Húnaþing vestra auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra.
Markmið sjóðsins er að hvetja til jákvæðrar umræðu og verkefna á sviði atvinnuþróunar í sveitarfélaginu. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvæði íbúa og hvetja til samstarfs og nýsköpunar í sveitarfélaginu. Sjóðurinn úthlutaði fyrst styrkjum árið 2014 og hefur síðan styrkt 25 verkefni um alls 15 milljónir.
Áhersla er lögð á að styrkja verkefni sem stuðlað geta að auknum umsvifum, betri afkomu og rekstri fyrirtækja, þróun og nýsköpun í atvinnulífi í Húnaþingi vestra. Styrkir sem veittir eru úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra eru fyrst og fremst verkefna- og framkvæmdastyrkir, ekki rekstrarstyrkir eða styrkir til að mæta opinberum gjöldum eða greiða skuldir.
Væntanlegum umsækjendum og öðrum áhugasömum er bent á að úthlutunarreglur, umsóknareyðublað og fleiri gögn er varða sjóðinn er að finna hér.
Umsækjendur eru hvattir til að vanda til umsóknar sinnar og hefjast handa við hana í tíma. Vönduð umsókn eykur líkur á styrk.
Nánari upplýsingar veitir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri, í síma 455-2400 eða á netfanginu unnur@hunathing.is.
Umsóknum skal skilað rafrænt á sérstöku umsóknareyðublaði á netfangið skrifstofa@hunathing.is, fyrir kl 16. þann 8. júní 2023. Umsóknir sem berast síðar verða ekki teknar til greina við úthlutun.