Oddviti setti fund og óskaði eftir að bæta á dagskrá sem 9. dagskrárlið bókun sveitarstjórnar Húnaþings vestra vegna alvarlegra aðstæðna í sveitarfélaginu síðustu sólarhringa og 10. lið styrkur til Björgunarsveitarinnar Húna. Samþykkt með 7 atkvæðum.
1. Fundargerð byggðarráðs, formaður kynnti.
Fundargerð 1024. fundar byggðarráðs frá 2. desember sl. Fundargerð í 11 liðum.
Dagskrárliður 1. Lögð fram umsókn frá Júlíusi Þór Júlíussyni fyrir hönd Hoffells ehf.um byggingarlóð undir parhús að Lindarvegi 3 á Hvammstanga. Byggðarráð samþykkir ofangreinda umsókn. Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 9. Lagt fram minnisblað um verklag framkvæmda við viðbyggingu Grunnskóla Húnaþings vestra. Fyrirliggjandi drög samþykkt með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 11. Áform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs og gerir að sinni. „Sveitarstjórn Húnaþings vestra hvetur stjórnvöld eindregið til þess að leggja til hliðar fyrirliggjandi áform um lagasetningu vegna stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Sveitarstjórn bendir á að fjölmörg sveitarfélög hafa gert verulegar athugasemdir við eða hafnað alfarið framkomnum tillögum nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, sem kynntar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. Sveitarstjórn Húnaþings vestra ítrekar að samkvæmt lögum er skipulagsvald, þ.e. vinnsla og samþykkt svæðis-, aðal- og deiliskipulags á höndum sveitarfélaga. Það er því ekki í verkahring ráðherraskipaðar nefndar, ráðherra eða Alþingis að hafa með beinum hætti áhrif á skipulag sveitarfélaga með því að gera tillögu að legu þjóðgarðs á miðhálendinu innan marka þeirra.
Þá leggur sveitarstjórn Húnaþings vestra áherslu á að hugmyndir um stofnun eins heildstæðs þjóðgarðs á miðhálendi Íslands geti ekki raungerst nema í víðtækri sátt við sveitarfélögin í landinu.“ Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild samþykkt með 7 atkvæðum.
2. Fundargerð félagsmálaráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 208. fundar félagsmálaráðs frá 4. desember sl. Fundargerð í 4 liðum.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
3. Fundargerð fræðsluráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 205. fundar fræðsluráðs frá 27. nóvember sl. Fundargerð í 3 liðum. Sveitarstjórn frestar afgreiðslu fundargerðar 205. fundar fræðsluráðs og óskar eftir frekari upplýsingum varðandi 1. lið. Drög að reglum varðandi stuðning við starfsmenn í réttindanámi.
4. Fundargerð landbúnaðarráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 171. fundar landbúnaðarráðs frá 4. desember sl.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu fundargerðar 171. fundar landbúnaðarráðs.
5. Fundargerð skipulags- og umhverfisráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 316. fundar skipulags- og umhverfisráðs frá 5. desember sl. Fundargerð í 5 liðum.
1. dagskrárliður 1912003 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
2. dagskrárliður 1910034 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
3. dagskrárliður 1912002 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
4. dagskrárliður 1912013 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
5. dagskrárliður 1912012 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
6. Drög að húsnæðisáætlun lögð fram til kynningar. Umræðu frestað til næsta fundar.
7. Lögð fram tillaga að byggðarráð fari með stjórn Félagsheimilisins Hvammstanga frá 1. janúar nk. Tillagan samþykkt með 7 atkvæðum.
