Þjóðlendumál eyjar og sker

Málsnúmer 2402022

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1206. fundur - 19.02.2024

Lagt fram erindi frá óbyggðanefnd varðandi kröfur fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist eyjar og sker. Tekur það til landsvæða innan landhelgi Íslands en utan meginlandsins. Byggðarráð lýsir furðu á þeim kröfum sem nú eru settar fram og fær ráðið ekki séð hvaða hagsmunum þær þjóna. Kröfuskjalið er að mati ráðsins óljóst og m.a. vísað í heimildir sem vart geta talist áreiðanlegar. Einnig gerir ráðið athugasemd við skamman frest sem landeigendum er gefinn til að lýsa kröfum á móti, eða til 15. maí 2024. Mikil vinna getur legið að baki gagnaöflun til að bregðast við kröfum ríkisins og líklegt að í einhverjum tilfellum verði þörf á lengri fresti.
Sveitarstjóra er falið að kalla eftir korti frá óbyggðanefnd yfir þær eyjar og sker sem falla undir kröfur nefndarinnar. Eftir því sem næst verður komist er ekki um að ræða kröfu á hendur sveitarfélaginu en ljóst að allnokkrir landeigendur í Húnaþingi vestra fá á sig kröfu frá nefndinni. Því er sveitarstjóra jafnframt falið að kalla þá landeigendur sem málið varðar saman til fundar til umræðna um málið og skoðunar á sameiginlegri vinnu við að svara kröfum óbyggðanefndar.
Var efnið á síðunni hjálplegt?