345. fundur

345. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 24. nóvember 2021 kl. 15:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir aðalmaður, Ingveldur Ása Konráðsdóttir, aðalmaður, Valdimar H. Gunnlaugsson varamaður, Magnús Magnússon aðalmaður, Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður og Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.

Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Oddviti setti fund. Oddviti óskaði eftir að fá að taka á dagskrá sem 1. dagskrárlið gjaldskrár fyrir árið 2022. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 ásamt 3ja ára áætlun fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki verður því 2. dagskrárliður og viðauki nr. 5 verður 3. dagskrárliður. Jafnframt óskaði oddviti eftir að setja á dagskrá sem 4. dagskrárlið bókun vegna Vatnsnesvegar.
Samþykkt með 7 atkvæðum.

1. Gjaldskrár 2022.
Gjaldskrár til fyrri umræðu.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá Brunavarna Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hitaveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Gjaldskrár til seinni umræðu. Fyrri umræða fór fram á 344. fundi sveitarstjórnar.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hirðu, mótttöku- og flokkunarstöð úrgangs í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá sorphirðu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hafnarsjóð Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá vatnsveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir fráveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hreinsun og losun rotþróa í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


2. Fjárhagsáætlun árið 2022 ásamt 3ja ára áætlun fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.
Lögð fram til síðari umræðu tillaga að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2022 ásamt áætlun fyrir árin 2023-2025. Lögð fram svohljóðandi tillaga:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2023-2025.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 

Húnaþing vestra
Fjárhagsáætlun 2022
Greinargerð
Gerð fjárhagsáætlunar 2022
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 var unnin í góðu samstarfi við forstöðumenn einstakra deilda. Gert er ráð fyrir að skatttekjur sveitarfélagsins aukist frá árinu 2021 um 9,1%. Á sama tíma hækka laun og launatengd gjöld um 12,6% frá árinu 2021. Þess ber að geta að forstöðumenn stofnana sýndu mikla útsjónarsemi til að koma til móts við niðurskurðarósk frá sveitarstjórn. Forstöðumönnum eru færðar kærar þakkir fyrir ómetanlegt framlag þeirra í fjárhagsáætlunarvinnunni.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna kom fram að ólíklegt er að rekstur sveitarfélaganna verði búinn að ná fyrri fjárhagslegum styrk sínum fyrr en árið 2024. Slík eru áhrif heimsfaraldursins COVID-19. Því verður að telja líklegt að rekstur Húnaþings vestra verði þungur út árið 2023.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunarinnar 2022 eru eftirfarandi;

 

Þrátt fyrir gríðarlega mikla vinnu við að draga saman seglin, á sama tíma og þjónustustig sveitarfélagsins er varið, er fjárhagsáætlun nú skilað með rekstrartapi upp á rúmar 75 milljónir króna.

 


Á árinu 2022 mun framkvæmdum vegna viðbyggingarinnar við Grunnskóla Húnaþings vestra, sem hófst árið 2020, ljúka. Árið 2022 verður gerður göngu- og hjólastígur frá leikskóla að íþróttamiðstöðinni ásamt því að hafin verður frumathugun á uppbyggingu aðstöðuhúss á íþróttasvæðinu í Kirkjuhvammi. Endurhönnun lagnasvæðis við sundlaug mun fara fram árið 2022, en framkvæmdir eru áformaðar árið 2023. Dregið verður úr framkvæmdum hitaveitunnar sem hafa verið miklar frá árinu 2015, en þó verður farið í kostnaðargreiningu og hönnun á hitaveitu í Hrútafirði. Jafnframt verður rafmagnstafla í dælustöðinni að Laugarbakka endurnýjuð.

 

Skuldahlutfall sveitarfélagsins er áætlað 85,8% árið 2022, en fyrir undanþáguna, sem gildir nú tímabundið vegna áhrifa COVID-19 á fjármál sveitarfélaganna, hefur skuldaviðmið að hámarki mátt vera 150%.  

Fjármagnskostnaður hefur hækkað nokkuð undanfarin ár, samhliða auknum lántökum hjá sveitarfélaginu.

