Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Harladur Benediktsson alþingismaður, Magnús Magnússon formaður byggðarráðs, Gísli Gíslason fv. stjórnarformaður Spalar og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.
Þriðjudaginn 4. október var haldinn fundur í Félagsheimilinu Hvammstanga þar sem kynnt var ný hugsun í samgöngumálum. Haraldur Benediktsson alþingismaður kynnti þar hugmyndir um hröðun framkvæmda á tengivegum og vísaði þar sérstaklega til Vatnsnesvegarins. Einnig fluttu framsögur Magnús Magnússon, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra og Gísli Gíslason fv. stjórnarformaður Spalar. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra var fundarstjóri. Um 60 manns sátu fundinn.
Kynnti Haraldur vinnu sem hann hefur farið fyrir um að heimildir verði gefnar til stofnunar samgöngufélaga um framkvæmdir á tengivegum. Samkvæmt þeim forsendum sem fram komu í kynningu Haraldar gæti slíkt hraðað framkvæmdum á ákveðinni tegund vega um mörg ár. Um langt árabil hafa úrbætur á Vatnsnesvegi verið baráttumál sveitarstjórna Húnaþings vestra. Áfangasigur vannst þegar vegurinn var settur inn á samgönguáætlun en vonbrigði að framkvæmdir eru ekki áætlaðar fyrr en á þriðja tímabili áætlunarinnar, eftir áratug eða meira, sem þó er engin trygging fyrir að ráðist verði í hann á þeim tíma.
Nokkrar umræður spunnust á fundinum en almennt má segja að fundarmönnum hafi litist vel á tillögurnar. Þorleifur Karl oddviti sveitarstjórnar sagði sveitarstjórn styðja þær svo fremi sem íbúar væru jákvæðir fyrir þessari leið. Næstu skref eru þau að sveitarstjórn vinnur að framgangi málsins með samtölum við ráðamenn til að knýja fram nauðsynlegar lagabreytingar til að hugmyndirnar nái fram að ganga.
Ástæða er til að fagna öllum umræðum um samgöngubætur í sveitarfélaginu og löngu tímabært að brjóta upp núverandi kerfi sem ekki hefur skilað miklum árangri undanfarna áratugi. Vonandi verður það samtal sem hófst á fundinum til þess að hraða framkvæmdum í sveitarfélaginu, ekki bara við Vatnsnesveg, heldur einnig öðrum nauðsynlegum vegabótum í sveitarfélaginu með minnkandi viðhaldsþörf á Vatnsnesveginum í kjölfar uppbyggingar hans. Gerð yrði krafa um að þeir fjármunir sem sparast yrðu nýttir innan héraðs því næg eru verkefnin.