.1
2301027
Ósk um stækkun lóðar við Eyri
Byggðarráð - 1214
Lögð fram beiðni Jóhanns Albertssonar og Kolbrúnar Grétarsdóttur um stækkun lóðar við Eyri til samræmis við aðrar smábýlalóðir við Höfðabraut. Byggðarráð samþykkir stækkun lóðarinnar til austurs að Höfðabraut.
Bókun fundar
Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
.2
2405022
Höfnun umsóknar um styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða - Deiliskipulag Borðeyri
Byggðarráð - 1214
Lagt fram til kynningar bréf frá Ferðamálastofu þar sem tilkynnt er um höfnun styrksumsóknar vegna deiliskipulags á Borðeyri.
.3
2405023
Höfnun umsóknar um styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða - Deiliskipulag Reykjatanga
Byggðarráð - 1214
Lagt fram til kynningar bréf frá Ferðamálastofu þar sem tilkynnt er um höfnun styrksumsóknar vegna deiliskipulags á Reykjatanga.
.4
2405030
Erindi frá verðandi 10. bekk í Grunnskóla Húnaþings vestra
Byggðarráð - 1214
Lagt fram erindi frá verðandi 10. bekkingum við Grunnskóla Húnaþings vestra þar sem þau gera tillögu að því að þau tæmi ruslafötur við grunnskóla og Félagsheimilið Hvammstanga sem lið í fjáröflun sinni fyrir útskriftarferð. Byggðarráð þakkar verðandi 10. bekkingum sýndan áhuga á fegrun nærumhverfis síns. Ráðið samþykkir að veita bekknum 70 þúsund króna styrk til ferðarinnar á þeim forsendum að bekkurinn tæmi ruslafötur í nærumhverfi grunnskólans og Félagsheimilisins Hvammstanga samkvæmt nánara samkomulagi.
.5
2212015
Lok lóðarleigusamnings vegna Norðurbrautar 30
Byggðarráð - 1214
Lagt fram bréf Lagastoðar, dags. 8. maí 2024, ásamt fylgiskjölum þar sem fram kemur krafa húseigenda Norðurbrautar 30 um greiðslu vegna eignarinnar. Einnig lagt fram bréf Landslaga, dags. 14. maí 2024 þar sem kröfu húseigenda er hafnað og fyrra tilboð sveitarfélagsins er ítrekað. Frestur til að rýma eignina er framlengdur um mánuð til viðbótar við þá þrjá mánuði sem þegar höfðu verið gefnir.
Byggðarráð staðfestir þá afstöðu sem fram kemur í bréfi Landslaga dags. 14. maí 2024 um uppgjör og skil lóðarinnar í samræmi við niðurstöðu matsgerðar óháðra matsmanna líkt og kveðið er á um í lóðarleigusamningi. Auk þess býður sveitarfélagið að niðurrif og förgun eignarinnar verði á þess kostnað. Sveitarstjóra er falið að ljúka málinu í samræmi við það í samvinnu við lögmann sveitarfélagsins.
Ferli málsins er að lóðarleigusamningur lóðarinnar rann út 28. janúar 2024. Þar sem eignin samræmist ekki gildandi deiliskipulagi frá 2012 og áformuð er íbúðauppbygging á reitnum var þáverandi húseiganda tilkynnt að lóðarleigusamningur yrði ekki endurnýjaður og boðið fasteignamat sem greiðslu fyrir eignina í janúar 2023, þó ekki sé kveðið á um bætur til leigutaka í þeim lóðarleigusamningi sem nýverið rann út. Því höfnuðu nýir húseigendur og voru því kvaddir til dómkvaddir matsmenn sem báðir málsaðilar sammæltust um til að meta sannvirði hússins að teknu tilliti til ástands þess í samræmi við ákvæði eldri lóðarleigusamnings. Mat þeirra lá fyrir í febrúar 2024 og var húseigendum boðið verð í samræmi við matið auk þess að sveitarfélagið tæki á sig kostnað við niðurrif og förgun eignarinnar. Var gefinn þriggja mánaða frestur til að rýma eignina, til 15. maí 2024. Húseigendur kvöddu hins vegar til matsmenn til að meta endurstofnverð eignarinnar, jarðvegsskipti og sokkinn kostnað og gerðu kröfu um greiðslu í samræmi við það. Þeirri kröfu hafnar sveitarfélagið þar sem hún endurspeglar ekki sannvirði hússins og gengur því lengra en lóðaleigusamningur segir til um.
