Handbendi brúðuleikhús hlýtur Eyrarrósina

Handbendi brúðuleikhús hlýtur Eyrarrósina

Handbendi var stofnað árið 2016 af leikstjóranum og brúðuleikaranum Gretu Clough og er hún jafnframt listrænn stjórnandi leikhússins. Handbendi er eina starfandi atvinnuleikhúsið á Norðurlandi vestra og eitt af sárafáum slíkum utan höfuðborgarsvæðisins.

Fjölbreytt starfsemi Handbendis byggir á bjargfastri trú á gildi listanna fyrir dreifðari byggðir en ekki síður á gildi þess sem dreifbýlið hefur uppá að bjóða fyrir listirnar.

Auk þess að framleiða brúðuleiksýningar í háum gæðaflokki, ferðast með þær um landið og á erlendar hátíðir, rekur Handbendi stúdíó þar sem áhersla er lögð á upptökur og framleiðslu á stafrænu efni af ýmsum toga. Þau hýsa gestasýningar, standa fyrir námskeiðahaldi fyrir börn og fullorðna, veita ráðgjöf og búa til brúður eftir pöntunum frá leikhúsum víða að úr Evrópu. Þá leggur leikhúsið sérstaka áherslu á að hafa frumkvæði að og leiða samfélagstengd verkefni af ýmsum toga, þar á meðal með börnum og ungu fólki.

Nýjasta skrautfjöðrin í hatt Handbendis er alþjóðleg brúðuleikhúshátíð - Hvammstangi International Puppet Festival - eða HIP Fest - sem fram fór í fyrsta sinn á síðasta ári og verður hér eftir árlegur viðburður í október.

Leikhúsið er þessa dagana að koma sér fyrir í nýju húsnæði á Hvammstanga sem er liklegt til þess að styrkja starfsemina enn frekar. Meðal annars geta þau nú boðið erlendu brúðu- og sviðslistafólki til listamannadvalar/residensíu í lengri eða skemmri tíma.

Greta Clough hefur sýnt og sannað að hún hefur djúpstæðan skilning á eðli listastarfsemi í fámennu byggðarlagi. Rótarkerfi Handbendis nær djúpt inn í samfélagið í Húnaþingi vestra, til áhugaleikfélaga á svæðinu, inn í skólana og atvinnulífið, en teygir sig líka inn í íslenskt sviðslista-umhverfi og út í heim. Starfsemi Handbendis hefur hækkað gæðaviðmið í menningarlífi svæðisins og leikhúsið á stóran þátt í því að ánægja með menningarframboð í heimabyggð mælist nú með því hæsta á landsvísu í Húnaþingi vestra.

Á árinu 2019 náðu viðburðir Handbendis til yfir 200 þúsund manns þegar allt er talið. Og á heimsfaraldursárinu mikla 2020 náðu þau til yfir 70 þúsund manns.

Verðlaun eins og Eyrarrósin draga athygli að metnaðarfullum verkefnum á sviði menningar og lista sem um leið eru hluti af margbreytilegri atvinnustarfsemi.  Rannsóknir hafa sýnt að atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista skiptir samfélög miklu máli og hafa m.a. jákvæð áhrif á einstaklingana sem þar búa og  því mik­il­vægt hlut­verk fyr­ir vellíðan fólks og fjölbreyttara samfélags. 

Við óskum Gretu og Handbendi til hamingju með Eyrarrósina!

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?