Jafnréttisnefnd bauð upp á áhugaverðan og hagnýtan fund fyrir foreldra í sveitarfélaginu.
Sérfræðingur frá Jafnréttisstofu gerði sér ferð til Hvammstanga í síðastliðinni viku og ræddi við foreldra leik- og grunnskólabarna um jafnréttismál, helstu áhrifaþætti þegar litið er til náms- og starfsvals kynjanna.
Einnig ræddi hún sérstaklega um áhrif fjölmiðla og ýmissa netmiðla á hugmyndir barna um hlutverk kynjanna, útlit og áhugamál.
Á fundinum sköpuðust góðar umræður um uppeldisaðferðir og möguleika skóla til að skapa aðstæður fyrir nemendur til að tileinka sér gagnrýna hugsun og hafa áhrif á viðteknar hugmyndir um kynhlutverk í samfélaginu.
Jafnréttisnefnd sveitarfélagsins hefur undanfarin ár staðið fyrir fræðslu um jafnréttismál. Í fyrra voru nemendur á unglingastigi grunnskólans heimsóttir og fengu kennarar skólanna einnig fræðslu um aðferðir við jafnréttisfræðslu. Samkvæmt aðalnámskrá og jafnréttislögum eiga skólar á öllum skólastigum hérlendis að bjóða upp á jafnréttisfræðslu.
Jafnréttisnefnd Húnaþings vestra