Húnaklúbburinn er samstarfsverkefni á vegum USVH, Selasetursins og íþrótta- og tómstundafulltrúa Húnaþings vestra. Það er Jessica Faustini Aquino, starfsmaður Selasetursins, sem leiðir verkefnið. Klúbburinn hefur verið starfandi í 2 ár við góðar undirtektir.
Markmið Húnaklúbbsins er að stuðla að virðingu fyrir náttúrunni með því að nota staðbundna umhverfisfræðslu, þar sem þátttakendur læra ekki einungis hvernig á að varðveita og vernda umhverfið heldur einnig hvernig þau geta tjáð sig varðandi þessi málefni við aðra.
Kostir barna- og unglingastarfs eru fjölmargir. Það leggur grunninn að heilsusamlegu líferni, minnkar líkur á einsemd, bætir sjálfstraust og eflir hæfileika og starfshæfni. Húnaklúbburinn Húnaþingi vestra hlaut styrk frá Rannís og Erasmus+ til að taka þátt í vinnustofunni „Tools for Youth Exchanges“ á Laugarvatni dagana 27. október – 2. nóvember s.l. Þar lærðu þátttakendur hvernig hægt væri að þróa og innleiða betra ungmennastarf og byggja í framhaldi af því upp tengslanet og samstarf við önnur félög með álíka starfsemi. Alls voru fulltrúar frá 16 löndum, 32 talsins, þar á meðal Húnaklúbburinn Húnaþingi vestra. Í ár tók klúbburinn þátt í Erasmus samstarfsverkefni með sænsku æskulýðsfélagi sem kom í heimsókn í júní, til stendur svo að heimsækja þau næsta sumar. Þema klúbbsins í ár var loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á strand- og dýralíf.
Sjá facebook síðu Húnaklúbbsins hér