Magnús Magnússon formaður byggðarráðs, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Þorleifur Karl Eggertsson oddviti og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri.
Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Magnús Magnússon formaður byggðarráðs og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri fóru til fundar við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á dögunum. Nefndin boðaði fulltrúa sveitarfélagsins til fundar til að fylgja eftir umsögn þess um frumvarp til breytingar á skipulagslögum. Nær breytingin til svokallaðs raflínuskipulags. Sveitarfélagið lagðist í umsögn sinni gegn fyrirhuguðum breytingum þar sem með þeim er gengið á skipulagsrétt sveitarfélaga. Umsögnin var færð til bókar á 1153. fundi byggðarráðs. Sjá hér.
Í sömu ferð var innviðaráðherra sóttur heim í ráðuneytið. Á fundinum voru ýmis mál rædd. Aðallega samgöngumál og bar Vatnsnesveginn þar á góma eins og jafnan í samtölum við ráðamenn um framfaramál í sveitarfélaginu. Ítrekuð var sú áhersla sveitarfélagsins að ýta framkvæmdum við veginn framar á samgönguáætlun. Vinna við uppfærslu gildandi áætlunar stendur nú yfir og því afar brýnt að halda þessu baráttumáli á lofti í þeirri vinnu.