Í framhaldi af fundi Almannavarnarnefndar Húnavatnssýslna sem haldinn var þann 26. ágúst sl. vegna slæmrar veðurspár um næstu helgi kom sveitarstjórn Húnaþings vestra saman til fundar ásamt fulltrúum fjallskiladeilda síðdegis þann sama dag. Á fundi sveitarstjórnar var samþykkt að skipa Leó Örn Þorleifsson, oddvita, Skúla Þórðarson, sveitarstjóra og Elínu R. Líndal, sveitarstjórnarmann í aðgerðarstjórn vegna óveðursins sem gert er ráð fyrir. Í kjölfarið hafa fjallskilastjórnir fundað hver á sínu svæði þar sem teknar hafa verið ákvarðanir um aðgerðir varðandi breytingar á tímasetningu gangna og rétta. Skúli Þórðarson, sveitarstjóri hefur verið í sambandi við fulltrúa fjallskilastjórna nú í morgun og tekið saman upplýsingar um stöðu mála á einstökum svæðum innan Húnaþings vestra og er hún eftirfarandi, með fyrirvörum um breytingar:
Víðidalur – Menn fara af stað á hjólum nú um hádegi fram á Stórastand og fram að vötnum (Réttarvatn & Arnarvatn).
Heiðin verður smöluð á morgun niður fyrir heiðargirðingu. Á fimmtudag verður smalað í Lambhaga, Víðidalsfjalli og Gafli. Gert er ráð fyrir að fé verði komið til réttar á fimmtudagskvöld og réttað verði strax á föstudagsmorgni.
Í Víðidal vantar bæði menn og faratæki til aðstoðar.
Miðfjörður – Farið verður af stað á hjólum og með hesta nú eftir hádegi á fremsta hluta allra heiðanna. Smalað verður í dag og á morgun og stefnt að því að fé verði réttað á fimmtudag ef nokkur kostur er. Í Miðfirði vantar bæði menn og faratæki til aðstoðar.
Hrútafjörður austan – Farið verður af stað í dag á hjólum fram fyrir skála og það svæði smalað eins og kostur er. Fleiri mæta í skála með hjól/hesta í kvöld. Stefnt er á smölun á morgun og að fé verði réttað á fimmtudagsmorgni. Óvíst er með mönnun og tæki en bjargast líklega.
Hrútafjörður vestan – Þar ætla menn að sjá til með veðurspá fram á miðvikudag en stefnt er að því að smala Meladal, Tröllakirkju, Geldingafell og fell vestan Kollsár og Kolbeinsár á fimmtudag. Mönnun og tæki sleppa til.
Vatnsnes og Vesturhóp – Bændur smala heimalönd í dag og miðvikudag. Stefnt er að því að smala dalina þ.e. Heydal og Ormsdal ásamt fleiru á fimmtudag. Óvíst með mönnun og tæki.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hvetur íbúa sveitarfélagsins og aðra þá sem möguleika eiga til að aðstoða bændur og fjallskilastjórnir við þessar erfiðu aðstæður með því að taka þátt í smölun og réttarstörfum eftir því sem við á. Þá vill sveitarstjórn beina því til atvinnurekenda að þeir gefi starfsfólki sínu, eftir því sem mögulegt er, leyfi frá störfum til að aðstoða bændur og búalið við að koma fé af fjalli.
Hvammstangi 27. ágúst 2013
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.