292. fundur

292. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn fimmtudaginn 14. desember 2017 kl. 15:00 .

Fundarmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti, Elín Jóna Rósinberg, varaoddviti, Elín R. Líndal aðalmaður, Magnús Eðvaldsson, varamaður, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, aðalmaður, Valdimar Gunnlaugsson aðalmaður og Ingimar Sigurðsson aðalmaður.

Starfsmenn

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri.
Guðrún Ragnarsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Guðrún Ragnarsdóttir

1.  Fundargerðir byggðarráðs, formaður kynnti.
Fundargerð 952.  fundar
frá 13. nóvember sl.  Fundargerð í 2 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 

Fundargerð 953.  fundar frá 13. nóvember sl.  Fundargerð í 9 liðum.
5. dagskrárliður erindi Sólrúnar G. Rafnsdóttur.  Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.  

6. dagskráliður erindi Þorbjargar Ingu Ásbjarnardóttur og Jóhannesar Óskars
Sigurbjörnssonar
.  Lögð fram eftirfarandi tillaga „Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur sveitarstjóra að hafa eftirlit með framkvæmdinni“.  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 955. fundar frá 17. nóvember sl.  Fundargerð í 1 lið.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 956. fundar frá 4. desember sl.  Fundargerð í 11 liðum.
4. dagskrárliður umsagnir um veitingu rekstrarleyfa til handa Ferða ehf. um rekstur gististaðar skv. IV flokki að Brekkulæk og N1 til reksturs veitingastaðar skv. II flokki í Staðarskála. Afgreiðsla byggðarráðs staðfest með 7 atkvæðum.
6. dagskrárliður bréf Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2017/2018 til Húnaþings vestra, ásamt reglum um úthlutun kvótans.  Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
11. dagskrárliður bréf Rakelar Jönu Arnfjörð, krafa um greiðslu húsaleigubóta ásamt úrskurði Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.  Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
957. fundur byggðarráðs frá 11. desember sl.
3. dagskrárliður um framlengingu tímabundins afsláttar af gatnagerðargjöldum.  Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
4. dagskrárliður breyting á skipuriti Húnaþings vestra.

Á 868. fundi byggðarráðs þann 4. maí 2015 var samþykkt að víkja tímabundið frá gildandi skipuriti Húnaþins vestra með ráðningu byggingafulltrúa sem ekki gegndi jafnframt stöðu sviðsstjóra líkt og skipuritið kvað á um. Á 879. fundi byggðarráðs þann 7. september 2015 var oddvita og formanni byggðarráðs falið að yfirfara skipurit Húnaþings vestra í kjölfar aukinna umsvifa sveitarfélagsins vegna hitaveitu.  Í framhaldinu var ákveðið að bíða með þá endurskoðun þar til reynsla hefði komið á umsvif veitna í kjölfar þeirra framkvæmda sem staðið hafa yfir.

Nú er orðið ljóst að umsvif hitaveitu hafa aukist gríðarlega með stækkun hennar en hún er nú orðin 140 km löng samanborið við 20 km áður en framkvæmdir hófust auk þess sem dæluhús eru fimm. Umsýsla og viðhald í tengslum við hitaveitu hefur vegna stækkunar hennar margfaldast. Nauðsynlegt er því að gera henni hærra undir höfði í skipuritinu og skilgreina skýrt ábyrgðaraðila fyrir daglegum rekstri hennar. Einnig hefur reynsla annarra sveitarfélaga sýnt að erfitt hefur reynst að fá aðila til starfa sem uppfylla skilyrði skipulags- og byggingafulltrúa og jafnframt gegna starfi sviðsstjóra líkt og gildandi skipurit kveður á um. Sveitarfélög sem slíkt skipulag hafa eru mörg að hverfa frá því af þeim sökum.

Í ljósi þessa er lögð fram tillaga að breytingu á skipuriti þar sem starfi sviðsstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs er breytt í sviðsstjóra, veitu-, framkvæmda- og umhverfissviðs. Einnig er veitum gefið sérstakt rými innan skipuritsins vegna aukinna umsvifa eins og fram hefur komið. Gengið er út frá því að sviðsstjóri annist daglegan rekstur, áætlanagerð, samningagerð, verkefnastýringu og fleira sem að veitum snýr auk annarra starfa sviðsstjóra í tengslum við verkefni rekstrarstjóra, umhverfisstjóra og slökkviliðsstjóra. Gert er ráð fyrir að  starfsmenn áhaldahúss sjái um viðhald veitna í samstarfi við sviðsstjóra. Skipulags- og byggingafulltrúar fá auk þess sér rými í skipuritinu enda hefur sýnt sig að umsvif þessara þátta hafa aukist mikið, bæði vegna aukinna framkvæmda í sveitarfélaginu sem útlit er fyrir að áfram verði miklar næstu ár en einnig vegna aukinna krafna sem til þessara aðila og framkvæmdaaðila eru gerðar. Önnur störf innan sviðsins eru óbreytt.

