Fjölsóttur fundur um riðumál undir yfirskriftinni Ræktun gegn riðu - fyrstu skrefin, fór fram í Félagsheimilinu Hvammstanga miðvikudaginn 1. nóvember. Á fundinum voru kynntar niðurstöður rannsókna Dr. Vincent Béringue á næmi arfgerða gegn riðu. Gefa þær til kynna að verndandi arfgerðir séu fleiri en haldið hefur verið fram að þessu. Gefa niðurstöðurnar tilefni til bjartsýni í baráttunni við þann vágest sem riðan er.
Einnig fluttu erindi á fundinum þau Stefanía Þorgeirsdóttir sérfræðingur á Keldum, Karólína Elísabetardóttir bóndi í Hvammshlíð, Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir hjá MAST, Jón Hjalti Eiríksson frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Eyþór Einarsson frá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.
Í erindi Sigurborgar yfirdýralæknis kom fram að hún hefði óskað eftir við matvælaráðuneytið að gerðar verði breytingar á reglugerð svo henni sé heimilt að leggja til að ekki verði skorið niður fé sem beri verndandi arfgerðir þegar upp koma riðusmit. Því ber sannarlega að fagna.
Ljóst er að krefjandi verkefni bíður bænda við ræktun fjárstofna með verndandi arfgerðir gegn riðu en samkvæmt því sem fram kom á fundum á það að vera gerlegt á komandi árum með áframhaldandi rannsóknum og góðri samvinnu allra aðila.
Fundurinn var einn sex funda í fundaröð víðsvegar um landið. Fundur sem haldinn var á Hvanneyri 31. október var tekinn upp og er aðgengilegur hér.