334. fundur

334. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn fimmtudaginn 10. desember 2020 kl. 15:00 Félagsheimili Hvammstanga.

Fundarmenn

Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti, Friðrik Már Sigurðsson, aðalmaður, Ingimar Sigurðsson, varamaður, Ingveldur Ása Konráðsdóttir, aðalmaður, Magnús Magnússon, aðalmaður, Þórey Edda Elísdóttir, varamaður og Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.

Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Oddviti setti fund.
1. Fundargerðir byggðarráðs, formaður kynnti.
Fundargerð 1067. fundar aukins byggðarráðs frá 23. nóvember sl. Fundargerð í 1 lið.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1068. fundar byggðarráðs frá 23. nóvember sl. Fundargerð í 11 liðum.
Dagskrárliður 4. Bréf frá ungmennaráði þar sem óskað er eftir því að fjölga fundum ráðsins. Ákvörðun byggðarráðs um fjölgun funda er samþykkt með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 7. Byggðarráð samþykkti að umsýsla og stjórn Minningarsjóðs Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar verði á höndum sveitarfélagsins frá og með 1. janúar nk. Ákvörðun byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir í fundargerðinni og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1069. fundar byggðarráðs frá 30. nóvember sl. Fundargerð í 4 liðum.
Dagskrárliður 4. Áhrif COVID-19 á rekstur sveitarfélagsins. Lögð fram tillaga um að sveitarstjórn taki undir bókun byggðarráðs og geri hana að sinni;
„COVID-19 hefur haft veruleg áhrif á rekstur sveitarfélagsins með tekjutapi og auknum kostnaði og fram til þessa dags eru neikvæð áhrif vegna COVID-19 88,3 milljónir króna. Þar vegur stórt þeir sex dagar sem öllu var lokað í sveitarfélaginu.

Frá 21. mars til og með 27. mars sl. voru allir íbúar sveitarfélagsins látnir sæta úrvinnslusóttkví sem var tímabundin ráðstöfun meðan unnið var að smitrakningu. Í henni fólst að einungis einn aðili af hverju heimili gat í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga. Úrvinnslusóttkvíin gilti ekki um lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og verslun með matvæli og eldsneyti. Öll önnur starfsemi lá því niðri á þessum tíma. Kostnaður sem sveitarfélagið varð fyrir meðan á úrvinnslusóttkví stóð eru 14,6 milljónir króna, útlagður kostnaður og tekjutap.

Áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 gætir víða í sveitarfélaginu sér í lagi hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, tengdum greinum og ýmiskonar þjónustustarfsemi sem sætt hefur takmörkunum og lokunum á árinu.

Í lok júní var atvinnuleysi í Húnaþingi vestra 5%, er spáð 5,8% í lok árs 2020 og hefur ekki verið meira síðan í upphafi árs 2010. Sveitarstjórn lýsir áhyggjum sínum yfir vaxandi atvinnuleysi í Húnaþingi vestra og kallar eftir auknum stuðningi við nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og fjölgun opinberra starfa í sveitarfélaginu. Einnig lýsir sveitarstjórn áhyggjum sínum af miklum kostnaði og tekjutapi sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir á árinu vegna áhrifa COVID-19, sérstaklega hvað varðar kostnað vegna úrvinnslusóttkvíar. Sveitarstjórn hvetur ríkisvaldið að grípa til sértækra aðgerða fyrir þau sveitarfélög sem sætt hafa úrvinnslusóttkví. Þá kallar sveitarstjórn eftir auknu fjárframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta skertum framlögum sjóðsins og því tekjutapi sem sveitarfélög í landinu hafa orðið fyrir vegna COVID-19.“
Bókunin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Fundargerð 1070. fundar byggðarráðs frá 7. desember sl. Fundargerð í 9 liðum.
Dagskrárliður 9. Lögð fram tillaga um að sveitarstjórn taki undir bókun byggðarráðs og geri hana að sinni;
„Í umsögnum fjölmargra sveitarfélaga er lýst verulegum áhyggjum af inntaki frumvarps um Hálendisþjóðgarð og ganga mörg þeirra jafnvel svo langt í bókunum sínum að leggjast alfarið gegn stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Sveitarstjórn telur að sú sátt um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sem tilgreind er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé því bersýnilega ekki til staðar.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra áréttar fyrri bókanir sínar um að land innan marka sveitarfélagsins verði ekki hluti fyrirhugaðs þjóðgarðs á miðhálendinu. Sveitarstjórn telur að framkomið frumvarp um Hálendisþjóðgarð taki ekki tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sveitarfélaga varðandi sjálfstjórn og leggst alfarið gegn framkomnu frumvarpi um stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Sveitarstjórn skorar á önnur sveitarfélög í landinu að gera slíkt hið sama og sýna þannig samstöðu í að standa vörð um sveitarstjórnastigið og lýðræðislegan rétt íbúa til að hafa áhrif á ákvörðunartöku er varðar nærumhverfi þeirra.“
Bókunin borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum. Tveir greiddu atkvæði gegn bókuninni.

