Ljósmynd: Aldís Olga Jóhannesdóttir.
Formlega hleypt á hitaveitu
Stór áfangi var hjá Hitaveitu Húnaþings vestra í gær þegar vatni var hleypt á stofnlögn í Miðfirði, frá dælustöð í landi Syðri Reykja að Brekkulæk. Það var oddviti sveitarfélagsins, Unnur Valborg Hilmarsdóttir og fyrrverandi oddviti, Brynjólfur Sveinbergsson, sem í sameiningu ræstu dæluna en þann 2. desember sl. voru 43 ár síðan Brynjólfur ræsti dælu sem hleypti vatni á fyrsta hús á Hvammstanga. Með því má segja að framkvæmdum hitaveitunnar í Miðfirði og Hrútafirði á árinu 2015 sé formlega lokið þó svo frágangur og uppsetning tengigrinda innanhúss taki einhverjar vikur í viðbót.
Nú þegar geta 12 bæir tengst og næstu daga bætast 7 í hópinn. Síðustu bæir í Miðfirði þar sem hitaveita hefur verið lögð á árinu 2015 ættu að hafa aðgang að heitu vatni í lok janúar nk. Stefnt er að því að hleypa á stofnlögn í Hrútafirði fyrir árslok. Um 96 gráðu heitt vatn kemur úr borholunni í landi Syðri Reykja og er því nú dælt um Miðfjörð, til Hvammstanga og Línakradal en verið er að undirbúa framkvæmdir við dreifikerfi hitaveitu í Víðidal á næsta ári.
Samhliða lagningu dreifikerfis hitaveitu var lagður ljósleiðari í öll hús sem tengjast hitaveitunni. Tengivinna fyrir fyrsta hluta stendur yfir en hann er frá Syðri-Reykjum að Torfustöðum og yfir að Skarfshóli að öllum bæjum meðtöldum á lagnaleið hitaveitunnar.
Hitaveita Húnaþing vestra vill þakka íbúum fyrir mjög góða samvinnu við uppbyggingu veitunnar.