Varaoddviti setti fund og óskaði eftir að fá að bæta á dagskrá sem 8. dagskrárlið fundargerð veituráðs frá 12. janúar sl. Jafnframt óskaði varaoddviti eftir því að bæta á dagskrá sem 9. dagskrárlið kauptilboði í Lindarveg 3, fastanúmer 251-1362. 8. dagskrárliður skýrsla sveitarstjóra verður því 10. dagskrárliður. Samþykkt með 7 atkvæðum.
1. Fundargerðir byggðarráðs, formaður kynnti.
Fundargerð 1071. fundar byggðarráðs frá 14. desember sl. Fundargerð í 8 liðum.
Dagskrárliður 8 skipan starfshóps sem hefur það hlutverk að rýna teikningar að fjölnota rými sem meðal annars er ætlað fyrir fólk með sértækar þarfir og aðstöðu fyrir keppnislið. Byggðarráð lagði fram tillögu um skipan starfshópsins. Ingveldur Ása Konráðsdóttir og Magnús Vignir Eðvaldsson sitja í hópnum fyrir hönd sveitarstjórnar. Ásamt þeim sitja Björn Bjarnason og Tanja Ennigarð í starfshópnum.
Tillaga byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1072. fundar byggðarráðs frá 4. janúar sl. Fundargerð í 12 liðum.
Dagskrárliður 2 2012032 Kirkjuvegur 1 loftræsting. Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 3 2012030 umsögn sveitarfélagsins á grundvelli 10. gr. a jarðalaga nr. 81/2004 vegna kaupa Flaums ehf. á jörðinni Núpsdalstungu, nr. 144090. Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
„Varðandi kaup á jörðum í sveitarfélaginu Húnaþingi vestra.
Sveitarstjórn vill árétta að það er vilji sveitarstjórnar að jarðir séu seldar til búsetu. Mikilvægt er að tryggja nýtingu á bújörðum og búsetu enda er slík nýting um allt sveitarfélagið lífæð samfélagsins. Sveitarstjórn vill leggja áherslu á að eign jarðar fylgja ekki aðeins réttindi til nýtingar hlunninda viðkomandi jarðar heldur einnig skyldur við jörðina og samfélagið allt. Það er eindreginn vilji sveitarstjórnar að allar jarðir í sveitarfélaginu verði nýttar með það að markmiði að styðja við fjölbreytta atvinnusköpun, eflingu byggðar og styrkingu búsetu. Þar af leiðandi er mikilvægt að ábúð sé á sem flestum jörðum. Sveitarstjórn telur ekki æskilegt að margar jarðir safnist á fárra hendur.
Sveitarstjórn vill jafnframt benda á að engin gögn hafi fylgt beiðni um umsögn frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu varðandi málið í upphafi og málið því verið mjög óljóst þegar það barst sveitarfélaginu. Þurfti sveitarstjórn að kalla sérstaklega eftir gögnum. Eðlilegast hefði verið að viðkomandi fylgigögn hefðu fylgt með beiðni um umsögn strax í upphafi og er mælst til að það verði gert í framtíðinni. Jafnframt er bent á að sveitarstjórn telur eðlilegt að ráðuneytið móti sér hið fyrsta verklagsreglur varðandi framkvæmd laga nr. 81/2004 með síðari breytingum frekar en að leggja þá ábyrgð alfarið á hendur sveitarfélaga, enda virðist það afar misjafnt eftir málaflokkum hverju sveitarfélögum er treyst fyrir. Þá kann að vera eðlilegt að ráðuneytið vinni stutta umsögn um málið með hliðsjón af þeim atriðum sem tíunduð eru í 10. gr. a í jarðalögum áður en það er sent sveitarstjórn til umsagnar. Þá vill sveitarstjórn jafnframt benda á að of stuttur frestur var veittur sveitarfélaginu til að gefa umsögn.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 1073. fundar byggðarráðs frá 11. janúar sl. Fundargerð í 5 liðum.
Dagskrárliður 1 reglur um sérstakan húsnæðisstuðning. Afgreiðsla byggðarráðs um breytingar á sérstökum reglum um húsnæðisstuðning borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 5 skipan starfshóps um framtíðarsýn íþrótta- og útivistarsvæðis í Kirkjuhvammi. Byggðarráð lagði fram tillögu um skipan starfshópsins. Sveinbjörg Rut Pétursdóttir og Magnús Vignir Eðvaldsson sitja í hópnum fyrir hönd sveitarstjórnar. Sveitarstjóra falið að óska eftir tilnefningu frá USVH í starfshópinn. Ína Björk Ársælsdóttir verður starfsmaður hópsins.
Tillaga byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
2. Fundargerð skipulags- og umhverfisráðs, varaoddviti kynnti.
Fundargerð 328. fundar skipulags- og umhverfisráðs frá 7. janúar sl. Fundargerð í 4 liðum.