Þórey Edda Elísdóttir og Magnús Vignir Eðvaldsson lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Ísland hefur að geyma einstök víðerni. Með stofnun Hálendisþjóðgarðs yrði þeim meðal annars tryggð vernd, vistkerfi þeirra yrðu endurheimt og saga svæðisins varðveitt. Hálendisþjóðgarðurinn yrði sá stærsti í Evrópu og gæti hann skapað ótal tækifæri í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustu sem með tækjum stýringar yrði búið svo um hnútana að allir gætu notið á sjálfbæran hátt. Að auki mun þjóðgarðurinn skapa störf á landsbyggðinni. Fulltrúar sveitarfélaganna yrðu skipaðir í stjórn Hálendisþjóðgarðs, í stjórn rekstarsvæða hans og ættu einnig fimm af níu fulltrúum í umdæmisráðum hans. Hafa fulltrúar sveitarfélaganna því aðkomu að ákvörðunartökum í öllu stjórnkerfi Hálendisþjóðgarðsins. Varðandi nytjar, þá segir í 22. gr í frumvarpi laga um Hálendisþjóðgarð að hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, verður áfram rétthöfum heimil í Hálendisþjóðgarðinum séu þau sjálfbær. Vegna þessa teljum við að með stofnun Hálendisþjóðgarðs felist ýmis tækifæri fyrir Húnaþing vestra í formi beinna og afleiddra starfa, rannsókna, uppbyggingar á ferðamannstöðum og landverndar. Ætti sveitarstjórn Húnaþings vestra að fagna frumvarpinu og um leið sækjast eftir því að starfsstöð stofnunar um Hálendisþjóðgarð yrði staðsett í sveitarfélaginu.“

Aðrir liðir í fundargerðinni bornir undir atkvæði og samþykktir með 7 atkvæðum.

2. Fundargerð skipulags- og umhverfisráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 327. fundar skipulags- og umhverfisráðs frá 7. desember sl. Fundargerð í 3 liðum.
Dagskrárliður 2, erindi nr. 2010078 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 3, erindi nr. 2012002 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
3. Fundargerð félagsmálaráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 218. fundar félagsmálaráðs frá 25. nóvember sl. Fundargerð í 5 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
4. Fundargerð ungmennaráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 62. fundar ungmennaráðs frá 19. nóvember sl. Fundargerð í 4 liðum.
Dagskrárliður 1. Áskorun til sveitarstjórnar að fara af stað með skipulagningu á íþrótta- og útvistarsvæðinu í Kirkjuhvammi. Sveitarstjórn fagnar áhuga ungmennaráðs. Umhverfisstjóra falið að kynna gildandi deiliskipulag í Kirkjuhvammi fyrir ungmennaráði. Sveitarstjórn stefnir að því að stofna vinnuhóp fyrri hluta næsta árs sem hafi það hlutverk að vinna að framtíðarsýn svæðisins innan gildandi deiliskipulags. Dagskrárliður 1 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 2. Ósk um afslátt á gjöldum fyrir ungmenni á aldrinum 18-25 ára sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn getur ekki orðið við erindinu að þessu sinni. Dagskrárliður 2 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
5. Stytting vinnuvikunnar, oddviti kynnti.
Fyrir fundinum liggja tillögur stofnana sveitarfélagsins um styttingu vinnuvikunnar sem taka gildi 1. janúar nk. Búið er að yfirfara tillögurnar og falla þær að ákvörðun sveitarstjórnar um lágmarksstyttingu hjá stofnunum sveitarfélagsins. Í tillögunum eru endurskoðunarákvæði allt frá fimm mánuðum til eins árs. Ekki verður annað séð en að tillögurnar falli að ákvæðum kjarasamninga og samþykkir sveitarstjórn framlagðar tillögur með 7 atkvæðum.

