Heimsókn frú Elizu Reid og afhending Eyrarrósarinnar

Heimsókn frú Elizu Reid og afhending Eyrarrósarinnar

Á dögunum fór fram afhending Eyrarrósarinnar 2023 í Studio Handbendi á Hvammstanga. Í tengslum við afhendinguna sótti Eliza REid sveitarfélagið heim en hún er verndari Eyrarrósarinnar og afhenti viðurkenningarnar. Með Elizu í för voru fulltrúar Listahátíðar og bakhjarla hátíðarinnar.

Tekið var á móti hópnum í Byggðasafninu á Reykjum þar sem Sólveig Hulda forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra og Benjamín safnvörður veittu leiðsögn um sýningar safnsins. Þar var gestum einnig boðið upp á sýningu á Heimferð, sýningu Handbendis sem fram fer í húsbíl og hefur ferðast víða um land. Frá Byggðasafninu lá leið í Búrfell í Miðfirði þar sem Jón Eiríksson myndlistarmaður var heimsóttur í vinnustofu sína. Þá lá leið í Leirhús Grétu áður en haldið var í Stúdíó Handbendi þar sem afhending Eyrarrósarinnar fór fram. Að athöfn lokinni var efnt til móttöku á Sjávarborg.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlaut Eyrarrósina að þessu sinni.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2023 hlutu Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum, Vesturbyggð, Hnoðri í norðri, Akureyri og Raddir úr Rangárþingi, Hellu.
 
Um leið og við óskum viðurkenningarhöfum hjartanlega til hamingju þökkum við Frú Elizu og fylgdarliði fyrir komuna í Húnaþing vestra.
Verðlaunahafar ásamt fulltrúum Listahátíðar og bakhjörlum verkefnisins í móttöku á Sjávarborg. Myndi: Hjalti Árnason.
 
Aðalheiður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlaut Eyrarrósina í ár. Mynd: Hjalti Árnason.
 
Elvar Logi og Kristinn fluttu nokkur lög á afhendingunni. Mynd: Hjalti Árnason.
 
Það fór vel á með frú Elizu Reid og Jóni á Búrfelli.
 
Frú Eliza og Gréta Jósefsdóttir leirlistakona í Leirhúsi Grétu.
 
Sólveig Hulda forstöðumaður safna og Benjamín safnvörður á Byggðasafninu á Reykjum leiddu frú Elizu um sýningar safnsins.
 

Gestum var boðið á sýningu á Heimferð við Byggðasafnið á Reykjum.

Var efnið á síðunni hjálplegt?