Á þessu ári eru 20 ár liðin frá sameiningu hreppa í Vestur Húnavatnssýslu í það sveitarfélag sem í dag ber nafnið Húnaþing vestra. Af því tilefni er efnt til afmælisveislu 24. til 26. ágúst 2018. Það er Menningarfélag Húnaþings vestra sem skipuleggur afmælið.
Íbúum sveitarfélagsins og gestum þeirra verður boðið uppá ýmsa sögu- og menningartengda viðburði með áherslu á góðar samverustundir, víðsvegar um sveitarfélagið. Allir viðburðir eru ókeypis, nema annað sé tekið fram.
Dagskráin er eftirfarandi
Föstudagurinn 24. ágúst
kl. 14:00 Ljósmyndasýning með verkum Kollu Gr á Gauksmýri. Sýningin verður opin föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 14:00 til kl. 17:00.
kl. 17:00 Ljósmynda- og myndlistarsýning Sigríðar Ólafsdóttur í Dæli í Víðidal. Sýningin verður í veitingasalnum og verður opin yfir helgina.
kl. 17:00 Myndlistarsýning frá Listakoti Dóru. Sýningin verður í Hótel Laugarbakka og verður opin yfir helgina. Hótel Laugarbakki er jafnframt með 20% afslátt af öllum réttum á matseðli yfir þessa daga.
kl. 21:00 Harmonikkuball í Félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka. Fyrir dansi leika Benedikt Jóhannsson, Björn Pétursson, Marinó Björnsson og Skúli Einarsson. Kaffi á könnunni. Þriggja tíma skemmtun sem getur ekki klikkað.
kl. 22:00 Pubquiz á Sjávarborg. ElísaDís ætla að spyrja þátttakendur spjörunum úr og finna skörpustu hnífana í skúffunni. Opið til kl. 01:00.
Laugardagurinn 25. ágúst
kl. 11:00 Gærurnar opna nytjamarkaðinn og verður opið hjá þeim til kl. 15:00. Hann ætti ekki að fara framhjá þér á leiðinni í kaupfélagið. Síðasta opnun sumarsins og miklir afslættir.
kl. 14:00 Kaffiboð í Félagsheimilinu Hvammstanga. Ávarp sveitarstjóra, tónlistarflutningur, afmælisterta og drykkir. Meðal annars ætla kórar í sveitarfélaginu að flytja lagið Húnaþing vestra, en Einar Georg Einarsson samdi bæði lag og texta.
kl. 14:00 Ljósmyndasýning með verkum Kollu Gr á Gauksmýri. Sýningin verður opin föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 14:00 til kl. 17:00.
kl. 16:00 Kormákur/Hvöt – Geisli A. Fótboltaleikur sem fer reyndar fram á Blönduósi, en engu að síður vert að styðja. Síðasti leikur liðsins þetta sumarið. (óstaðfestur tími)
kl. 16:00 Dælismótið 2018. Hestamennska. Sex lið keppa um titilinn. Að lokinni keppni verður grillhlaðborð sem hægt verður að gæða sér á, gegn pöntun og 3.500 kr. greiðslu.
kl. 19:00 Heima. Tónleikar, ljóðalestur og fleira í heimahúsum á Hvammstanga og Laugarbakka. Cirka hálftími á hverjum stað fyrir sig.
– 19:00 Teigagrund 6. Pálína Fanney Skúladóttir ætlar að opna heimili sitt og bjóða okkur að hlýða á tónlistarmanninn Bonnet frá Dóminíska lýðveldinu.
– 19:00 Fífusund 9. Elinborg Sigurgeirsdóttir býður upp á heimatónleika og fær til liðs við sig vini og vandamen.
– 19:30 Brekkugata 12. Jenný Þórkatla Magnúsdóttir og Arnar Svansson opna heimili sitt og Harpa Þorvaldsdóttir sér um að færa okkur tónlistina.
– 20:00 Holt (við Klapparstíg). Birta og Auður Þórhallsdætur verða með lestur á ljóðum og smásögum, auk þess sem ljósmyndasýning verður jafnframt á meðan á því stendur.
– 20:30 Spítalastígur 5. Geir Karlsson opnar heimili sitt og hljómsveit hans framreiðir tónlist á silfurfati.
kl. 21:00 Brekkustemmning í Kirkjuhvammi. Syngjum saman undir stjórn og hljóðfæraleik Ólafs E. Rúnarssonar og Skúla Einarssonar. Við hendum í krúttlegan varðeld þar sem hægt verður að grilla sykurpúða og bjóðum svo uppá heitt súkkulaði. Huggulegheit í hvamminum.
kl. 23:00 DJ Diocletian á Sjávarborg. Þarna er hægt að sletta aðeins úr klaufunum en DJ Diocletian spilar popp, rokk og diskó frá sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Munið aldurstakmark, þar sem þetta er jú bar. Opið til 03:00.
Sunnudagurinn 26. ágúst
kl. 09:00 Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna opnar (rétt eins og alla aðra daga). Sýningin “Hvað á barnið að heita?” sem byggir á handgerðum skírnarkjólum saumuðum af konum í byggðarlaginu og skírnar- og nafnakjólum Berglindar Birgisdóttur klæðskera. Hljóðsýningin “Segðu mér…” verður einnig á Byggðasafninu og innihald þeirrar sýningar eru viðtöl sem nemendur 6. bekkjar Grunnskóla Húnaþings vestra tóku. Það verk var upphaflega sýnt á Eldi í Húnaþingi 2018. Frítt á
safnið þennan dag, kaffi og meðlæti.
kl. 13:00 Markaðsdagur í Riishúsi á Borðeyri. Handverk og fleira skemmtilegt á markaðnum.
kl. 14:00 Söguganga um Borðeyri. Dr. Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur mun leiða göngu um eyrina og segja frá sögu þorpsins, um húsin sem þar standa og fólkið sem bjó í þeim.
kl. 14:00 Ljósmyndasýning með verkum Kollu Gr á Gauksmýri. Sýningin verður opin föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 14:00 til kl. 17:00.
kl. 14:00 Ratleikur og vöfflukaffi á Gauksmýri. Skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna. Allir velkomnir. Einnig verður hægt að versla vöfflukaffi á 1.000 kr.
kl. 20:30 Bíósýning í Selasetri Íslands á Hvammstanga. Myndin Bændur og býli í V-Hún, sem tekin var upp á árunum 1953-1964, verður sýnd.
Tengill á viðburð