Skráning safngripa á Byggðasafninu Reykjum

Skráning safngripa á Byggðasafninu Reykjum

Undanfarin tvö ár hefur Byggðasafnið á Reykjum unnið markvisst að skráningu safngripa.

En hvað er skráning safngripa? Það er von að einhver spyrji sig að því. Hver og einn safngripur á sér sögu og það er mikilvægt að þessi saga sé kirfilega skráð niður með skipulögðum hætti. Nákvæm skráning er lykilatriði safnastarfs og varðveislu menningarminja. Það gerir allt safnastarf svo mikið auðveldara. Uppsetning sýninga verður til dæmis auðveldari og markvissari þegar gott aðgengi er að upplýsingum. Hver gripur sem kemur á safnið okkar fær skráningarnúmer sem mætti líkja við kennitölurnar okkar. Þegar gripirnir hafa fengið sitt númer hefst heljarinnar ferli. Gripirnir eru skráðir í skráningarkerfið Sarp, þeir eru ljósmyndaðir og síðan er þeim pakkað svo vel fari um þá þannig að þeir varðveitist sem best til framtíðar.

Eins og fyrr segir hefur Byggðasafnið fengið styrki tvisvar frá Safnasjóði til verkefnisins. Í fyrsta skipti var Birta Þórhallsdóttir ráðin til verkefnisins en í seinna skiptið Ágúst Örn Jóhannesson, sem starfað hefur hjá byggðasafninu um áraskeið. Nú hefur byggðasafnið fengið styrk í þriðja skiptið frá Safnasjóði og mun Ágúst sjá aftur um verkefnið. Á þessum árum sem verkefnið hefur verið starfrækt hafa starfsmenn skráð hátt í 2000 gripi. Við erum mjög stolt af þessum árangri og hlökkum til að halda áfram. Þeir sem vilja fylgjast með verkefninu geta skoðað skráningarsíðuna okkar á Sarpi (https://sarpur.is/UmSafn.aspx?SafnID=17) eða jafnvel komið í heimsókn til okkar á safnið.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af safngripum:

Var efnið á síðunni hjálplegt?