Í dag er alþjóðlegur dagur reykskynjarans og er hann notaður til að hvetja fólk til að huga að eldvörnum heima hjá sér. Ganga þarf úr skugga um að reykskynjarar heimilisins séu í lagi og skipta um rafhlöður í þeim. Samkvæmt byggingarreglugerð eiga reykskynjarar að vera á hverju heimili.
Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki sem eiga að vera á hverju heimili. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. En til þess þurfa þeir:
1. Að vera til staðar og á réttum stað.
2.Að vera réttrar gerðar og í lagi.
3.Að hafa góða rafhlöðu.
Til eru tvær megingerðir af reykskynjurum, optískir og jónískir, auk skynjara sem sameinar eiginleika beggja. Jóníski skynjarinn skynjar vel reyk með litlum ögnum, til dæmis opinn eld, en síður upphaf glóðarbruna, til dæmis í sófa, sem optíski skynjarinn nemur hins vegar mjög vel. Því er æskilegt að hafa báðar gerðirnar á heimilinu.
Hafið eftirfarandi í huga um reykskynjara:
-
Ekki staðsetja reykskynjara í eða of nálægt eldhúsi.
-
Setjið optískan reykskynjara á ganga eða opin svæði.
-
Setjið optískan reykskynjara nálægt rafmagnstöflu.
-
Æskilegt er að setja reykskynjara í öll svefnherbergi.
-
Best er að samtengja alla reykskynjara í húsinu.
-
Sé húsið fleiri en ein hæð, setjið reykskynjara á allar hæðir.
-
Reykskynjara ber að staðsetja í lofti, ekki nær vegg en 50 cm.
-
Skiptið um rafhlöðu í reykskynjaranum árlega t.d. 1. desember.
-
Prófið reykskynjarann mánaðarlega með því að ýta á prófunarhnappinn.
-
Líftími reykskynjara er um það bil tíu ár. Aðgætið framleiðsludag/ár þegar reykskynjari er keyptur.