Grjóthleðslunámskeið í boði byggðasafnsins á Reykjum

Mynd af mbl.is
Mynd af mbl.is

Þann 29. október næstkomandi heldur Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna grjóthleðslunámskeið. Drangabræðurnir og grjóthleðslumeistararnir Benjamín og Guðjón Kristinssynir stjórna námskeiðinu. Benjamín og Guðjón hafa starfað við grjóthleðslu um árabil, þekkja vel til helstu aðferða og eru hleðsluverk eftir þá að finna um land allt. Þeir eru báðir sagnamenn miklir, segja ekki sögur nema þær séu stórlega ýktar eða verulega bættar. Því á ekki eftir að skorta skemmti- eða umræðuefni á námskeiðinu.

 

Námskeiðið verður haldið á Reykjum í Hrútafirði og er haldið í tengslum við varðveislu fallbyssustæðis frá tímum hernámsins sem er í fjörunni við hlið safnsins. Hlaðinn verður frístandandi, boginn skjólveggur vestan við byggðasafnið við hlið fallbyssustæðisins. Ætlunin er að búa til fallegt útivistarsvæði og miðla grjóthleðslukunnáttu til áhugasamra. Námskeiðið er án endurgjalds og létt hressing í boði á byggðasafninu fyrir þátttakendur.

Sólveig H. Benjamínsdóttir veitir upplýsingar og tekur á móti skráningu á netfangið solveig@hunathing.is eða í síma 771-4961.

Við vonum að sjá ykkur sem flest. Við lofum góðu puði eftir erfiða kosninganótt!

 

Staður: Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, Reykjum í Hrútafirði.

Tími: 11:00. Námskeiðinu lýkur þegar veggurinn er tilbúinn :)

Án endurgjalds

 

Við bendum sérstaklega á fréttina „Íslendingar eru að verða aumingjar.“ Í fréttinni er fjallað á léttu nótunum um grjóthleðslukunnáttu bræðranna. 

 ATHUGIÐ námskeiðið er fullbókað en tekið er inn á biðlista og haft verður samband ef einhver forfallast. Haft verður samband eftir tímaröð, fyrstir koma fyrstir fá.

 Vegna mikillar eftirspurnar er möguleiki á að haldið verði annað námskeið. Þeir sem skrá sig á biðlista fá tilkynningu um það áður en það verður auglýst. Vinsamlegast takið fram nafn, símanúmer og netfang.

Var efnið á síðunni hjálplegt?