6. Viðauki 6 við fjárhagsáætlun 2020
Lögð fram eftirfarandi tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020;

00 Skatttekjur, hækkun tekna frá jöfnunarsjóði kr. -30.000.000
05 Félagsheimili kr. 3.000.000
06 Íþrótta- og æskulýðsmál, hækkun launa kr. 1.000.000
47 Veitur, hækkun launa kr. 2.000.000
Samtals breyting: kr. -24.000.000
Ný áætlun frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem gerir ráð fyrir hærri tekjum frá sjóðnum en fyrri áætlanir sögðu til um. Því hækkar áætlun um tekjur frá Jöfnunarsjóði um kr. 30 milljónir.
Viðauki þessi er gerður vegna tekjufalls Félagsheimilisins Hvammstanga. Viðauki vegna íþrótta- og æskulýðsmála sem og veitna eru vegna áhrifa nýgerðra kjarasamninga.
Kostnaði viðaukans verði mætt með hækkun á handbæru fé um kr. 24.000.000.
Viðauki nr. 6 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.

7. Viðauki 7 við fjárhagsáætlun 2020
Lögð fram eftirfarandi tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020;
Grunnskóli, viðbygging kr. 37.000.000
Samtals breyting kr. 37.000.000
Viðauki þessi er gerður þar sem meira verður framkvæmt í viðbyggingu grunnskólans en áætlað var á þessu ári. Viðaukann má einnig rekja til kostnaðaraukningar í uppsteypu.
Kostnaði viðaukans verði mætt með lækkun á handbæru fé um kr. 37.000.000.
Viðauki nr. 7 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.

8. Viðauki 8 við fjárhagsáætlun 2020
Lögð fram eftirfarandi tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020;
02 Málefni fatlaðra, hlutdeild í halla ársins 2020 kr. 9.600.000
Samtals breyting: kr. 9.600.000
Viðauki þessi er gerður vegna hlutdeildar Húnaþings vestra í halla ársins í rekstri málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra.
Viðauki nr. 8 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.

9. Fjárhagsáætlun árið 2021 ásamt 3ja ára áætlun fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.
Lögð fram til síðari umræðu tillaga að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2021 ásamt áætlun fyrir árin 2022-2024. Lögð fram svohljóðandi tillaga „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2022-2024.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Húnaþing vestra
Fjárhagsáætlun 2021
Greinargerð


Gerð fjárhagsáætlunar 2021
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er unnin við óvenjulegar aðstæður. COVID-19 heimsfaraldurinn teygir anga sína inn í rekstur sveitarfélagsins, líkt og á árinu 2020 þar sem áætlaður kostnaður vegna faraldursins er þegar komin í 88,3 milljónir króna. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins dragist saman, m.a. í formi lægri framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem og lækkunar á útsvarstekjum, vegna áhrifa heimsfaraldursins. Á sama tíma og sveitarfélagið verður fyrir tekjusamdrætti eru launahækkanir samkvæmt kjarasamningum framundan á árinu 2021. Einhugur var á milli meiri- og minnihluta sveitarstjórnar um að verja grunnþjónustu sveitarfélagsins og biðla þess í stað til forstöðumanna að hagræða í rekstri án þess að grípa til uppsagna fastráðinna starfsmanna. Forstöðumenn stofnana sýndu þessu mikinn skilning og lögðu sitt lóð á vogarskálina til að lækka áætlað tap ársins 2021. Forstöðumönnum eru færðar þakkir fyrir ómetanlegt framlag þeirra í fjárhagsáætlunarvinnunni. Gert er ráð fyrir að áhrif heimsfaraldursins setji tímabundið mark sitt á sveitarsjóð.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunarinnar 2021 eru eftirfarandi;

Þrátt fyrir gríðarlega mikla vinnu við að draga saman seglin, á sama tíma og þjónustustig sveitarfélagsins er varið, er fjárhagsáætlun nú skilað með rekstrartapi upp á rúmar 58 milljónir króna. 

