Mynd: Sigríður Ólafsdóttir.
Byggðarráð Húnaþings vestra fjallaði á 1216. fundi sínum þann 19. júní um málefni bænda í tengslum við kuldatíð í byrjun júní. Svohljóðandi var bókað:
Dagana 3.-8. júní síðastliðna gekk slæmt veður með mikilli úrkomu og kulda yfir Norðurland. Hret þetta kom óvenju seint að vori, þegar lambfé var flest komið út og þurfti á vissum stöðum að hýsa fé aftur, ásamt því að hýsa þurfti folaldsmerar. Jafnframt stóð veðrið óvenju lengi yfir, eða í rétt tæpa viku. Veðrið hafði neikvæð áhrif á búfénað sem og jarðrækt bænda, ásamt því að áður var vitað að mikil og langvinn kuldaköst síðastliðinn vetur urðu völd að miklu kali í túnum.
Í Húnaþingi vestra, þar sem landbúnaður og ekki hvað síst sauðfjárrækt er stór atvinnuvegur, er fyrirsjáanlegt að veður sem þetta getur haft töluverð áhrif. Jafnframt er ljóst að afleiðingar veðursins hafa ekki komið fram að fullu til dæmis hvað varðar heilsufar áa og fallþunga lamba og munu ekki koma fram að fullu fyrr en í haust.
Þegar aðstæður sem þessar koma upp er mikilvægt að öryggisnet sé til staðar sem tryggir að bændur hafi aðgang að nauðsynlegum björgum í kjölfar tjóns. Byggðarráð skorar á stjórnvöld að vinna að gerð viðbragðsáætlunar vegna áfalla í landbúnaði ásamt því að tryggja bændum fjármagn til að bæta tjón sem af þeim hlýst.
Bókuninni verður komið á framfæri við matvælaráðherra og þingmenn Norðvesturkjördæmis.