Byggðarráð - 1227

Málsnúmer 2409007F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn - 384. fundur - 17.10.2024

Formaður byggðarráðs kynnti fundargerðina.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1227 Styrktarsamningur milli stjórnar hátíðarinnar Eldur í Húnaþingi og sveitarfélagsins rennur út á þessu ári. Fulltrúar stjórnar hátíðarinnar komu til fundar við byggðarráð til að fara yfir áherslur við endurnýjun samningsins. Fram til þessa hefur sveitarfélagið stutt hátíðina með 650 þúsund króna framlagi á ári. Byggðarráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að stuðningurinn verði hækkaður í eina milljón króna á ári ásamt því að hátíðin hafi gjaldfrjáls afnot af Félagsheimilinu Hvammstanga ásamt nokkrum öðrum húsakynnum sveitarfélagsins fyrir viðburði hátíðarinnar. Samsvarar þetta ríflega tvöföldun á stuðningi sveitarfélagsins við hátíðina.
    Byggðarráð þakkar þeim sem haldið hafa utan um framkvæmd Elds í Húnaþingi vel unnin störf í gegnum árin. Hátíðin er afar mikilvægur þáttur í atvinnu- og menningarlífi samfélagsins og brýnt að svo verði áfram.
    Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1227 Lögð fram beiðni Antons Scheel Birgissonar og Guðrúnar Gróu Þorsteinsdóttur um framlengingu leigusamnings vegna íbúðar á Garðavegi 18, efri hæð, um eitt ár. Byggðarráð samþykkir framlengingu leigusamnings um eitt ár, frá 1. desember 2024.
  • Byggðarráð - 1227 Lagt fram erindi frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra um gerð samstarfssamnings milli setursins og Húnaþings vestra. Markmið samningsins er að efla þekkingar- og rannsóknastarf í sveitarfélaginu og á Norðurlandi vestra ásamt því að festa í sessi starfsemi setursins í landshlutanum. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja samninginn með framlagi upp á kr. 500 þúsund enda verði það til þess að efla fræðasamfélag í sveitarfélaginu og landshlutanum öllum. Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1227 Lagðar fram reglur um stuðningsfjölskyldur frá Skagafirði sem leiðandi sveitarfélags í málefnum fatlaðs fólks. Byggðarráð samþykkir framlagðar reglur og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.
  • Byggðarráð - 1227 Dagana 23.-25. september kom ítrekað upp rafmagnsrof vegna vinnu við aðveitustöð í Hrútatungu. Upplýsingagjöf vegna rafmagnsleysins var ábótavant auk þess sem fyrirvarinn var skammur. Á þessum tíma árs er Sláturhús Kaupfélags Vestur Húnvetninga á Hvammstanga rekið á hámarks afköstum og kom ítrekað straumrof verulega illa við starfsemi þess sem skipulögð er viku til tíu daga fram í tímann. Stöðva þurfti vinnslulínu ítrekað með tilheyrandi óþægindum og fjárhagslegu tjóni. Áhrifin voru jafnframt nokkur á rekstur Hitaveitu Húnaþings vestra sem leiddi af sér fjárhagslegt tjón. Fleiri aðilar urðu fyrir verulegum óþægindum vegna lélegrar upplýsingagjafar og skamms fyrirvara. Kvörtunum var komið á framfæri við RARIK vegna þessa og funduðu sveitarstjóri, oddviti og formaður byggðarráðs með fulltrúum RARIK í framhaldinu. Einkum voru gerðar athugasemdir við upplýsingagjöf og skamman fyrirvara. Einnig voru gerðar athugasemdir við að varaafl var ekki til staðar í nægu magni auk þess sem aðrar aðveituleiðir önnuðu ekki álagi. Jafnframt var gerð athugasemd við að nauðsynleg straumrof sem aðgerðinni fylgdu hafi ekki verið framkvæmd að kvöldi eða nóttu til svo áhrif á íbúa og atvinnustarfsemi væru lágmörkuð.
    Aðgerðin var raforkuöryggi svæðisins brýn og hafði staðið til um nokkurt skeið. Við flóknar aðgerðir sem þessar geta alltaf komið upp ófyrirsjáanleg atvik sem leiða til frekari bilana líkt og gerðist í þessu tilviki. Byggðarráð sýnir því fullan skilning. Við slíkar aðstæður er undirbúningur og upplýsingamiðlun þess mikilvægari og brýnt að helstu hagaðilar séu hafðir með í því samtali sem á sér stað í aðdragandanum. Ráðið bindur vonir við að samtal það sem fram fór við fulltrúa RARIK leiði til þess að tillit verði tekið til athugasemda í framtíðar framkvæmdum sem leiða af sér straumrof svo áhrif þess á samfélagið verði lágmörkuð.
  • Byggðarráð - 1227 Lögð fram beiðni Rúnars Kristjánssonar um leigu á íbúð að Garðavegi 18, í einn mánuð, frá 1.-30. nóvember. Byggðarráð samþykkir beiðnina.
  • Byggðarráð - 1227 Lagt fram boð á ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn verður 9. október nk. Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri verður fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.
  • Byggðarráð - 1227 Lögð fram beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn um frumvarp til laga um námsgögn þar sem kveðið er um að námsgögn í grunnskólum verði gjaldfrjáls. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið enda hafa námsgögn ásamt ritföngum verið gjaldfrjáls í Grunnskóla Húnaþings vestra um árabil.
  • Byggðarráð - 1227 Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar drög að reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk. Húnaþing vestra er aðili að þjónustusamningi um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra þar sem Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag. Fagráð um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra og Byggðarráð Skagafjarðar hafa bókað umsögn um drög að umræddri reglugerð. Byggðarráð Húnaþings vestra tekur undir þá umsögn og gerir að sinni:

    „Vísað er til þess að hagaðilar eru hvattir til að veita umsögn um drögin og þá sérstaklega þær tillögur sem snúa að því að hætta úthlutun á grundvelli raunkostnaðar til hliðar við almenna úthlutun á grundvelli stuðningsþarfa.