Á liðnum árum hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra almennt hækkað gjaldskrár í samræmi við verðlagsbreytingar. Sami háttur er almennt hafður á fyrir árið 2022. Sveitarstjórn hækkaði þó skatthlutfall íbúðarhúsnæðis (sjá 3. mgr. 3. gr. l.nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga) úr 0,38% í 0,40%. Þessi ákvörðun, samhliða hækkandi fasteignamati í Húnaþingi vestra, leiðir til þess að tekjur sveitarfélagsins vegna fasteignaskatts hækka um 13,7% árið 2022. Þrátt fyrir erfiða stöðu ákvað sveitarstjórn að ganga ekki enn lengra í heimild sinni til skattlagningar af íbúðarhúsnæði, en hæst má það fara í 0,65% með fullnýtingu álagsheimildar. Með þessari hækkun er sveitarfélagið enn með lægri álagningu en flest sveitarfélög á Norðurlandi vestra.

Kostnaður við flutning málefna fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga hefur reynst sveitarfélögum fjárhagslega erfiður. Að óbreyttu ræður Húnaþing vestra ekki við rekstur málaflokksins til lengri tíma, en sveitarfélagið hefur verið að greiða með málaflokknum frá því að hann var færður til sveitarfélaganna með lagasetningu. Ræða þarf við ríkisvaldið um aukna fjármuni til málaflokksins, sem er á forræði ríkisins. Samkvæmt fjárhagsáætlun leiðandi sveitarfélags er hlutur Húnaþings vestra tæpar 53 milljónir í rekstri starfssvæðisins árið 2022.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur sem fyrr mikið upp úr stuðningi við íþrótta- og tómstundastarf barna á árinu 2022. Það er meðal annars gert með myndarlegum styrkjum til USVH sem svo útdeilir því fjármagni til íþróttafélaganna í sveitarfélaginu. Eins og undanfarin ár er veittur frístundastyrkur fyrir hvert barn frá 6 ára aldri til 18 ára aldurs. Á árinu 2022 hækkar frístundastyrkur í kr. 20.000 eða um rúm 5%. Heimilt verður að nýta frístundastyrk til kaupa á árskortum í Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra. Framboð íþróttagreina hjá íþróttafélögunum í sveitarfélaginu er sem fyrr fjölbreytt og æfingagjöld lág. Skiptir þar án efa miklu máli styrkur sveitarfélagsins til félaganna, ekki einungis fjárhagslegur heldur líka í formi afnota af íþróttamannvirkjum. Þá eru greiddir akstursstyrkir til foreldra í dreifbýli sem þurfa að keyra sérstaklega til að koma/sækja börn á æfingar.

Tónlistarskóli Húnaþings vestra mun á nýju ári hefja störf í sameiginlegu húsnæði grunnskóla og tónlistarskóla. Með flutningnum aukast tækifæri til samstarfs skólanna þar sem börn hafa nú tækifæri til að sækja tónlistarnám í sama húsnæði.

Eins og undanfarin ár mun sveitarfélagið halda áfram að styðja vel við dreifnám Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, m.a. með greiðslu á húsaleigu fyrir skólahúsnæðið og rekstur þess sem og kaupum á nauðsynlegum búnaði. Á árinu 2022 greiðir Húnaþing vestra um 7 milljónir króna með rekstri dreifnámsins.

Húnaþing vestra veitir sem fyrr fjölmörgum félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2022 að fjárhæð alls 22,2 milljónir króna. Því til viðbótar eru greiddir styrkir til leikfélags, styrkir vegna fasteignagjalda, hitaveitu til félaga o.fl.

