Hreyfivika 2017

Hreyfivika 2017

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur undanfarin fimm ár í röð tekið þátt í evrópskri lýðheilsuherferð undir nafninu Now We Move eða Hreyfiviku UMFÍ. Markmið verkefnisins er að að fá hundrað miljón fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020.

Jafnframt er það markmið verkefnisins að kynna kostina sem felast í virkri hreyfingu og íþróttum. UMFÍ tekur verkefnið sem langhlaup og hvetur alla til að finna sína uppáhalds hreyfingu og stunda hana reglulega eða að minnsta kosti í 30 mínútur daglega. 

 

Það er mjög einfalt að taka þátt í verkefninu. UMFÍ hvetur sambandsaðila og sveitarfélög til þess að gerast boðberar hreyfingar. Hlutverk boðbera er að virkja sitt nærumhverfi, vekja athygli á því sem er í boði tengt lýðheilsu og íþróttum og standa fyrir opnum viðburðum. Viðburðir geta verið t.d. opin íþróttaæfing fyrir alla, skipulagður göngutúr, frítt í sund eða harmonikku ball. Boðberar hreyfingar skrá viðburðinn á sérstakri síðu (smelltu hér) og eru þar með komnir í lukkupott þar sem dregnir verða út glæsilegir vinningar.   

 

Einn liður í vikunni er sundkeppni á milli sveitarfélaga. Árið 2016 tóku alls 35 sveitarfélög virkan þátt í keppninni og syntu samanlagt í um 6.000 sundferðum 4.030km.  

 

Fyrirkomulag keppninnar er á þann veg að sveitarfélag skráir sig til leiks með því að smella hér.Heppilegast er að einn starfsmaður sundlaugar sé tengiliður og ábyrgðarmaður þátttöku sveitarfélagsins. Hlutverk tengiliðar er að sjá til þess að viðeigandi eyðublöð liggi frammi fyrir sundgesti þar sem þeir skrá hversu marga metra þeir syntu. Einnig er það hlutverk tengiliðar að taka saman, hversu margir einstaklingar syntu hvern dag og hversu marga metra þeir syntu. Senda þarf þessar upplýsingar daglega til starfsmanns UMFÍ á netfangið ragnheidur@umfi.is. T.d. 25 einstaklingar syntu samanlagt 6.000m 29. maí 2017.

Starfsmaður UMFÍ sér um að reikna út stöðu hvers sveitarfélags út frá íbúafjölda. Staða sveitarfélaga og keppninnar í heild er send út og birt daglega um hádegi á heimasíðu UMFÍ sem og á samfélagsmiðlum UMFÍ.

 

Á síðasta ári myndaðist afar skemmtileg stemning í mörgum sveitarfélögum. Fólk var duglegt við að hvetja hvort annað til þess að taka þátt, ekki leggjast beint í heita pottinn heldur synda nokkrar ferðir í sundlauginni og slappa síðan af.  

Var efnið á síðunni hjálplegt?