.6
2212016
Lok lóðarleigusamnings vegna Norðurbrautar 32
Byggðarráð - 1214
Lagt fram bréf Lagastoðar, dags. 8. maí 2024, ásamt fylgiskjölum þar sem fram kemur krafa húseiganda Norðurbrautar 32 um greiðslu vegna eignarinnar. Einnig lagt fram bréf Landslaga, dags. 14. maí 2024 þar sem kröfu húseiganda er hafnað og fyrra tilboð sveitarfélagsins er ítrekað. Frestur til að rýma eignina er framlengdur um mánuð til viðbótar við þá þrjá mánuði sem þegar höfðu verið gefnir.
Byggðarráð staðfestir þá afstöðu sem fram kemur í bréfi Landslaga dags. 14. maí 2024 um uppgjör og skil lóðarinnar í samræmi við niðurstöðu matsgerðar óháðra matsmanna líkt og kveðið er á um í lóðarleigusamningi. Auk þess býður sveitarfélagið að niðurrif og förgun eignarinnar verði á þess kostnað ásamt því að það sjái um að fjarlægja steyptar þrær og malarhaug við steypusíló, einnig á sinn kostnað. Sveitarstjóra er falið að ljúka málinu í samræmi við það í samvinnu við lögmann sveitarfélagsins.
Ferli málsins er að lóðarleigusamningur lóðarinnar rann út 28. janúar 2024. Þar sem eignin samræmist ekki gildandi deiliskipulagi frá 2012 og áformuð er íbúðauppbygging á reitnum var húseiganda tilkynnt að lóðarleigusamningur yrði ekki endurnýjaður og boðið fasteignamat sem greiðslu fyrir eignina í janúar 2023. Því hafnaði húseigandi og voru því kvaddir til dómkvaddir matsmenn sem báðir málsaðilar sammæltust um til að meta sannvirði hússins að teknu tilliti til ástands þess í samræmi við lóðarleigusamninginn. Mat þeirra lá fyrir í febrúar 2024 og var húseiganda boðið verð í samræmi við matið auk þess að sveitarfélagið tæki á sig kostnað við niðurrif og förgun eignarinnar ásamt því að fjarlægja steyptar þrær og malarhaug við steypusíló. Var gefinn þriggja mánaða frestur til að rýma eignina, til 15. maí 2024. Húseigandi kvaddi hins vegar til matsmenn til að meta endurstofnverð eignanna á lóðinni, jarðvegsskipti og sokkinn kostnað og gerði kröfu um greiðslu í samræmi við það. Þeirri kröfu hafnar sveitarfélagið þar sem hún endurspeglar ekki sannvirði hússins og gengur því lengra en lóðarleigusamningur segir til um.
.7
2405027
Fundargerð 107. fundar stjórnar SSNV, 7. maí 2024
Byggðarráð - 1214
Lögð fram til kynningar.
.8
2405024
Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um lögræðislög (nauðungarvistanir, yfirlögráðendur o.fl.), 925. mál. Umsagnarfrestur til 27. maí nk.
Byggðarráð - 1214
Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
.9
2405034
Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir), 1114. mál. Umsagnarfrestur til 31. maí nk.
Byggðarráð - 1214
Um er að ræða frumvarp í tengslum við kjarasamninga sem undirritaðir voru á dögunum. Í frumvarpinu er ríkissjóði veitt heimild til að veita fé í Jöfnunarsjóð vegna niðurgreiðslu gjaldfrjálsra skólamáltíða frá og með hausti 2024. Ekki þykir ástæða til umsagnar um frumvarpið. Hins vegar vill byggðarráð leggja áherslu á að útfærsla Jöfnunarsjóðs á greiðslum til sveitarfélaga verði unnin í nánu samráði við þau og að tillit verði tekið til mismunandi aðstæðna sveitarfélaga til dæmis við kaup á hráefni til framleiðslu máltíðanna, flutningskostnaðar o.s.frv.
.10
2405039
Mál í samráðsgátt stjórnvalda, landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu, mál nr. S-982024, umsagnarfrestur til 4. júní 2024
Byggðarráð - 1214
Í samráðsgátt stjórnvalda eru til umsagnar drög að landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu. Er áætlunin unnin af starfshópi sem skipaður var í janúar 2024. Byggðarráð fagnar framlagðri áætlun enda löngu tímabært að endurskoða nálgun til að bregðast við þeim vágesti sem riðan er en gerir athugasemd við tímasetningu á samráði um málið, í miðjum sauðburði. Í áætluninni er fjallað um að með útrýmingu riðu megi leggja niður sauðfjárveikivarnarlínur á ýmsum stöðum. Vill byggðarráð koma á framfæri athugasemd við þau áform þar sem sauðfjárveikivarnarlínur þjóna mikilvægu hlutverki við takmörkun á útbreiðslu garnaveiki sem getur valdið miklum búsifjum og því brýnt að línunum verði við haldið. Ráðið vísar jafnframt í umsögn Félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu og gerir að sinni.