Frá því að skipurit Húnaþings vestra tók gildi í kjölfar sameiningar Húnaþings vestra og Bæjarhrepps hafa einnig orðið breytingar á fjármála- og stjórnsýslusviði með ráðningu forstöðumanns safna og er sú breyting sett inn í nýtt skipurit.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir ráðningu nýs sviðsstjóra. Aðrar breytingar hafa ekki áhrif á fjárhagsáætlun.

Sveitarstjórn samþykkir nýtt skipurit og felur sveitarstjóra að gera tillögu að auglýsingu og matskvörðum fyrir umsækjendur starfsins og leggja fyrir byggðarráð.
Skipuritið borið undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
5. dagskrárliður bréf Rakelar Jönu Arnfjörð vegna afgreiðslu byggðarráðs á 956. fundi á umsókn hennar um greiðslu húsaleigubóta.   Sveitarstjórn vísar í afgreiðslu 956. fundar byggðarráðs 11. lið um staðfestingu á afgreiðslu byggðarráðs. Samþykkt með 7 atkvæðum.
6. dagskrárliður tillögur starfshóps um framtíðarskipan skólamála í Húnaþingi vestra.  Í samræmi við bókun 940. fundar byggðarráðs þá hefur tillagan verið kynnt fyrir sveitarstjórn og fer nú til umræðu og umsagnar nemenda/nemendaráðs, fræðsluráðs sem og í almenna kynningu  á vef sveitarfélagsins þar sem íbúum er gefinn kostur á að gera athugasemdir.  Starfshópnum og öðrum sem komu að vinnu tillagnanna eru þökkuð vel unnin störf.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

2.  Fundargerð skipulags- og umhverfisráðs, oddviti kynnti
Fundargerð 290. fundar
 frá 7. desember sl.  Fundargerð í 9 liðum.
1. dagskrárliður 1710008  borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
2. dagskrárliður 1710009  borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
3. dagskrárliður 1709083  borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
4. dagskrárliður 1710006  borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
5. dagskrárliður 1711034  borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
7. dagskrárliður 1712001  borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
8. dagskrárliður 1712010  Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
„Aðalskipulag Húnaþings vestra 2014-2026 – Breyting á aðalskipulagi vegna breyttar legu á Vatnsnesvegi nr. 711 ásamt nýjum efnistökusvæðum. „Húnaþing vestra vinnur nú að breytingum á aðalskipulagi Húnaþings vestra að ósk Vegagerðarinnar. Ástæða breytingarinnar er vegna breyttrar legu Vatnsnesvegar 711, nýs brúarstæðis yfir Tjarnará, ásamt nýjum efnistökusvæðum. „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir að leita umsagna og kynna skipulags-og matslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 eins og 1. mgr. 30 . gr. og 36 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 4.2.4 reglugerðar 90/2013 mælir fyrir um.“ Dagskrárliðurinn ásamt tillögunni borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
9. dagskrárliður 1712011  Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
Aðalskipulag Húnaþings vestra 2014-2026 - Óveruleg breyting á aðalskipulagi vegna fjarskiptamasturs og tækjahúss Neyðarlínunnar á Holtavörðuheiði.  Breytingin felur í sér textabreytingu í greinagerð í kafla 3.4.9 um fjarskipti, þar sem ný fjarskiptastöð Neyðarlínunnar á Bláhæð verður bætt í upptalninguna sem og nýtt tákn á uppdráttinn(S). Sveitarstjórn telur að um óverulega breytingu á aðalskipulagi sé að ræða þar sem þetta hafi ekki áhrif á aðra landnotkun, svæðið sé ekki innan verndarsvæðis og hafi áhrif á mjög afmarkað svæði.  Sveitarstjórn telur þetta einnig jákvæðar fyrirætlanir m.t.t. öryggissjónarmiða. Sveitarstjórn samþykkir breytinguna á aðalskipulaginu skv. 2 mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er sveitarstjóra falið að senda Skipulagsstofnun breytinguna til staðfestingar.“
Dagskrárliðurinn ásamt tillögunni borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

