Drög að flokkun tíu vindorkuverkefna

Málsnúmer 2412046

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1235. fundur - 06.01.2025

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óskar eftir umsögn um mál nr. 229/2024 í samráðsgátt.
Um er að ræða kynningu verkefnisstjórnar rammaáætlunar á drögum að flokkun 10 vindorkukosta. Umsagnarfrestur var upphaflega til 2. janúar 2025 en var framlengdur til 9. janúar 2025.

Byggðarráð þakkar framlengingu á skilafresti umsagna en sérstakt verður að teljast að jafn mikilvægt og umdeilt mál sé sett í samráð yfir jól og áramót. Byggðarráð Húnaþings vestra gerir eftirfarandi athugasemdir við framlögð drög:

Í drögunum kemur fram að verkefnisstjórnin telur brýnt að stjórnvöld ljúki stefnumótunarvinnu um virkjun vindorku í landinu. Byggðarráð tekur heilshugar undir það. Í því sambandi nefnir verkefnisstjórnin fjögur verkefni sem að mati byggðarráðs eru afar mikilvæg: (1) skoðun á stefnumótandi tillögum settum fram í skýrslunni Vindorka, valkostir og greining, (2) skipting kostnaðar og ábata m.a. milli ríkis og sveitarfélaga, (3) stefnumótun um staðarval vindorkuvera og fleiri stefnumótandi atriði og (4) breytingar á málsmeðferð vindorku í lögum um rammaáætlun. Byggðarráð leggur áherslu á að öll þessi verkefni er nauðsynlegt að vinna í náinni samvinnu við sveitarfélögin sem fara með skipulagsvald. Ógerningur er að taka afstöðu til einstakra virkjanakosta nema laga- og regluramminn sé skýr af hálfu hins opinbera og sveitarfélög geti aðlagað sínar skipulagsáætlanir að þeim ramma.

Af þeim 10 virkjunarkostum sem tilgreindir eru í skjalinu er einn innan Húnaþings vestra, Hrútavirkjun. Þegar til hans er litið eru upplýsingar í skýrslunni um margt ófullkomnar. Til dæmis er ekki er lagt mat á samfélagsleg áhrif, ástæða þess er auk þess ekki skýrð í skýrslunni. Afar erfitt er að leggja mat á fýsileika virkjunarkostsins án þess að samfélagsleg áhrif séu tekin með í reikninginn. Einnig vantar upplýsingar fyrir Hrútavirkjun í samantekt á þeim viðföngum sem faghópur 3 telur hafi mest jákvæð og
mest neikvæð áhrif við viðkomandi virkjunarkost. Einnig kemur fram að faghópar hafi ekki skoðað þætti eins og t.d. aðkomu að framkvæmdasvæðum né heldur hver beri þann kostnað, mengunaráhrif hafa heldur ekki verið skoðuð en hvoru tveggja eru mikilvægir þættir í mati á fýsileika virkjanakosta. Faghópar 1 og 2 hafa lagt mat á áhrif á fuglalíf og er sérstaklega fjallað um farleiðir hafarna og þá staðreynd að virkjanakosturinn Hrútavirkjun sé í farleið þeirra skv. mælingum. Byggðarráð telur brýnt að sá þáttur sé skoðaður betur áður en ákvörðun er tekin um framhald verkefnisins. Byggðarráð tekur einnig undir það sem fram kemur um að verkefnið hafi lítið verið kynnt í nærumhverfinu og á það við um fleiri virkjanakosti sem nefndir eru í skjalinu. Það verður að teljast sérstakt að einkafyrirtæki geti óskað eftir mati á virkjunarkosti innan sveitarfélags án nokkurs samtals við sveitarfélagið sem fer með skipulagsvaldið eða íbúa í nærumhverfinu.

Að framansögðu telur byggðarráð Húnaþings vestra skynsamlegt að virkjanakosturinn sé flokkaður í biðflokk eins og lagt er til í skýrslunni. Meginástæða þess er að laga- og reglurammi liggur ekki fyrir auk þess sem ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að leggja mat á þann virkjunarkost í sveitarfélaginu sem um ræðir. Byggðarráð gerir einnig athugasemd við það að einstaka aðilar geti "klukkað" ákveðin svæði án nokkurs samtals við sveitarfélögin eða nærumhverfi. Slíkt er ekki til þess fallið að auka traust og vilja heimamanna til að taka þátt í verkefnum sem þessum. Í vinnu við gerð regluverks um vindorku þarf að gera lagfæringar á því ferli svo sveitarfélög og íbúar þess verði þátttakendur frá upphafi í vindorkuverkefnum.

Ráðið áskilur sér rétt til athugasemda á síðari stigum málsins.
Var efnið á síðunni hjálplegt?