Umsagnarbeiðni um drög að reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, mál nr. S-1812024

Málsnúmer 2409065

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1227. fundur - 30.09.2024

Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar drög að reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk. Húnaþing vestra er aðili að þjónustusamningi um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra þar sem Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag. Fagráð um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra og Byggðarráð Skagafjarðar hafa bókað umsögn um drög að umræddri reglugerð. Byggðarráð Húnaþings vestra tekur undir þá umsögn og gerir að sinni:

„Vísað er til þess að hagaðilar eru hvattir til að veita umsögn um drögin og þá sérstaklega þær tillögur sem snúa að því að hætta úthlutun á grundvelli raunkostnaðar til hliðar við almenna úthlutun á grundvelli stuðningsþarfa.

Almennt
Fjármögnun og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks hafa verið í umræðunni í langan tíma. Ýmsir starfshópar hafa verið að störfum sem hafa skilað skýrslum. Nú síðast í febrúar 2024 kom fram skýrsla um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk. Ljóst er að síðasta samkomulag ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir til að ná betur utan um kostnaðarauka í málaflokknum dugar ekki til. Skagafjörður leggur áherslu á að leggja þarf til aukna fjármuni til málaflokksins umfram þá sem myndast við árlegan tekjuvöxt sveitarfélaga.

Hætta úthlutun á grundvelli raunkostnaðar til hliðar við almenna úthlutun á grundvelli stuðingsþarfa
Eins og fram kemur í drögum er lagt til að gerð verði breyting á núgildandi framkvæmd og nefndar tvær leiðir til að afnema undanþágu vegna veitingu framlaga á grunni raunkostnaðar þ.e. leið A og leið B.
Tillaga A - gert er ráð fyrir því að ekki verði heimilt að greiða framlög vegna notenda, eldri en sjö ára, sem ekki hafa fengið samræmt mat stuðningsþarfa (SIS mat). Ef ekki liggur fyrir mat á stuðningsþörf notenda sem aldurs síns vegna hefur ekki getað fengið slíkt mat er heimilt að ákvarða útgjaldaþörf hans út frá raunkostnaði.
Tillaga B - gert er ráð fyrir því að heimilt verði að greiða framlög vegna notenda eldri en sjö ára sem ekki hafa fengið samræmt mat stuðningsþarfa (SIS mat) en ber þá að miða stuðningsflokk þeirra við flokk 5.
Skagafjörður tekur undir mikilvægi þess að afnema undanþágu vegna veitingu framlaga á grunni raunkosnaðar og mælir með tillögu A.
Markmið laga nr. 38/2018 er að fatlað fólk skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga, reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðningi meiri eða sérhæfðari en svo að henni sé fullnægt innan almennrar þjónustu, skal veita viðbótarþjónustu samkvæmt fyrrgreindum lögum. Lögin gera einnig ráð fyrir að við mat á stuðningsþörfum skuli stuðst við samræmdar aðferðir. Samræmt mat á stuðningsþörf er því mikilvægt til að gæta að jafnræði einstaklinga til þjónustu sem og til að gæta að jafnræði sveitarfélaga/þjónusvæða til fjármögnunar þjónustu. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður hafi haft forgöngu um samræmt mat á stuðningsþörf á landsvísu (SIS mat). Fram kemur í skýringum Ráðgjafar- og greingarstöðvar sem annast framkvæmd matsins að markmið með matinu sé að nýta niðurstöður til úthlutunar fjármagns og er mikilvægur liður í gerð einstaklingsbundinna þjónustuáætlana sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samræmt mat stuðlar að því að auka lífsgæði og stuðlar að auknum mannréttindum.

Viðmiðmiðunardagsetning fyrir samræmt mat á stuðningsþörfum verði 1. október ár hvert
Þegar viðmiðunardagsetning fyrir endanlegan útreikning framlaga er sett er mikilvægt að hafa í huga hvernig skipulag framkvæmdar matsins er í heimabyggð eftir að umsókn er samþykkt. Tilhögun í dag er sú að hvert landsvæði fær úthlutað tíma á ákveðnum tímabilum. Á þjónustusvæði Skagafjarðar nær það fram í september/október ár hvert, viðmiðunardagsetning í reglugerð kemur sér því illa í því samhengi.

Viðbótarframlög felld út
Ljóst er að framlögin voru tilkomin vegna verulegs íþyngjandi kostaðar umfram tekjur við yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaga. Íþyngjandi kostnaður er m.a. tilkominn vegna leiguskuldbindinga. Með því að fella framlögin út munu sveitarfélög ekki standa jafnfætis varðandi húsnæðiskostnað.

Innviðaframlag skýrt nánar með verklagsreglum
Jákvætt er að settar verði verklagsreglur um framkvæmdina. Mikilvægt er að geta brugðist við breytingum á skipan þjónustusvæða en gæta þarf einnig að uppbyggingu þjónustu í nærumhverfi innan þjónustusvæða þ.e. meta þjónustuuppbyggingu jafnhliða stærð svæða.

Samandregið
Skagafjörður leggur áherslu á framangreinda liði, ekki eru gerðar athugasemdir við aðrar breytingar í reglugerðardrögunum. Mikilvægt er að ný reglugerð komi í veg fyrir að það sé tvöfalt kerfi í gangi við mat á úthlutun. Með því að leggja aukna áherslu á samræmt mat á stuðningsþörf á landsvísu og telja matið til útgjaldaþarfar þjónustusvæða er meira gagnsæi í fjármögnun á milli þjónustusvæða, að því gefnu að innviðaframlag sé vel skilgreint með verklagsreglum sem taka mið af uppbyggingu þjónustu innan þjónustusvæða. Rétt er að geta þess að verulega íþyngjandi er fyrir fjármögnun NPA samninga að búið sé að fella ákvæði um 25% framlag ríkisins til gerðra samninga."


Var efnið á síðunni hjálplegt?