3.  Fundargerð landbúnaðarráðs, oddviti kynnti.

Fundargerð 154. fundar frá 15. nóvember sl.   Fundargerð í 2 liðum.
Sveitarstjórn tekur undir mótmæli landbúnaðarráðs um niðurlagningu Blöndulínu.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 155. fundar frá 6. desember sl.  Fundargerð í einum lið.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.  Fjárhagsáætlun ársins 2018 ásamt 3ja ára áætlun fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.  Síðari umræða.
Lögð fram til síðari umræðu tillaga að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2018 ásamt áætlun fyrir árin 2019-2021.
Lögð fram svohljóðandi tillaga  „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2019-2021 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.”  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

 

Húnaþing vestra
Fjárhagsáætlun 2018
Greinargerð

Gerð fjárhagsáætlunar 2018

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 hefur eins og undanfarin ár verið lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins og skynsemi í framkvæmdum. Sem fyrr hefur samvinna  á  milli meirihluta og minnihluta sveitarstjórnar um áherslur við fjárhagsáætlunargerð verið afar góð.  Fjárhagsáætlanir  einstakra  deilda  eru  unnar  í  góðri  samvinnu  við forstöðumenn stofnana.

Í samræmi við ákvæði fjármálareglna um skuldaviðmið og jafnvægi í rekstri sveitarfélaga er rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar ársins 2018  fyrir samstæðu A-  og  B-hluta sveitarsjóðs jákvæð.  Skuldahlutfallið er skv. áætlun 59,5% fyrir árið 2018 en má skv. ákvæðum fjármálareglna mest vera 150%. Fyrir árið 2017 var þetta viðmið áætlað 65,5% en skv. útkomuspá er það 59,8. Skv. þriggja ára áætlun verður skuldaviðmiðið árið 2019 60,8%, 62,8% árið 2020 og 63,7 % árið 2021.

 

Til samanburðar má sjá hér yfirlit yfir skuldahlutfall síðustu ára:

 

Ánægjulegt er að sjá að þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir síðustu ára þá hefur skuldahlutfallið lækkað.

Undanfarin ár hefur fjármagnskostnaður  sveitarfélagsins  lækkað  umtalsvert  þar sem ekki voru tekin lán á árunum 2011-2014 og 2016. Árin 2015 og 2017 voru tekin lán vegna framkvæmda við hitaveitu í dreifbýli samtals kr. 100 millj. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir lántöku vegna hitaveituframkvæmda kr. 50 milljónir og hjá eignasjóði vegna viðbyggingar við íþróttamiðstöð kr. 40 milljónir. Á sama tíma eru eldri lán greidd niður um kr. 50 milljónir.

Á  liðnum  árum  hefur  sveitarstjórn  Húnaþings  vestra  almennt  hækkað  gjaldskrár  í  samræmi  við  verðlagsbreytingar og er sami háttur hafður á fyrir árið 2018.  Þó  skal  nefnt  að  vistunargjald  leikskóla  hefur  ekki  verið hækkað  frá  árinu  2011.

Álagningaprósenta A-gjalds fasteignaskatts er lækkuð á ný í áætlun ársins 2018 þar sem fasteignamat í sveitarfélaginu hækkaði nokkuð á milli ára.  Greiðslur fasteignaeigenda í Húnaþingi vestra eiga því almennt að vera svipaðar árið 2018 og þær voru 2017.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur sem fyrr mikið upp úr stuðningi við íþrótta- og tómstundastarf barna á árinu 2018.  Það er meðal annars gert með myndarlegum styrkjum til USVH sem svo útdeilir því fjármagni til íþróttafélaganna í sveitarfélaginu. Einnig er veittur frístundastyrkur eins og undanfarin ár fyrir hvert barn frá 6 ára aldri allt til 18 ára aldurs. Á árinu 2018 er frístundastyrkur hækkaður.   Framboð íþróttagreina hjá íþróttafélögunum í sveitarfélaginu er sem fyrr gott og æfingagjöld lág.  Skiptir þar án efa styrkur sveitarfélagsins til félaganna, ekki bara fjárhagslegur heldur líka í formi afnota af íþróttamannvirkjum, miklu máli.  Þá eru greiddir akstursstyrkir til foreldra í dreifbýli sem þurfa að keyra sérstaklega til að koma / sækja börn á æfingar. 

Gjöld í Tónlistarskóla Húnaþings vestra eru sömuleiðis með þeim lægstu á landinu og ekki hafa verið settar takmarkanir á nemendafjölda við tónlistarskólann eins og víða tíðkast. Úrval hljóðfæra í boði fyrir nemendur tónlistarskólans er einnig með allra besta móti. 

Eins og undanfarin ár mun sveitarfélagið halda áfram að styðja myndarlega við dreifnám Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra m.a. með greiðslu á húsaleigu fyrir skólahúsnæðið og rekstur þess sem og kaupum á nauðsynlegum búnaði. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir því að þessi styrkur nemi 6,2 milljónum króna.

