Félag í forsvari hjónanna Tómasar Kristjánssonar og Sigrúnar Guðmundsdóttur hefur fest kaup á Laugarbakkaskóla í Miðfirði af Húnaþingi vestra.
Um er að ræða skólahús með kennslustofum, heimavist, mötuneyti, íþróttahúsi og íbúðum, auk einbýlishúss og parhúss. Heildarflatamál fasteignanna er tæpir 4.000 fermetrar. Síðastliðið haust fluttist kennsla frá Laugarbakka til Hvammstanga. Húsnæðið verður afhent nýjum eigendum þann fyrsta október 2015.
Undanfarin ár hefur Hótel Edda rekið sumarhótel að Laugarbakka en nýir eigendur stefna á umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu með það að markmiði að gera húsið heppilegra til hótelreksturs auk þess að standsetja fjölnotahús sem nýst getur fyrir allrahanda ráðstefnur og uppákomur. Takmarkið er að reka Laugarbakka sem heilsárshótel og má gera ráð fyrir að með rekstri þess skapist 6-8 heilsársstörf og allt að 16 á háannatíma. Með fjölgun gistirýma og aukinni þjónustu nýtast núverandi fjárfestingar ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu betur og ný tækifæri skapast fyrir sveitarfélagið allt.