Að síðustu skal nefnt að í fjárhagsáætlun ársins 2022 er gert ráð fyrir að áfram verði fjármagni veitt í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra sem stofnaður var árið 2014. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu. Sjóðurinn hefur sannað gildi sitt og á tímum sem þessum er mikilvægt að leggja áherslu á nýsköpun og atvinnuþróun.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2022

  • Áætlunin er lögð fram með 75,6 milljóna króna rekstrartapi, eigið fé lækkar sem því nemur. Áætlað er að fráveita og hitaveita skili rekstrarafgangi, en önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla.
  • Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 1.751 milljón króna, en gjöld 1.769 milljónir króna án fjármagnsliða.
  • Fjármagnsliðir eru áætlaðir 57,4 milljónir króna.
  • Veltufé frá rekstri er 3 milljónir króna.
  • Hlutfall veltufjár frá rekstri er áætlað 1,27%.
  • Áætlað er að afborganir langtímalána nemi 98,9 milljónum króna.
  • Handbært fé í árslok 2022 er áætlað 42,8 milljónir króna og lækkar um 101 milljón króna frá ársbyrjun.

Undanfarin ár hefur rekstur sveitarfélagsins verið í góðu jafnvægi. Hefur það leitt til þess að sveitarsjóður hefur ekki þurft að sækja í lántökur fyrir rekstri, en að sama skapi hefur verið gengið á eigið fé vegna afleiðinga heimsfaraldursins á fjármál Húnaþings vestra. Í ljósi þess að annað árið í röð er lögð fram fjárhagsáætlun með neikvæðri rekstrarafkomu þarf að gæta aðhalds með það að markmiði að snúa neikvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélaginu í hag strax árið 2023. Gríðarlega mikilvægt er að sýna ráðdeild í rekstri, ljúka viðbyggingu Grunnskóla Húnaþings vestra og halda fjárfestingum komandi ára í lágmarki á meðan sveitarsjóður nær að jafna sig og hjól hagkerfis heimsins fara að snúast að nýju. 


3. Viðauki nr. 5
Lögð fram eftirfarandi tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2021 að upphæð kr. 12.690.000:
0010 - Jöfnunarsjóður, hækkun framlaga kr. 32,4 millj.
0290 – Málefni fatlaðs fólks, hækkun rekstrarhalla kr. -12,16 millj.
06551 – Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra, launakostn. kr. -7,55 millj.

Viðaukinn er gerður vegna hærri launakostnaðar í íþróttamiðstöð aðallega vegna styttingar vinnuvikunnar, aukins kostnaðar vegna málefna fatlaðs fólks til leiðandi sveitarfélags og hærri framlaga frá Jöfnunarsjóði en var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2021.

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


4. Vatnsnesvegur, vegur 711.
Lögð fram eftirfarandi bókun:

Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdum við Vatnsnesveg verði flýtt vegna mjög slæms ástands vegarins, sem hefur veruleg áhrif á lífsgæði þeirra sem búa á Vatnsnesi. Verulega aukin umferð ferðamanna hefur einnig haft áhrif á fyrrnefnt ástand og slys á veginum of tíð.

Vatnsnesvegur er kominn inn á samgönguáætlun en ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdir við hann hefjist fyrr en á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2030-2034, sem er óásættanlegt fyrir íbúa Húnaþings vestra.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur mikla áherslu á að Vatnsnesvegur komist framar á samgönguáætlun, hönnun vegarins fari strax af stað og framkvæmdum við hann verði flýtt. Sveitarstjórn gerir sér jafnframt grein fyrir því að til að þetta sé hægt þarf aukið fjármagn í málaflokkinn. Því hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra ákveðið að leggja ríkisvaldinu lið og hefja hópfjármögnun til að hægt sé að flýta framkvæmdum við Vatnsnesveginn og að þær hefjist fyrr en gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

Á samgönguáætlun er áætlaður kostnaður við veginn 3,5 milljarðar króna en heildarlengd vegarins er 70 km.

Til að hægt sé að flýta framkvæmdum við veginn og koma hönnun strax af stað er lagt upp með að safna 100.000.000 kr. sem er einungis brot af kostnaði vegarins en hins vegar nægjanlegt til að hefja hönnun strax.

Þegar markmiði söfnunar er náð mun upphæðinni verða komið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með þeim formerkjum að hún verði nýtt til uppbyggingar Vatnsnesvegar númer 711.

 


Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:54.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?