Á  árinu  2018  er áfram gert  ráð  fyrir  talsverðum  fjárfestingum  og  framkvæmdum  á  vegum  sveitarfélagsins  líkt og verið hefur undanfarin ár.  Umfangsmiklum hitaveituframkvæmdum í dreifbýli sem staðið hafa frá árinu 2015 er nú lokið í bili.  Á árinu 2018 er gert ráð fyrir undirbúningi næstu skrefa í stækkun hitaveitunnar með borun eftir heitu vatni á Reykjatanga og rannsóknum á hvort vænlegt er að bora á Borðeyri.  Verði niðurstöður góðar verður hitaveituframkvæmdum í dreifbýli haldið áfram og gert ráð fyrir þeim í áætlunum áranna 2019, 2020 og 2021.  Þá er fyrirhugað að fara í viðamiklar viðhaldsframkvæmdir við hitaveitu á Hvammstanga á næstu árum enda lagnir þar sumar að nálgast hálfrar aldar afmælið.

Stærstu  fjárfestingarverkefni  ársins  2018  eru áframhaldandi vinna við stækkun íþróttamiðstöðvar, gatnagerð, undirbúningur fyrir áframhaldandi framkvæmdir við hitaveitu eins og áður kom fram sem og lagning ljósleiðara. Einnig er gert ráð fyrir að unnið verði að hönnun viðbyggingar við Grunnskóla Húnaþings vestra á árinu 2018 sem og áframhaldandi vinnu við hönnun og uppbyggingu leik- og frístundasvæðis við skólann.

Húnaþing  vestra  veitir sem fyrr fjölmörgum  félagasamtökum  og  menningarverkefnum  styrki  á  árinu 2018  að fjárhæð alls  26,9  milljónir króna.  Því til viðbótar eru greiddir styrkir til leikfélags, styrkir vegna fasteignagjalda og hitaveitu til félaga o.fl. Að síðustu skal nefnt  að í fjárhagsáætlun ársins 2018 er  gert ráð fyrir að áfram verði fjármagni veitt í  Framkvæmda-  og nýsköpunarsjóð Húnaþings  vestra sem stofnaður var árið 2014.  Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu og hefur hann sannað sig því styrkveitendur hafa stofnað ný fyrirtæki og styrkt eldri.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2018

Áætlunin er lögð fram með um 12,8 millj. kr. tekjuafgangi. Áætlað er að fráveita, hitaveita og vatnsveita skili rekstarafgangi en önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla.

Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 1.404 millj. kr. en gjöld 1.371,6 millj. kr. án fjármagnsliða.

Fjármagnsliðir eru áætlaðir 19,3 millj. kr.

Veltufé frá rekstri til greiðslu afborgana lána og til fjárfestinga er kr. 84 millj.

Hlutfall veltufjár frá rekstri er áætlað 6%

Áætlað er að afborgun langtímalána nemi kr. 50,0 millj.  á árinu 2018.

Handbært fé í árslok 2018 er áætlað kr. 14,7 millj. sem er lækkun um 31,1 millj. kr. frá ársbyrjun.

Gert er ráð fyrir hækkun á liðnum eigið fé um 12,8 millj. kr. frá afkomuspá ársins 2017.

Gert er ráð fyrir hækkun skulda og skuldbindinga um 24,5 millj. kr. frá afkomuspá ársins 2017.

Gert er ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu á árinu 2018 upp á  kr. 153 milljónir.

Í þriggja ára áætlun, árin 2019, 2020 og 2021, er gert ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu samtals að upphæð kr. 424 millj., aðallega vegna hitaveitu, lagningu ljósleiðara, framkvæmda við vatnsveitu sem og viðbyggingar við grunnskóla. Á árunum 2019, 2020 og 2021 er gert ráð fyrir lántökum samtals að upphæð 325 millj. kr.  en á sama tíma verði á því tímabili sem áætlunin nær til greidd niður lán um 178 millj. kr.

Sveitarstjórn fagnar því að rekstur sveitarfélagsins leyfi áframhaldandi framkvæmdir til hagsbóta fyrir íbúa í Húnaþingi vestra. Þessar framkvæmdir eru aðeins mögulegar vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og jafnvægi í rekstri undanfarin ár.  Afar mikilvægt er að halda áfram að sýna ráðdeild í rekstri, halda fyrirhugðum framkvæmdum áfram af skynsemi og  lágmarka lántökur eins og kostur er.

5.  Skýrsla sveitarstjóra.

Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega fundi sveitarstjórnar.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 16:27

 

 

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?