Hreinsunarátak 2015
Skorað er á fólk og fyrirtæki að taka vel á móti sumrinu og taka virkan þátt.
Dagana 3.-8. júní 2015 ætla starfsmenn áhaldahúss og vinnuskóla að vera á ferðinni og hirða upp garðaúrgang sem settur er út fyrir lóðamörk á Hvammstanga og Laugarbakka. Óskað er eftir því að garðaúrgangurinn verði í pokum og trjágreinar settar saman úti við lóðamörk.
Ábending; Umgengi á hafnarsvæðinu skal vera með þeim hætti að ekki safnist rusl, eða annað sem óprýði er af í kringum gáma, báta eða annað sem hefur leyfi fyrir aðstöðu á hafnarsvæðinu. Starfsmenn munu fara um svæðið og tína upp lauslegt rusl sem á vegi þeirra verður.
Hafnarvörður er Ína Björk Ársælsdóttir s. 771-4959
Samkvæmt gildandi samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu Húnaþingi vestra kemur m.a. fram eftirfarandi;
…“Húsráðendur bera ábyrgð á þeim sorpílátum sem sveitarfélagið lætur þeim í té. Sorpílátum skal koma fyrir á aðgengilegum stað og þau fest tryggilega. Gæta ber þess að auðvelt sé fyrir sorphirðumenn að losa ílátin úr festingum. Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi, hreinsa snjó frá sorpílátum og halda greiðfærri leið að þeim..“
Við minnum íbúa á að þrífa og sápuþvo sorptunnurnar reglulega.
Í samþykktinni er einnig kveðið á um skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda. Óheimilt er að skilja eftir eða geyma úrgang á víðavangi, götum, gangstéttum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausa bíla, vélar og önnur tæki. Úrgang má einungis meðhöndla í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins. Úrgang sem skilað er, skal flokka og meðhöndla eftir þeim leiðbeiningum sem sveitarfélagið hefur sett.
Í tilefni af hreinsunarátakinu verður opnunartími Hirðu dagana 4.-7. júní sem hér segir:
- Fimmtudaginn 4. júní frá kl. 14:00-17:00
- Föstudaginn 5. júní frá kl. 14:00-17:00
- Laugardaginn 6. júní frá kl. 11:00-15:00
- Sunnudaginn 7. júní frá kl. 11:00-15:00
Tökum öll þátt í því að gera Húnaþing vestra glæsilegra ásýndar !
Framkvæmda- og umhverfissvið