Yfirtaka Leigufélagsins Bríetar á eignum í samræmi við viljayfirlýsingu um uppbyggingu leiguíbúða í Húnaþingi vestra

Málsnúmer 2409050

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1225. fundur - 23.09.2024

Á 1209. fundi byggðarráðs sem haldinn var þann 25. mars sl. var samþykkt viljayfirlýsing milli sveitarfélagsins og Leigufélagsins Bríetar ehf. um uppbyggingu leiguíbúða, yfirtöku eigna og styrkingu leigumarkaðar í sveitarfélaginu á vegum Bríetar. Í samkomulaginu felst að Bríet muni kaupa tvær eignir í byggingu á Hvammstanga auk þess að auglýsa eftir byggingaraðilum til samstarfs vegna kaupa Bríetar á tveimur íbúðum til viðbótar á árinu 2025. Húnaþing vestra muni leggja 6 eignir í eigu sveitarfélagsins inn í Bríeti í gegnum svokölluð yfirtökuverkefni og mun Bríet annast útleigu á þeim eignum. Jafnframt muni Húnaþing vestra tryggja aðgengi að lóðum vegna þeirrar íbúðauppbyggingar sem fyrirhuguð er. Viljayfirlýsingin samræmist markmiðum Bríetar um að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina og í samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Langtímamarkmið Bríetar er að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu þar sem þörf er á því á landsbyggðinni. Félagið er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sveitarfélaganna, stofnað að norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónarmiða.

Á 371. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var þann 14. september 2023 voru tillögur starfshóps um fasteignir, jarðir og lendur í eigu sveitarfélagsins samþykktar. Þar kom fram að ástand íbúða að Gilsbakka 5, 7, 9, og 11 skyldi skoðað og þær metnar með tilliti til framtíðarnýtingar þeirra sem leiguíbúða. Mat það liggur fyrir og ljóst að komið er að verulegu viðhaldi á íbúðunum, einnig er skortur á leiguíbúðum í sveitarfélaginu og brýnt að þeim fækki ekki. Í ljósi þess og í samræmi við framangreinda viljayfirlýsingu hafa Húnaþing vestra og Leigufélagið Bríet komist að samkomulagi um yfirtöku Bríetar á íbúðunum gegn eignarhlut sveitarfélagsins í félaginu. Felur það í sér að Bríet eignast íbúðirnar, yfirtekur núgildandi leigusamninga, tekur að sér endurbætur á íbúðunum og allan rekstur þeirra.

Lagðir fram útreikningar á virði íbúðanna að frádreginni viðhaldsþörf. Eignarhlutur Húnaþings vestra í Leigufélaginu Bríeti eftir yfirtöku verður 1,25%.

Byggðarráð samþykkir yfirtöku Leigufélagsins Bríetar á íbúðunum að Gilsbakka 5, 7, 9 og 11. Byggðarráð veitir Unni Valborgu Hilmarsdóttur sveitarstjóra, kt. 160673-3119, fullt og ótakmarkað umboð til að ganga frá yfirtöku Leigufélagsins Bríetar á íbúðunum að Gilsbakka 5 (213-3727), Gilsbakka 7 (213-3729), Gilsbakka 9 (213-3732) og Gilsbakka 11 (231-3733). Umboðið nær til þess að undirrita kaupsamning, uppgjör, afsal, skuldabréf og öll önnur nauðsynleg skjöl vegna yfirtöku framangreindra eigna.
Var efnið á síðunni hjálplegt?