Dagskrárliður 1, erindi nr. 2101006 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 2, erindi nr. 2101004 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 3, erindi nr. 2011051 lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
„Sveitarfélagið Dalabyggð, kt. 510694-2019, óskar með tölvupósti 24. nóvember sl. eftir umsögn við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 vegna vindorkuvers í landi Sólheima, í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdafrestur vegna tillögunnar er til 20. janúar 2021.
Breytingin felst í aðalatriðum í því að 400 ha iðnaðarsvæði er ætlað til vindorkunýtingar við sveitarfélagsmörk Húnaþings vestra þar sem í núgildandi skipulagi er landbúnaðarsvæði.
Gert er ráð fyrir allt að 30 vindmyllum til raforkuframleiðslu með allt að 150 MW uppsett afl. Hæð vindmyllanna verði 120 metrar upp í miðju hverfils og spaðar í hæstu stöðu ná upp í 200 metra hæð.
Sveitarstjórn tekur undir bókanir skipulags- og umhverfisráðs frá 7. desember 2020 og 7. janúar 2021 og óskar sem umsagnaraðili eftir samráði og upplýsingagjöf í formi kynningarfundar og ítarlegri gagna frá Dalabyggð.
Ljóst er að áhrifa af fyrirhuguðum vindmyllugarði mun ekki síður gæta í Húnaþingi vestra en í Dalabyggð. Sveitarstjórn leggur áherslu á að í umhverfismatsáætlun verði sérstaklega gerð grein fyrir ásýnd og áhrifum í Húnaþingi vestra. Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að leggja fram athugasemdir síðar í skipulagsferlinu eftir því sem við á.“
Dagskrárliðurinn ásamt tillögunni borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Dagskrárliður 4, erindi nr. 2012036 borinn undir atkvæði og samþykktur með 7 atkvæðum.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
3. Fundargerð félagsmálaráðs, varaoddviti kynnti.
Fundargerð 218. fundar félagsmálaráðs frá 16. desember sl. Fundargerð í 3 liðum.
Dagskrárliður 2 reglur Húnaþings vestra um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum skólaárið 2020 – 2021. Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir reglur um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki“.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
4. Fundargerð fræðsluráðs, varaoddviti kynnti.
Fundargerð 214. fundar fræðsluráðs frá 9. desember sl. Fundargerð í 3 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
5. Fundargerð landbúnaðarráðs, formaður landbúnaðarráðs kynnti.
Fundargerð 181. fundar landbúnaðarráðs frá 13. janúar sl. Fundargerð í 4 liðum.
Dagskrárliður 4 dýralæknisþjónusta í Húnaþingi vestra. Sveitarstjórn tekur undir bókun landbúnaðarráðs:
„Landbúnaðarráð Húnaþings vestra lýsir áhyggjum yfir fyrirkomulagi og stöðu dýralæknaþjónustu í sveitarfélaginu. Á komandi vormánuðum er óvíst hvort starfandi dýralæknir verði með viðunandi aðstöðu í sveitarfélaginu og veldur það bændum áhyggjum. Landbúnaðarráð telur mikilvægt að málið verði skoðað með tilliti til þeirrar stöðu sem nú er uppi í sveitarfélaginu.
Landbúnaðarráð hvetur Matvælastofnun og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að bregðast strax við þeirri stöðu sem uppi er í Húnaþingi vestra. Jafnframt er óskað eftir fundi með fulltrúum MAST og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.“
Bókunin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
6. Erindisbréf starfshóps vegna teikninga að fjölnota rými í íþróttamiðstöðinni.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi erindisbréf starfshóps vegna teikninga að fjölnota rými í íþróttamiðstöðinni.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
7. Erindisbréf starfshóps vegna framtíðarsýnar íþrótta- og útivistarsvæðisins í Kirkjuhvammi.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi erindisbréf starfshóps vegna framtíðarsýnar íþrótta- og útivistarsvæðisins í Kirkjuhvammi, innan gildandi deiliskipulags“.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
8. Fundargerð veituráðs, varaoddviti kynnti.
Fundargerð 25. fundar veituráðs frá 12. janúar sl. Fundargerð í 5 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
9. Kauptilboð í Lindarveg 3 fastanúmer 251-1362.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Vegna mikils húsnæðisskorts og erfiðleika við að fá húsnæði fyrir starfsfólk sveitarfélagsins samþykkir sveitarstjórn Húnaþings vestra að gera kauptilboð í fasteignina Lindarveg 3, fastanúmer 251-1362, samkvæmt fyrirliggjandi drögum að kauptilboði. Sveitarstjóra er jafnframt falið að skoða möguleika á sölu á Hvammstangabraut 10, húsnæði tónlistarskólans, þegar hann flyst í sameiginlegt húsnæði tónlistar- og grunnskóla. Andvirði af sölu Hvammstangabrautar 10 gengur upp í kaupverð fasteignarinnar, náist saman um kaupin. Semjist um kaupin er sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs falið að leggja fram viðauka vegna kaupanna.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
10. Skýrsla sveitarstjóra.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum frá síðasta reglulega fundi sveitarstjórnar. Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:30.