Beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um ósk Landsnets um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðurheiðarlína 1 og 3

Málsnúmer 2404118

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1212. fundur - 29.04.2024

Lögð fram beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um beiðni Landsnets um skipan raflínunefndar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 og Holtavörðuheiðarlínu 3. Er beiðni Landsnets með vísan í 1. mgr. 9.gr.a. í skipulagslögum nr. 123/2010 en heimild til skipunar slíkra nefnda var fest í lög með lagabreytingu nr. 35/2023. Byggðarráð Húnaþings vestra lagðist gegn þeim breytingum. Taldi ráðið þá, og gerir enn, að þær vegi að skipulagsvaldi sveitarfélaga.
Byggðarráð Húnaþings vestra telur að á þessu stigi sé ekki þörf á skipan slíkrar nefndar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um legu línanna og þar af leiðandi ekki farið fram samtal um framkvæmdina og enn síður kominn fram ágreiningur um hana. Auk þess liggur ekki fyrir reglugerð um störf raflínunefnda á grundvelli lagabreytinga nr. 35/2023 og skipan nefndarinnar því ekki tímabær.
Húnaþing vestra hefur á öllum stigum sýnt mikinn vilja til samstarfs enda um að ræða afar mikilvæga framkvæmd fyrir svæðið og landsmenn alla. Sveitarfélagið mun líkt og á fyrri stigum halda þeirri samvinnu áfram.
Í rökstuðningi með beiðni Landsnets eru helstu rök fyrir skipan raflínunefndar að af því skapist mikið hagræði. Vissulega er um flókið skipulagsmál að ræða en byggðarráð vill benda á að skipulagsmál eiga ekki, og mega ekki, í eðli sínu vera einföld. Tilgangur þeirra er að tryggja að vel sé að verki staðið við hvers kyns framkvæmdir og að sem flest sjónarmið séu tekin með í reikninginn.
Í rökstuðningi Landsnets kemur einnig fram að hlutaðeigandi sveitarfélögum hafi verið tilkynnt um beiðnina og að engin sérstök mótmæli hafi borist. Byggðarráð vill að fram komi að í því bréfi var á engan hátt gefið til kynna að umsagna væri óskað heldur var ítrekað tekið fram að bréfið væri sent til upplýsingar.
Var efnið á síðunni hjálplegt?