Rafmagnsrof frá aðveitustöð við Hrútatungu í september 2024

Málsnúmer 2409070

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1227. fundur - 30.09.2024

Dagana 23.-25. september kom ítrekað upp rafmagnsrof vegna vinnu við aðveitustöð í Hrútatungu. Upplýsingagjöf vegna rafmagnsleysins var ábótavant auk þess sem fyrirvarinn var skammur. Á þessum tíma árs er Sláturhús Kaupfélags Vestur Húnvetninga á Hvammstanga rekið á hámarks afköstum og kom ítrekað straumrof verulega illa við starfsemi þess sem skipulögð er viku til tíu daga fram í tímann. Stöðva þurfti vinnslulínu ítrekað með tilheyrandi óþægindum og fjárhagslegu tjóni. Áhrifin voru jafnframt nokkur á rekstur Hitaveitu Húnaþings vestra sem leiddi af sér fjárhagslegt tjón. Fleiri aðilar urðu fyrir verulegum óþægindum vegna lélegrar upplýsingagjafar og skamms fyrirvara. Kvörtunum var komið á framfæri við RARIK vegna þessa og funduðu sveitarstjóri, oddviti og formaður byggðarráðs með fulltrúum RARIK í framhaldinu. Einkum voru gerðar athugasemdir við upplýsingagjöf og skamman fyrirvara. Einnig voru gerðar athugasemdir við að varaafl var ekki til staðar í nægu magni auk þess sem aðrar aðveituleiðir önnuðu ekki álagi. Jafnframt var gerð athugasemd við að nauðsynleg straumrof sem aðgerðinni fylgdu hafi ekki verið framkvæmd að kvöldi eða nóttu til svo áhrif á íbúa og atvinnustarfsemi væru lágmörkuð.
Aðgerðin var raforkuöryggi svæðisins brýn og hafði staðið til um nokkurt skeið. Við flóknar aðgerðir sem þessar geta alltaf komið upp ófyrirsjáanleg atvik sem leiða til frekari bilana líkt og gerðist í þessu tilviki. Byggðarráð sýnir því fullan skilning. Við slíkar aðstæður er undirbúningur og upplýsingamiðlun þess mikilvægari og brýnt að helstu hagaðilar séu hafðir með í því samtali sem á sér stað í aðdragandanum. Ráðið bindur vonir við að samtal það sem fram fór við fulltrúa RARIK leiði til þess að tillit verði tekið til athugasemda í framtíðar framkvæmdum sem leiða af sér straumrof svo áhrif þess á samfélagið verði lágmörkuð.
Var efnið á síðunni hjálplegt?