Forsætisráðuneytið hefur skipað sérstaka landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra sem hefur það hlutverk að koma með tillögur sem miða að því að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingu á svæðinu. Unnur Valborg Hilmarsdóttir var skipuð af forsætisráðuneytinu í nefndina sem fulltrúi Húnaþings vestra. Í tilkynningu segir:
„Þann 9. maí sl. samþykkti ríkisstjórnin að skipuð yrði sérstök landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra sem komi með tillögur sem miða að því að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingu á svæðinu. Jafnframt skuli nefndin horfa til þeirra tækifæra sem liggja í því hvernig efla megi opinbera þjónustu á svæðinu en hún hefur dregist
umtalsvert saman á undanförnum árum. Nefndin er undir forystu forsætisráðuneytis en mikilvægt að öll ráðuneyti og hlutaðeigandi stofnanir vinni með nefndinni. Nefndin skal hafa samráð um vinnu sína við starfshóp Stjórnarráðsins um byggðamál sem er samhæfður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og starfsmaður Byggðastofnunar vinnnur með.
Í nefndinni sitja: Stefán Vagn Stefánsson (formaður) yfirlögregluþjónn, Sigríður Svavarsdóttir, framhaldsskólakennari, Héðinn Unnsteinsson stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri og Valgarð Hilmarsson framkvæmdastjóri. Með nefndinni starfar Ásmundur Einar Daðason alþingismaður og aðstoðarmaður forsætisráðherra. Starfsmaður nefndarinnar kemur frá Byggðastofnun.
Nefndin skal skila tillögum sínum eigi síðar en 1. nóvember 2014. Fyrir 1. júlí skal nefndin skila forsætisráðherra verk- og tímaáætlun um fyrirhugað starf.“