201. fundur landbúnaðarráðs
201. fundur landbúnaðarráðs landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 21. júní 2023 kl. 13:00 .
Fundarmenn
Sigríður Ólafsdóttir formaður, Ingimar Sigurðsson varaformaður, Halldór Pálsson aðalmaður, Dagbjört Diljá Einþórsdóttir aðalmaður og Guðrún Eik Skúladóttir aðalmaður.
Starfsmenn
Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg
Afgreiðslur:
1. Leyfi til fjallagrasatínslu. Lögð fram beiðni frá Liljönu Milenkoska fyrir hönd Nadezhda Milenkoska, Nikolche Shumkoski og Slobodanka Shumkoska til fjallagrasatínslu á Arnarvatnsheiði þegar vegir opna og út október. Beiðninni fylgir kort af áætluðu tínslusvæði. Landbúnaðarráð samþykkir beiðnina en leggur áherslu á að tínsla hefjist ekki fyrr en að vegir hafi opnað og jafnframt að þeir sem tínsluna annast gangi vel um svæðið.
2. Skipting fjármagns til viðhalds styrkvega. Vegagerðin hefur upplýst að fjármagn þeirra til úthlutunar styrkvega í Húnaþingi vestra sé kr. 2.000.000 árið 2023. Fyrir liggur að framlag ríkisins til styrkvega árið 2023 lækkar um 33% frá síðustu úthlutun. Skerðing til Húnaþings vestra nemur hins vegar 60%, sem verður að teljast óeðlilegt í ljósi umfangs styrkvega í sveitarfélaginu.
Framlag til styrkvega samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er kr. 1.800.000. Samtals eru því kr. 3.800.000 til úthlutunar sem lækkar um 3 milljónir frá fyrra ári. Eftirfarandi tillaga um skiptingu fjármagnsins var samþykkt samhljóða:
a) Til afréttavega á Víðidalstunguheiði kr. 1.650.000.
b) Til afréttavega í Miðfirði kr. 1.000.000.
c) Til afréttavega í Hrútafirði austur kr. 800.000.
d) Til vegar yfir Brandagilsháls kr. 150.000.
e) Til vegar ofan Helguhvamms upp á Vatnsnesfjall kr. 200.000,-
Fjallskilastjórnir sjá um framkvæmdir við styrkvegi á sínum svæðum, að veginum yfir Brandagilshálsi undanskildum sem verður á ábyrgð sveitarstjóra. Landbúnaðarráð samþykkir samræmt gjald vegna vinnu við styrkvegina í sveitarfélaginu, þar sem gjald fyrir dráttarvél með vagni og manni verði að hámarki kr. 16.900 pr.klst. með vsk. Vinnu við styrkvegina skal vera lokið fyrir fyrstu göngur og lokafrestur til að skila inn reikningum vegna vinnunnar er 15. október nk. Fjallskilastjórnir skulu jafnframt skila greinargerð um framkvæmdir ársins til sveitarstjóra.
3. Skipting fjármagns til viðhalds heiðagirðinga. Landbúnaðarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi skiptingu á þeim kr. 3.300.000 sem til ráðstöfunar eru árið 2023 samkvæmt fjárhagsáætlun Húnaþings vestra:
a) Í Hrútafirði kr. 900.000.
b) Í Miðfirði kr. 1.200.000.
c) Í Víðidal kr. 1.200.000,-
Landbúnaðarráð samþykkir að taxti fyrir vinnu við heiðagirðingar á árinu 2023 verði að hámarki kr. 3.500 á klst. pr. verktaka, að hámarki kr. 3.500 á klst. pr. fjórhjól og að hámarki kr. 3.700 á klst. pr. sexhjól. Ofan á þessa taxta leggst 24% virðisaukaskattur. Akstur verður greiddur samkvæmt akstursgjaldi ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Landbúnaðarráð áréttar jafnframt að vinnu við heiðagirðingar skuli vera lokið eins fljótt og auðið er. Reikningar þurfa að berast til sveitarfélagsins í síðasta lagi þann 15. október nk. Fjallskilastjórnir skulu jafnframt skila greinargerð um framkvæmdir ársins til sveitarstjóra.
4. Refaveiðar 2023-2025 skýrsla Umhverfisstofnunar um áætlun um refaveiðar 2023-2025 og drög að refasamningi stofnunarinnar við Húnaþing vestra.
Lögð var fram til kynningar skýrsla Umhverfisstofnunar um áætlun um refaveiðar 2023-2025. Landbúnaðarráð gerir ekki athugasemd við drög að refasamningi Umhverfisstofnunar við Húnaþing vestra og vísar honum til afgreiðslu byggðarráðs.
Fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 14:02.