Á undanförnum árum hafa miklar framkvæmdir verið á vegum sveitarfélagsins, annars vegar framkvæmdir hjá hitaveitunni og hins vegar viðbygging við Grunnskóla Húnaþings vestra. Allt frá árinu 2015 hafa verið miklar framkvæmdir vegna hitaveitu í dreifbýli og endurnýjunar hitaveitulagna á Hvammstanga. Þá hafa staðið yfir framkvæmdir í dæluhúsi á Laugarbakka. Lántaka hitaveitunnar vegna framkvæmdanna árin 2015-2020 er samtals orðin 200 milljónir króna. Áframhaldandi framkvæmdir hjá Hitaveitu Húnaþings vestra verða árið 2021 með endurnýjun lagna á Hvammstanga og prufudælingar á Reykjatanga. Farið verður í lagningu ljósleiðara í Hrútafirði. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir 40 milljóna króna lántöku vegna framkvæmda og reksturs hjá hitaveitunni.

Á árinu 2020 hófust framkvæmdir vegna viðbyggingar við Grunnskóla Húnaþings vestra. Árið 2021 verður framkvæmdum haldið áfram. Gert er ráð fyrir að taka hluta viðbyggingarinnar í notkun haustið 2021. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir 235 milljóna króna lántöku vegna Grunnskóla Húnaþings vestra, sem hefði verið lægri ef ekki hefði komið til áhrifa heimsfaraldursins á rekstur sveitarsjóðs. Á sama tíma eru eldri lán greidd niður um 70,5 milljónir króna fyrir A- og B- hluta.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins er áætlað 89,2% árið 2021, en undanfarin ár hefur skuldaviðmiðið samkvæmt fjármálareglum mátt vera 150% að hámarki.  

Kostnaður vegna COVID-19 er fjármagnaður með handbæru fé, sem að hluta til var ætlað til viðbyggingar grunnskólans. Því verða lántökur vegna skólans hærri á árinu 2021 en áður hafði verið áætlað. 

Auknum lántökum fylgir aukinn fjármagnskostnaður, en hann er áætlaður 46,3 milljónir króna árið 2021. 


Á liðnum árum hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra almennt hækkað gjaldskrár í samræmi við verðlagsbreytingar. Sami háttur er hafður á fyrir árið 2021, að undanskildu sorpgjaldi og hreinsun rotþróa sem hækkar umfram verðlagsþróun. Þrátt fyrir það vantar nokkuð upp á að rekstur þessara liða standi undir sér.

Meðalhækkun á fasteignamati í Húnaþingi vestra árið 2021 samkvæmt Fasteignamati ríkisins er 2,8%. Hækkun á fasteignamati leiðir til hækkunar á tekjum vegna fasteignaskatts um rétt rúmar 3 milljónir króna. Rétt er að geta þess að álagningarprósenta A-gjalds fasteignaskatts af íbúðahúsnæði er óbreytt á milli ára, þ.e. 0,38%, þrátt fyrir að heimild til álagningar sé allt að 0,5%.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur sem fyrr mikið upp úr stuðningi við íþrótta- og tómstundastarf barna á árinu 2021. Það er meðal annars gert með myndarlegum styrkjum til USVH sem svo útdeilir því fjármagni til íþróttafélaganna í sveitarfélaginu. Einnig er veittur frístundastyrkur eins og undanfarin ár fyrir hvert barn frá 6 ára aldri til 18 ára aldurs. Á árinu 2021 er frístundastyrkur óbreyttur frá fyrra ári kr. 19.000. Framboð íþróttagreina hjá íþróttafélögunum í sveitarfélaginu er sem fyrr fjölbreytt og æfingagjöld lág. Skiptir þar án efa miklu máli styrkur sveitarfélagsins til félaganna, ekki einungis fjárhagslegur heldur líka í formi afnota af íþróttamannvirkjum. Þá eru greiddir akstursstyrkir til foreldra í dreifbýli sem þurfa að keyra sérstaklega til að koma/sækja börn á æfingar.

