325. fundur

325. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn sunnudaginn 22. mars 2020 kl. 15:00 .

Fundarmenn

Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti, Friðrik Már Sigurðsson, aðalmaður, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, aðalmaður, Ingveldur Ása Konráðsdóttir, aðalmaður, Magnús Magnússon, aðalmaður, Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður og Sigríður Ólafsdóttir, aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.

Guðrún Ragnarsdóttir 

Fundargerð ritaði: Guðrún Ragnarsdóttir

Oddviti setti fund og óskaði eftir að bæta á dagskrá sem 2. dagskrárlið tilkynningu frá aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi vestra  og sem 3. dagskrárlið heimild til fullnaðarafgreiðslu og breytinga á innheimtu gjalda. Samþykkt samhljóða.

  1.        Tímabundin heimild til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarstigs almannavarna. 

Þriðjudaginn 17. mars 2020 samþykkti Alþingi breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Breytingarnar kveða á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Þetta er gert til að bregðast við aðstæðum sem hafa skapast vegna COVID-19 faraldurs. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að rétt þyki að rýmka reglur um fjarfundi til að bregðast við tilmælum yfirvalda um sóttvarnir, án þess að það torveldi ákvarðanatöku innan stjórnkerfis sveitarfélaga. Auglýsing um ákvörðun ráðherra var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. mars 2020.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum er að finna á vefsíðu Alþingis: https://www.althingi.is/altext/150/s/1147.html

Auglýsingu um ákvörðun ráðherra er að finna á vefsíðu Stjórnartíðinda: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=f4cb3242-2fd9-4fa1-b70d-c1de5acee8f1

Lögð fram eftirfarandi tillaga að tímabundinni heimild til breytinga á fyrirkomulagi funda sveitarstjórnar og fastanefnda Húnaþings vestra meðan neyðarstig almannavarna er í gildi.

„Sveitarstjórn samþykkir, til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn Húnaþings vestra, að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og fastanefnda Húnaþings vestra og engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundumsveitarstjórnar og nefndum sveitarfélagsins í fjarfundarbúnaði. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að ritun fundargerða fari fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins, um ritun fundargerða, nr. 22/2013. Fundargerð skal annað hvort deilt með öllum fundarmönnum á skjá í lok fundar, lesin yfir og síðan staðfest með tölvupósti eða undirrituð rafrænt.
Í samræmi við lagabreytinguna gildir þessi heimild til 18. júlí 2020.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

 2.            Tilkynning frá aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi vestra.

Lögð fram eftirfarandi tilkynning aðgerðarstjórnar  almannavarna á Norðurlandi vestra um aukinn viðbúnað vegna smithættu COVID-19 veirunnar.

„Vegna grunsemda um víðtækt smit í Húnaþingi vestra verður að grípa til hertra sóttvarnaraðgerða strax.  

Frá og með kl. 22:00 í kvöld laugardaginn 21.mars 2020 skulu allir íbúar sveitarfélagsins sæta úrvinnslusóttkví. Úrvinnslusóttkví er tímabundin ráðstöfun meðan unnið er að smitrakningu. Í henni felst að einungis einn aðili af hverju heimili getur í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga.  Úrvinnslusóttkvíin gildir ekki um lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og dreifingu og verslun með matvæli og eldsneyti.

Ofangreind ákvörðun gildir þar til aðgerðarstjórn tilkynnir um annað.  

Jafnhliða gildir almennt samkomubann svo sem þegar hefur verið auglýst en þó með þeirri breytingu að hámarksfjöldi aðila sem mega koma saman í Húnaþingi vestra eru 5 aðilar. 

Höfðað er til samfélagslegrar ábyrgðar allra íbúa til að virða ofangreint og vera alls ekki á ferli að nauðsynjalausu.“

Sveitarstjórn biður íbúa Húnaþings vestra að vera samtaka í að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og fylgja öllum fyrirmælum almannavarna og sóttvarnalæknis. Þessar auknu takmarkanir verða í gildi á meðan verið er að rekja smitleiðir þeirra sem nú þegar eru smitaðir.  Því betur sem við stöndum saman í þessu verkefni því fyrr losnum við úr þessum aðstæðum.

3. Heimild til fullnaðarafgreiðslu og breytinga á innheimtu gjalda.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Útbreiðsla COVID-19 veirunnar veldur miklu raski á allri starfsemi í Húnaþingi vestra, snertir þetta bæði fyrirtæki og heimili með fyrirsjáanlegu  tekjutapi á næstu mánuðum.  Þess vegna hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra ákveðið sem fyrstu aðgerð eftirfarandi:
a.         Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir eftirfarandi breytingu á gjalddögum í samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda árið 2020.  Gjalddagar sem vera áttu 1. apríl, 1. maí og 1. júní breytast í 1. september, 1. október og 1. nóvember 2020.“   
b.         Vegna þeirra aðstæðna sem upp er komin vegna COVID-19 veirunnar og valdið hefur  röskun á þjónustu stofnana sveitarfélagsins  s.s. leikskóla,  grunnskóla, tónlistarskóla og frístund er sveitarstjóra falið að láta endurskoða innheimtu með tilliti til notkunar þjónustunnar.
c.         Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs heimild til fullnaðarafgreiðslu skv. ofangreindu.
Sveitarstjórn mun í framhaldinu skoða fleiri leiðir til að bregðast við ástandinu, fylgjast með aðgerðum ríkisstjórnar og því hvernig önnur sveitarfélög bregðast við og vera í sambandi við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslur. “
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:37

  

___________________________                             ___________________________

Þorleifur Karl Eggertsson.                                         Friðrik Már Sigurðsson.

 ___________________________                             ___________________________

Sveinbjörg Rut Pétursdóttir.                                     Ingveldur Ása Konráðsdóttir.

___________________________                             ___________________________

Magnús Magnússon.                                                 Magnús Eðvaldsson. 

___________________________                             ___________________________

Sigríður Ólafsdóttir.                                                 Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.

Var efnið á síðunni hjálplegt?