Fulltrúar Gæranna ásamt nokkrum ungmennum.
Enn einu sinni hafa gærurnar komið færandi hendi. Í þetta sinn fengu unglingarnir í félagsmiðstöðinni Óríon að njóta gjafmildi þeirra. Í vetur leitaði kjúklingaráð til þeirra með bréfi þar sem spurt var hvort Gærurnar sæju sér fært að aðstoða með kaup á Playstation tölvu og fjarstýringum fyrir félagsmiðstöðina. Ekki stóð á svörum frá þeim og hafa þær komið færandi hendi með tölvuna. Fulltrúar kjúklingaráðs, nokkrir krakkar og starfsmenn Óríon tóku við þessari höfðinglegu gjöf á dögunum. Gleðin var mikil hjá unga fólkinu og þökkum við Gærunum kærlega fyrir þessa góðu gjöf.
Gærurnar eru hópur kvenna sem halda úti nytjamarkaði á Hvammstanga undir yfirskriftinni Eins rusl er annars gull. Hafa þær nýtt ágóðann til margvíslegra góðra verka í héraði og þannig haft mikil og jákvæð áhrif á samfélagið. Sveitarfélagið færir Gærunum hjartans þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag til eflingar samfélagsins í gegnum árin. Framlag þeirra er ómetanlegur stuðningur.