Oddviti setti fund og óskaði eftir að bæta á dagskrá sem 7. lið reglum um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2020-2021, liðir 7. og 8. færast aftur og verða liðir 8. og 9. Samþykkt samhljóða.
1. Fundargerðir byggðarráðs, formaður kynnti.
Fundargerð 1056. fundar byggðarráðs frá 14. september sl. Fundargerð í 5 liðum.
1. dagskrárliður. Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun vegna breytinga á úthlutunarreglum Húnasjóðs „Sveitarstjórn samþykkir hinar endurskoðuðu reglur Húnasjóðs“. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
2. dagskrárliður. Erindi frá stjórn Hestamannafélagsins Þyts. Afgreiðsla byggðarráðs staðfest með 6 atkvæðum. Friðrik Már Sigurðsson vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
3. dagskrárliður. Tilnefning fulltrúa í starfshóp um stafræna framþróun sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Afgreiðsla byggðarráðs staðfest með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1057. fundar aukins byggðarráðs frá 21. september sl. Fundargerð í 2 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1058. fundar byggðarráðs frá 21. september sl. Fundargerð í 6 liðum.
5. dagskrárliður. Afurðaverð til sauðfjárbænda. Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs og gerir að sinni:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra og sveitastjórnir Dalabyggðar, Strandabyggðar og Reykhólahrepps lýsa yfir þungum áhyggjum af lágu afurðaverði til sauðfjárbænda og seinagangi við birtingu afurðastöðvaverðs haustið 2020. Sauðfjárrækt er mikilvæg búgrein þessara sveitarfélaga og ein af forsendum búsetu í dreifbýli. Í þessum sveitarfélögum var rúmlega 21% af framleiðslu kindakjöts árið 2019.
Á undanförnum árum hafa orðið ábúendaskipti á þónokkrum bújörðum í sveitarfélögunum og yngra fólk með fjölskyldur tekið við. Þessar fjölskyldur efla samfélagið, styðja við þjónustu ásamt því að halda uppi atvinnustigi.
Líkt og í öðrum rekstri er mikilvægt að sauðfjárbændur fái viðunandi verð fyrir sína vöru og hafi þannig forsendur til áætlanagerðar og ákvarðanatöku. Því er skorað á afurðastöðvar að gefa út afurðaverð 2021 fyrir komandi áramót.
Samkvæmt samantekt Landssamtaka sauðfjárbænda var afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda á síðasta ári það lægsta sem finnst í Evrópu og miðað við nýbirtar verðskrár 2020 er vegið meðalverð 502 kr./kg. Hefði afurðaverð fylgt almennri verðlagsþróun frá 2014 ætti það að vera 690 kr./kg. Því vantar enn tæpar 200 kr./kg. upp á afurðastöðvaverð fylgi verðlagsþróun.
Í heimsfaraldri vegna COVID-19 fengu Íslendingar áminningu um mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu. Skapa þarf greininni stöðugleika í rekstri til lengri tíma og styðja á öflugan hátt við innlenda matvælaframleiðslu.“
Bókunin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1059. fundar byggðarráðs frá 28. september sl. Fundargerð í 2 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1060. fundar byggðarráðs frá 28. september sl. Fundargerð í 4 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1061. fundar byggðarráðs frá 5. október sl. Fundargerð í 8 liðum.
1. dagskrárliður. Lögð fram tillaga um að sveitarstjórn taki undir bókun byggðarráðs um opnunartíma Lyfju á Hvammstanga.
„Sveitarstjórn mótmælir skerðingu á þjónustu við íbúa Húnaþings vestra með styttingu opnunartíma Lyfju. Á tímum óvissu og vegna aðstæðna í samfélaginu er mikilvægt að þjónusta lyfjaverslunar sé óbreytt.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
2. dagskrárliður. Lögð fram tillaga um að sveitarstjórn taki undir bókun byggðarráðs um lokun útibús TM á Hvammstanga.
„Sveitarstjórn mótmælir harðlega lokun útibús TM á Hvammstanga.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
3. dagskrárliður. Styrkur til 10. bekkjar vegna verkefnis í samfélagsþágu, en bekkurinn sér um að tæma ruslafötur á ákveðnum gönguleiðum út þetta skólaár. Sveitarstjórn samþykkir að veita 10. bekk 60 þúsund króna styrk, sem færður verður á 08 hreinlætismál.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
2. Fundargerðir skipulags- og umhverfisráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 325. fundar skipulags- og umhverfisráðs frá 1. október sl. Fundargerð í 4 liðum.