Gjöld í Tónlistarskóla Húnaþings vestra eru sömuleiðis með þeim lægstu á landinu. Nokkur fækkun hefur verið á nemendum við skólann en vonir standa til að með flutningi tónlistarskólans í sameiginlegt húsnæði tónlistar- og grunnskóla á haustmánuðum 2021 muni starf skólans eflast að nýju.

Eins og undanfarin ár mun sveitarfélagið halda áfram að styðja vel við dreifnám Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra m.a. með greiðslu á húsaleigu fyrir skólahúsnæðið og rekstur þess sem og kaupum á nauðsynlegum búnaði. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir því að þessi styrkur nemi 6,8 milljónum króna.

Húnaþing vestra veitir sem fyrr fjölmörgum félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2021 að fjárhæð alls 22,2 milljónir króna. Því til viðbótar eru greiddir styrkir til leikfélags, styrkir vegna fasteignagjalda, hitaveitu til félaga o.fl. Vegna áhrifa heimsfaraldursins lækka styrkveitingar sveitarfélagsins frá fyrra ári um tæpar 3,5 milljónir króna.

Að síðustu skal nefnt að í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir að áfram verði fjármagni veitt í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra sem stofnaður var árið 2014. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu. Sjóðurinn hefur sannað gildi sitt og á tímum sem þessum er mikilvægt að leggja áherslu á nýsköpun og atvinnuþróun.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2021
• Áætlunin er lögð fram með 58,1 milljóna króna rekstrartapi. Áætlað er að fráveita og vatnsveita skili rekstrarafgangi, en önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla.
• Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 1.556 milljónir króna, en gjöld 1.568 milljónir króna án fjármagnsliða.
• Fjármagnsliðir eru áætlaðir 46,3 milljónir króna.
• Veltufé frá rekstri er 43,2 milljónir króna.
• Hlutfall veltufjár frá rekstri er áætlað 7,5%.
• Áætlað er að afborganir langtímalána nemi 70,5 milljónum króna.
• Handbært fé í árslok 2021 er áætlað 90,5 milljónir króna og lækkar um 80 milljónir króna frá ársbyrjun.
• Eigið fé mun lækka um 58 milljónir króna m.v. afkomuspá ársins 2020.
• Gert er ráð fyrir hækkun langtímaskulda og skuldbindinga um 205 milljónir króna frá afkomuspá ársins 2020.
Undanfarin ár hefur rekstur sveitarfélagsins verið í góðu jafnvægi. Hefur það leitt til þess að sveitarsjóður hefur ekki þurft að sækja í lántökur fyrir rekstri, en að sama skapi hefur verið gengið á eigið fé vegna afleiðinga heimsfaraldursins á fjármál Húnaþings vestra. Ljóst er að sveitarsjóður hefur ekki bolmagn til að skila sambærilegri rekstrarniðurstöðu að ári án lántöku. Aldrei hefur verið jafn mikilvægt að sýna ráðdeild í rekstri, halda áfram þeim framkvæmdum sem þegar eru hafnar, en sýna um leið skynsemi og lágmarka lántökur eins og kostur er.

10. Tilnefning í verkefnaráð Hrútafjarðarlínu
Landsnet hefur óskað eftir því við sveitarfélagið að tilnefna tvo aðila í verkefnaráð um Hrútafjarðarlínu, sem nú ber heitið Holtavörðuheiðarlína 1. Sveitarstjórn tilnefnir Þorleif Karl Eggertsson og Magnús Magnússon. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

11. Skýrsla sveitarstjóra
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega fundi sveitarstjórnar. Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.


Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:26.

Var efnið á síðunni hjálplegt?