362. fundur

362. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn fimmtudaginn 22. desember 2022 kl. 15:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Magnús Magnússon varaoddviti, Magnús Vignir Eðvaldson aðalmaður, Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður, Friðrik Már Sigurðsson aðalmaður, Elín Lilja Gunnarsdóttir aðalmaður og Þorgrímur Guðni Björnsson aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Unnur Valborg Hilmarsdóttir.

Oddviti setti fund. Gengið var til dagskrár.

1. Álagning útsvars - breyting vegna samkomulags um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk. Lagt fram samkomulag milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 16.12.2022 um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk. Í samkomulaginu felst hækkun á hámarksútsvari um 0,22%. Breytingin leiðir ekki til hækkunar heildarálaga á skattgreiðendur þar sem tekjuskattsálagning lækkar um samsvarandi.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Með vísan til ákvæða varðandi breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk í fyrirliggjandi samkomulagi á milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 16.12.2022, er byggir á breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi 16.12.2022, samþykkir sveitarstjórn Húnaþings vestra að álagningahlutfall útsvars fyrir árið 2023 hækki um 0,22% og verði 14,74%.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
2. Samningur um rekstur Umdæmisráðs barnaverndar á landsbyggðinni.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir framlagðan samning um rekstur Umdæmisráðs landsbyggða og felur sveitarstjóra undirritun hans. Samningurinn er gerður með vísan til 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem fjallað er um skipan umdæmisráða. Með samningnum er umdæmisráðinu falin öll þau hlutverk sem því eru fengin í barnaverndarlögum og eftir atvikum öðrum lögum. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2027 með endurskoðunarákvæði fyrir 31. desember 2023. Ákveði sveitarfélag að hætta aðild að umdæmisráðinu og ganga inn í annað skal tilkynna það með skriflegum hætti til umsýslusveitarfélags. Tekur úrsögn þá gildi við næstu mánaðamót að því gefnu að sveitarfélagið hafi greitt upp allan þann kostnað sem því ber.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
3. Samningur um Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir fyrirliggjandi samning milli sveitarstjórna Fjallabyggðar, Húnabyggðar, Húnaþings vestra, Skagabyggðar, Skagafjarðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar um rekstur barnaverndarþjónustu á Mið-Norðurlandi og felur sveitarstjóra undirritun hans. Er samningurinn gerður með vísan til 10.,11. og 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem fjallað er um umdæmi barnaverndarþjónustu og 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt samningnum er sveitarfélagið Skagafjörður leiðandi sveitarfélag í samstarfinu og sem slíku falið fullnaðarvald til afgreiðslu barnaverndarmála á starfssvæði samningsins. Samningurinn er ótímabundinn með endurskoðunarákvæði vegna kostnaðarskiptingar fyrir 1. mars 2023 og almennri endurskoðun fyrir 31. desember 2023. Uppsögn samnings skal gerð fyrir 1. september ár hvert og tekur þá gildi við næstu áramót að því gefnu að sveitarfélagið hafi greitt allan þann kostnað sem því ber.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
4. Breyting á samþykkt um stjórn Húnaþings vestra, fyrri umræða. Breytingarnar eru gerðar vegna breyttrar skipan barnaverndarmála frá 1. janúar 2023 í samræmi við samninga um Barnaverndarþjónustu Mið – Norðurlands og Umdæmisráð barnaverndar á landsbyggðinni.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Húnaþings vestra nr. 588/2019, með síðari breytingum, og vísar til síðari umræðu sveitarstjórnar.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
5. Viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2022 nr. 6. Lögð fram tillaga framkvæmdaráðs að viðauka nr. 6 við fjárhagsáætlun ársins 2022 að upphæð kr. 5.631.000. Viðaukinn er gerður vegna breytinga á 20. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 þar sem kveðið er á um að byggðarsamlög, sameignarfélög, séreignafyrirtæki og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags skuli færð inn í samantekin reikningsskil þess miðað við hlutfallslega ábyrgð. Viðaukanum verður mætt með lækkun handbærs fjár. Viðaukinn mun leiða til aukningar á neikvæðri rekstrarafkomu um kr. 5.631.000. Lögð fram greinargerð endurskoðanda sveitarfélagsins ásamt málaflokkayfirliti vegna áhrifa viðaukans.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
„Sveitarstjórn samþykkir tillögu framkvæmdaráðs að viðauka nr. 6 við fjárhagsáætlun ársins 2022 að upphæð kr. 5.631.000 sem mætt verður með lækkun handbærs fjár.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:19.

Var efnið á síðunni hjálplegt?