1. dagskrárliður 2003088 breyting á aðalskipulagi Húnaþings vestra og deiliskipulag fyrir lóð Landsnets í Hrútatungu.
Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026. Aðalskipulagsbreytingin felst í breytingu á um 1 ha landbúnaðarsvæði í landi Hrútatungu í iðnaðarsvæði I-6 (landnúmer 180672). Deiliskipulagið gerir ráð fyrir allt að 220 kV yfirbyggðu tengivirki fyrir flutningskerfi rafmagns ásamt spennistöð fyrir dreifikerfið. Núverandi tengivirki verður lagt niður í kjölfarið. Tillögurnar voru auglýstar sbr. 31. gr. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 1. ágúst 2020 – 13. september 2020. Engar athugasemdir bárust.
Sveitarstjórn samþykkir aðalskipulagsbreytinguna og deiliskipulagið og felur skipulagsfulltrúa að annast málsmeðferð í samræmi við 32. gr. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“ Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
2. dagskrárliður 1909034 breyting á núgildandi reglum um umferð í þéttbýli í Húnaþingi vestra. Sveitarstjórn frestar afgreiðslu þessa liðar.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
3. Fundargerð 212. fundar fræðsluráðs frá 23. september sl., oddviti kynnti. Fundargerð í 4 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
4. Reglugerð fyrir hitaveitu Húnaþings vestra, seinni umræða.
Lögð fram eftirfarandi tillaga: „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða reglugerð um hitaveitu í Húnaþingi vestra og felur sveitarstjóra að senda hana til staðfestingar ráðherra“. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
5. Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Húnaþings vestra, seinni umræða.
Lögð fram eftirfarandi tillaga: „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða reglugerð fyrir Tónlistarskóla Húnaþings vestra og felur sveitarstjóra að senda hana til staðfestingar ráðherra.“ Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
6. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs, seinni umræða.
Lögð fram eftirfarandi tillaga: „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða samþykkt um meðhöndlun úrgangs og felur sveitarstjóra að senda hana til staðfestingar ráðherra.“ Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
7. Tillaga að reglum um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2020/2021.
„Lögð fram eftirfarandi tillaga að reglum um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2020-2021:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir eftirfarandi reglur um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2020/2021:
Ákvæði reglugerðar nr. 728/2020 gilda um úthlutun byggðakvóta Hvammstanga með eftirfarandi viðauka/breytingum:
a. 80% af byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og fengið hafa úthlutun samkvæmt reglugerð nr. 731/2020 vegna aflabrests á rækju í innanverðum Húnaflóa og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Við skiptingu þessa 80% byggðakvóta Húnaþings vestra, til ofangreindra skipa, skal miða við meðaltal landaðs botnfiskafla í þorskígildum talið, í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í Hvammstangahöfn, síðastliðin þrjú fiskveiðiár. Viðmiðunarárin eru 3 síðustu fiskveiðiár, nú 2017/2018, 2018/2019 og 2019/2020.
b. 20% af byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 571/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021, miðað við meðaltal landaðs botnfiskafla, í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í Hvammstangahöfn síðastliðin þrjú fiskveiðiár, í þorskígildum talið. Viðmiðunarárin eru 3 síðustu fiskveiðiár, nú 2017/2018, 2018/2019 og 2019/2020.
b) Skip eiga rétt til úthlutunar úr báðum pottum samkvæmt a- og b-lið, að uppfylltum skilyrðum.
c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa innan byggðarlagsins þeim afla sem telja á til byggðakvóta á tímabilinu frá 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.
Rökstuðningur/viðaukar/breytingar frá reglugerð 728/2020 er felast í tillögum Húnaþings vestra eru byggð á eftirfarandi:
a) Í samræmi við tilmæli Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sbr. bréf dags. 11. september 2020, er horft til mögulegrar verðmætaaukningar og atvinnusköpunar sem hafa má af byggðakvóta og því að megintilgangur byggðakvótans sé að stuðla að aukinni atvinnusköpun í byggðarlaginu.
b) Rökstuðningur byggðarráðs er sá að í byggðarlaginu er engin bolfiskvinnsla.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
8. Skýrsla sveitarstjóra.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega fundi sveitarstjórnar. Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.
9. Kynning á starfsemi SSNV.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Magnús Jónsson verkefnisstjóri fjárfestinga hjá SSNV mættu til fundar við sveitarstjórn með fjarfundabúnaði. Unnur Valborg og Magnús fóru yfir þá þjónustu samtakanna sem stendur íbúum svæðisins til boða. Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að nýta sér þjónustu SSNV.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:45.