8. Lagður fram viðauki 5 við fjárhagsáætlun 2019. Sveitarstjóri og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs leggja fram tillögu um viðauka við fjárhagsáætlun 2019 að upphæð 14.588 þúsund kr. vegna stofnframlags í Leigufélagið Bústaður hses. Kostnaði verður mætt með lækkun á handbæru fé. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
9. Bókun sveitarstjórnar Húnaþings vestra vegna alvarlegra aðstæðna í sveitarfélaginu síðustu sólarhringa.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra lítur atburði síðustu sólarhringa grafalvarlegum augum. Ljóst er að allir helstu opinberu innviðir samfélagsins brugðust í því veðuráhlaupi sem nú gengur yfir.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem staðið hafa vaktina hafa unnið þrekvirki síðustu daga við að koma á rafmagni, fjarskiptum og greiða fyrir samgöngum eins og kostur er. Fórnfýsi þessa fólks er okkur sem hér búum algerlega ómetanleg.
Húnaþing vestra hefur verið rafmagnslaust í rúmlega 40 klukkustundir, hluti sveitarfélagsins er ekki enn kominn með rafmagn og ekki vitað hversu lengi það ástand varir. Ljóst er að nú þegar hefur orðið talsvert tjón hjá íbúum og eykst það eftir því sem tíminn líður.
Það er algerlega óviðunandi að grunnstofnanir samfélagsins, RARIK, Landsnet og fjarskiptafyrirtækin hafi ekki verið betur undirbúin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru Björgunarsveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálfboðavinnu, vel undirbúin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á.
Óásættanlegt er að tengivirkið í Hrútatungu hafi verið ómannað þrátt fyrir yfirlýsingar Landsnets um annað. Sveitarstjórn Húnaþings vestra gerir þá grundvallarkröfu að á svæðinu sé mannafli sem getur brugðist við með skömmum fyrirvara. Starfsstöð RARIK á Hvammstanga er einmenningsstarfsstöð og hefur því ekki burði til að takast á við aðstæður sem þessar. Nú stendur fyrir dyrum að RARIK leggi niður starfsstöðina á Hvammstanga sem sveitarstjórn telur með öllu óviðunandi. Aðstæður síðustu daga sýna fram á mikilvægi þess að á Hvammstanga sé starfandi vinnuflokkur með a.m.k. tveimur til fjórum stöðugildum. Engin varaaflsstöð er í Húnaþingi vestra og hefði verið hægt að lágmarka vandann ef slík stöð væri staðsett á Hvammstanga.
Í kjölfar víðtæks rafmagnsleysis duttu öll samskipti út, farsímasamband og Tetra kerfi lögreglu. Lífsspursmál er að íbúar sveitarfélagsins geti náð í viðbragðsaðila ef alvarleg slys eða veikindi ber að höndum.
Hlutverk fjölmiðla er mjög mikilvægt í aðstæðum líkt og sköpuðust síðustu daga og þá sérstaklega er litið til öryggishlutverks Ríkisútvarpsins sem brást algerlega. Dreifikerfi RÚV lá niðri víða í sveitarfélaginu og náðust sendingar illa eða alls ekki. Almennri upplýsingagjöf til íbúa um stöðu og horfur var ekki sinnt. Litlar sem engar fréttir bárust frá Húnaþingi vestra þrátt fyrir að veðuraðstæður væru hvað verstar á þessu svæði og útvarpið nær eina leið íbúa til að fá upplýsingar. Ótækt er að vísað sé til vefsíðna til frekari upplýsinga um stöðu mála þegar hvorki er rafmagn né fjarskiptasamband.
Grafalvarlegt er að ekki sé starfsstöð lögreglu á svæðinu sérstaklega við aðstæður sem þessar. Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur ítrekað vakið máls á þessu án nokkurra undirtekta.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir áhyggjum sínum af því að ekki er varaaflstöð við Heilbrigðisstofnun Vesturlands Hvammstanga. Sveitarstjórn hvetur til að úr því verði bætt hið snarasta.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra mun á næstu dögum óska eftir fundum með RARIK, Landsneti, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, lögreglu og stjórnvöldum.
Bókunin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
10. Styrkur til Björgunarsveitarinnar Húna. Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir að styrkja Björgunarsveitina Húna um 1. millj. kr. fyrir óeigingjarnt starf, oft við erfiðar aðstæður, í þágu samfélagsins.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:31