Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra - og aðrir fundargestir.
Jónína Helga Jónsdóttir heiti ég og bý á Vatnsnesi eins og formæður mínar hafa gert síðan langa langa langamma kom hingað 1842.
Örugglega hefði henni þótt vegurinn afbragð á þeim tíma, en nútímasamfélagið gerir aðrar kröfur en þá.
Hér á Vatnsnesi og í Vesturhópi býr heiðvirt og gott fólk sem á allt gott skilið og þar á meðal að samgöngumál séu ekki verri en gerist annar staðar hér á landi.
Ég tel að í dag sé ástæða til að fagna. Við höfum hér æðsta mann landsins er viðkemur samgöngum og ég trúi því að nú verði loksins eitthvað gert fyrir veg 711 sem og aðra vegi sem tengjast honum hér í sveit.
Það var um eða eftir jólin 2016 sem bankað var á dyrnar hjá okkur á Súluvöllum og fyrir utan stóð ung kona skelfingu lostin, jafnvel skelkaðri en sú sem flúði undan heimalningnum um árið. Konugreyið stundi upp að hún hefði ætlað að sjá Hvítserk og ætti svo pantaða gistingu á Blönduósi og henni hraus hugur að þurfa að keyra þennan hræðilega veg aftur og spurði?
IS ANY OTHER WAY OUT HERE! THE ROAD IS SO ICED AND BUMPY!
Það var svo sem auðvelt að svara þessari spurningu, svarið var NEI því sama er hvort farið er að vestan-verðu eða að austan-verðu vegurinn er slæmur. Sama svar NEI þekkjum við af eigin reynslu, íbúar hér við veg 711. NEI það er bara ekkert hægt að gera, engir peningar - Enginn vilji!
Ekki á ég von á því að dóttir mín vilji koma og búa hér og þar með lengja búskaparsögu ættarinnar. Þetta er nesið sem gleymdist, hér er ekki ljósleiðari, ekki heitt vatn og það sem allra verst er vegurinn er ekki boðlegur.
Því bið ég þig Sigurður Ingi viltu aðstoða okkur?
THE ROAD IS SO ICED AND BUMPY