Myndskreyting á hafnarvogarhúsi á Hvammstanga eftir juanpicturesart.
Út er komin skýrslan Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum sem unnin er af Bjarka Þór Grönfeldt og Vífli Karlssyni. Byggir hún á rannsókn sem unnin var við Háskólann á Bifröst með styrk úr Byggðarannsóknarsjóði og Rannsóknarsjóði Háskólans á Bifröst.
Í rannsókninni er gerð tilraun til að beita aðferðarfræði félagssálfræðinnar á byggðamál á Íslandi. Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að byggðabragur geti verið gjörólíkur á milli sveitarfélaga þrátt fyrir svipaða samfélagsgerð. Hefur Húnaþing vestra komið betur út úr íbúakönnunum en nágrannasveitarfélögin Húnabyggð og Dalabyggð. Greindi Vífill Karlsson þá niðurstöðu sérstaklega með tilliti til munar á Dalabyggð og Húnaþingi vestra í aðskildri rannsókn. Sjá hér.
Í rannsókn þeirri sem nýútgefin skýrsla fjallar um kemur í ljós marktækur munur greindist á fjölmörgum mælikvörðum en mesta muninn má greina í þáttum eins og félagslegri samheldni, trú á getu samfélagsins til að takast á við áskoranir og hversu vel íbúar gátu uppfyllt þarfir sínar í sveitarfélaginu. Þá var afgerandi munur á hvort hrepparígur væri vandamál, hvort erfiðleikar væru í samstarfi dreifbýlis og þéttbýlis og hvort slúður og neikvæðni væru metin sem vandamál í sveitarfélaginu. Húnaþing vestra skilaði betri niðurstöðu á þessum mælikvörðum ein hin sveitarfélögin.
Voru haldnir rýnihópar í öllum sveitarfélögunum með það að markmiði að greina hvað gæti valdið þessum mun á milli þeirra. í stuttu máli má segja að niðurstöður úr rýnihópunum hafi verið eftirfarandi:
- Samfélagið í Húnaþingi vestra er mun opnara og auðveldara fyrir nýtt fólk að komast inn í það en í Dalabyggð og Húnabyggð. Á það bæði við um aðflutta Íslendinga sem og innflytjendur.
- Íbúar í Húnaþingi vestra eru stoltir af sterkum fyrirtækjum í eigu heimamanna og njóta góðs af því að hafa áhrif á þjónustu þeirra. Eignarhald “yfir björgunum” virðist skipta miklu máli og ljáir íbúunum rödd og færir þeim trú á samfélagið.
- Húnaþing vestra virðist virka sem ein heild á meðan meiri togstreita sé á milli dreifbýlis og þéttbýlis í Dalabyggð og Húnabyggð. Er þetta tengt við farsæla sameiningu sem meira eða minna afmáði hrepparíg í Húnaþingi vestra á meðan sameiningarmál hafa gengið brösuglega í hinum tveimur sveitarfélögunum.
Skýrslan er aðgengileg hér.