    Almennt
    Fjármögnun og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks hafa verið í umræðunni í langan tíma. Ýmsir starfshópar hafa verið að störfum sem hafa skilað skýrslum. Nú síðast í febrúar 2024 kom fram skýrsla um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk. Ljóst er að síðasta samkomulag ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir til að ná betur utan um kostnaðarauka í málaflokknum dugar ekki til. Skagafjörður leggur áherslu á að leggja þarf til aukna fjármuni til málaflokksins umfram þá sem myndast við árlegan tekjuvöxt sveitarfélaga.

    Hætta úthlutun á grundvelli raunkostnaðar til hliðar við almenna úthlutun á grundvelli stuðingsþarfa
    Eins og fram kemur í drögum er lagt til að gerð verði breyting á núgildandi framkvæmd og nefndar tvær leiðir til að afnema undanþágu vegna veitingu framlaga á grunni raunkostnaðar þ.e. leið A og leið B.
    Tillaga A - gert er ráð fyrir því að ekki verði heimilt að greiða framlög vegna notenda, eldri en sjö ára, sem ekki hafa fengið samræmt mat stuðningsþarfa (SIS mat). Ef ekki liggur fyrir mat á stuðningsþörf notenda sem aldurs síns vegna hefur ekki getað fengið slíkt mat er heimilt að ákvarða útgjaldaþörf hans út frá raunkostnaði.
    Tillaga B - gert er ráð fyrir því að heimilt verði að greiða framlög vegna notenda eldri en sjö ára sem ekki hafa fengið samræmt mat stuðningsþarfa (SIS mat) en ber þá að miða stuðningsflokk þeirra við flokk 5.
    Skagafjörður tekur undir mikilvægi þess að afnema undanþágu vegna veitingu framlaga á grunni raunkosnaðar og mælir með tillögu A.
    Markmið laga nr. 38/2018 er að fatlað fólk skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga, reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðningi meiri eða sérhæfðari en svo að henni sé fullnægt innan almennrar þjónustu, skal veita viðbótarþjónustu samkvæmt fyrrgreindum lögum. Lögin gera einnig ráð fyrir að við mat á stuðningsþörfum skuli stuðst við samræmdar aðferðir. Samræmt mat á stuðningsþörf er því mikilvægt til að gæta að jafnræði einstaklinga til þjónustu sem og til að gæta að jafnræði sveitarfélaga/þjónusvæða til fjármögnunar þjónustu. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður hafi haft forgöngu um samræmt mat á stuðningsþörf á landsvísu (SIS mat). Fram kemur í skýringum Ráðgjafar- og greingarstöðvar sem annast framkvæmd matsins að markmið með matinu sé að nýta niðurstöður til úthlutunar fjármagns og er mikilvægur liður í gerð einstaklingsbundinna þjónustuáætlana sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samræmt mat stuðlar að því að auka lífsgæði og stuðlar að auknum mannréttindum.

    Viðmiðmiðunardagsetning fyrir samræmt mat á stuðningsþörfum verði 1. október ár hvert
    Þegar viðmiðunardagsetning fyrir endanlegan útreikning framlaga er sett er mikilvægt að hafa í huga hvernig skipulag framkvæmdar matsins er í heimabyggð eftir að umsókn er samþykkt. Tilhögun í dag er sú að hvert landsvæði fær úthlutað tíma á ákveðnum tímabilum. Á þjónustusvæði Skagafjarðar nær það fram í september/október ár hvert, viðmiðunardagsetning í reglugerð kemur sér því illa í því samhengi.

    Viðbótarframlög felld út
    Ljóst er að framlögin voru tilkomin vegna verulegs íþyngjandi kostaðar umfram tekjur við yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaga. Íþyngjandi kostnaður er m.a. tilkominn vegna leiguskuldbindinga. Með því að fella framlögin út munu sveitarfélög ekki standa jafnfætis varðandi húsnæðiskostnað.

    Innviðaframlag skýrt nánar með verklagsreglum
    Jákvætt er að settar verði verklagsreglur um framkvæmdina. Mikilvægt er að geta brugðist við breytingum á skipan þjónustusvæða en gæta þarf einnig að uppbyggingu þjónustu í nærumhverfi innan þjónustusvæða þ.e. meta þjónustuuppbyggingu jafnhliða stærð svæða.

    Samandregið
    Skagafjörður leggur áherslu á framangreinda liði, ekki eru gerðar athugasemdir við aðrar breytingar í reglugerðardrögunum. Mikilvægt er að ný reglugerð komi í veg fyrir að það sé tvöfalt kerfi í gangi við mat á úthlutun. Með því að leggja aukna áherslu á samræmt mat á stuðningsþörf á landsvísu og telja matið til útgjaldaþarfar þjónustusvæða er meira gagnsæi í fjármögnun á milli þjónustusvæða, að því gefnu að innviðaframlag sé vel skilgreint með verklagsreglum sem taka mið af uppbyggingu þjónustu innan þjónustusvæða. Rétt er að geta þess að verulega íþyngjandi er fyrir fjármögnun NPA samninga að búið sé að fella ákvæði um 25% framlag ríkisins til gerðra samninga."


Var efnið á síðunni hjálplegt?