Holtavörðulína 1, umsagnarbeiðni vegna umhverfismatskýrslu.

Málsnúmer 2410023

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisráð - 371. fundur - 12.11.2024

Skipulags- og umhverfisráð vill leggja áherslu á mikilvægi þess að vernda Snjófjöll og Tröllakirkju á Holtavörðuheiði. Svæðið er vinsælt göngu- og útivistarsvæði og áberandi í landslagi. Þar sem ummerki mannsins eru lítil sem engin á þessum stað, er svæðið afar viðkvæmt fyrir breytingum. Holtavörðuheiði býr að háu verndarákvæði, og Snjófjöllin hafa mikið útivistargildi, sem gerir það að verkum að sérstaka varúð þarf að sýna við allar framkvæmdir á svæðinu.

Nefndin kallar eftir því að í öllum framkvæmdum á svæðinu verði lögð áhersla á vandaðan frágang og umhverfisvernd þannig að ásýnd og náttúrufegurð haldist að mestu óbreytt. Einnig skal kappkostað að mannvirki og sýnileg ummerki verði í lágmarki, með það að markmiði að tryggja náttúrulegan heildarsvip svæðisins til framtíðar.

Við þetta telur nefndin að bæði verði gætt að náttúruverndarsjónarmiðum og stuðlað að því að útivistargildi svæðisins haldist og verði ákjósanlegt fyrir komandi kynslóðir.

Þrátt fyrir möguleg neikvæð áhrif telur nefndin að töluverð jákvæð áhrif skapist fyrir samfélagið og atvinnuþróun vegna bættrar afhendingar orku og aukins afhendingaröryggis.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að gera ekki athugasemdir við umhverfismatsskýrslu Holtavörðuheiðalínu 1.

Var efnið á síðunni hjálplegt?