Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 14. janúar sl. að skipa starfshóp til að rýna teikningar fyrir fjölnota rými í austurenda Íþróttamiðstöðvar Húnaþings vestra sem m.a. er ætlað fyrir fólk með sértækar þarfir og aðstöðu fyrir keppnislið. Starfshópurinn skildi einnig koma með hugmyndir að framtíðarskipulagi útisvæðis við sundlaugina.
Helstu hugmyndirnar starfshópsins eru :
- Sérbúningsklefi og klefi fyrir fatlað fólk með aðstöðu fyrir aðstoðarmann(þar sem gufubað er núna). Hjólastólaaðgengi frá anddyri um gang að sunnanverðu.
- Búningsaðstaða – Aðstaða sem t.d nýtist keppnisliðum.
- Eimbað/ Gufubaðsklefi ásamt sturtu verði staðsett á útisvæði í norðaustur horni við heitapottinn.
- Kaldur pottur verði niðurgarfinn á svipuðum stað og núverandi kaldur pottur er staðsettur.
- Gæslurými aukið. Viðbygging til suðurs frá núv. gæslurými til að bæta öryggi með betri ásýnd yfir svæðið fyrir starfsfólk.
- Geymsluskúr fyrir áhöld og tæki verði komið fyrir á svæði undir rennibrautinni.
- Sjúkraþjálfun – leitast verði við að finna aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara í húsnæði Íþróttamiðstöðvarinnar
Sjá tillögur að staðsetningum í meðfylgjandi teikningu.
Íbúum er gefin kostur á því að koma með ábendingar við tillögur starfshópsins í gegnum hnapp á forsíðu heimasíðunnar. Hægt er að senda inn ábendingar til og með 8. apríl nk.