Ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla

Málsnúmer 2406052

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1218. fundur - 01.07.2024

Lagt fram erindi frá Jafnréttisstofu. Í erindinu vekur Jafnréttisstofa athygli á ábyrgð og hlutverki sveitarfélaga til að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þar til barn hefur dvöl á leikskóla. Sveitarfélögin hafi ríkar skyldur samkvæmt jafnréttislögum sem beri m.a. samkvæmt 13. gr. l.nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og annarra mismunarþátta við ráðstöfun fjármagns og í þjónustu við íbúa með því að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku. Samkvæmt orðanna hljóðan þurfi að tryggja báðum foreldrum möguleika á að annast börn sín án þess að það leiði til mismunar eða hafi í för með sér verulega röskun á atvinnuþátttöku og jafnvægis á milli fjölskyldu- og atvinnulífs. Í erindinu er sagt að núverandi aðstæður barnafólks til að brúa umönnunarbilið séu víðast hvar óviðunandi og sveitarfélögin brýnd til að taka skyldur sínar alvarlega.

Húnaþing vestra hefur um langa hríð haft mikinn metnað í leikskólamálum, þó svo að rekstur leikskóla sé ekki eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga. Börn fá leikskólavist frá 12 mánaða aldri á sama tíma og lengd fæðingarorofs er 12 mánuðir. Því myndast ekki umönnunarbil í Húnaþingi vestra. Byggðarráð hvetur Jafnréttisstofu til að gera könnun á því frá hvaða aldri sveitarfélögin taka inn börn á leikskóla ásamt lengd biðlista til að meta raunverulega stöðu á umönnunarbili á milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla.
Var efnið á síðunni hjálplegt?