um ríflega 38 milljónir á ári. Byggðarráð fær illa séð hvernig sú lækkun kemur heim og saman við stöðu sveitarfélagsins ef litið er til atvinnutekna í sveitarfélaginu sem eru þær þriðju lægstu á landinu skv. mælaborði Byggðarstofnunar. Lágar atvinnutekjur þýða lágt útsvar enda eru útsvarstekjur pr. íbúa í Húnaþingi vestra með því lægsta sem gerist á landinu. Þó endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs hafi verið orðin brýn verður að hafa hugfast að hlutverk sjóðsins er að „jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum“. Byggðarráð leggur því til að atvinnutekjur í sveitarfélögum fái vægi í útreikningum sjóðsins þar sem þær hafa bein áhrif á tekjustofna þeirra.

Byggðarráð tekur undir þá tillögu sem fram kemur í 13. grein frumvarpsins um að vannýting útsvars leiði til lækkunar framlaga úr Jöfnunarsjóði.
Guðni Geir, Árni Sverrrir og Guðmundur Baldvin véku af fundi kl. 15:50, en Aðalsteinn vék kl. 15:10.
Var efnið á síðunni hjálplegt?