Hamingja, sköpunargleði, lestur og stærðfræði í Húnaþingi vestra
Í tilefni að Alþjóðadegi kennara 5. október er við hæfi að segja frá áhugaverðu samstarfsverkefni leik- og grunnskóla í Húnaþingi vestra. Það er ásetningur skólastjórnenda í sveitafélaginu að vekja athygli á því mikla og góða samstarfi sem fer fram á milli skólastiganna. Hér er aðeins sagt frá litlu broti. Með þessum skrifum viljum við hafa þau áhrif á umræðuna að hún beinist að því jákvæða sem gert er.
Til að samvinna milli skólastiga þróist þurfa kennarar af fá tækifæri á samtali um á hvern hátt við getum gert góða skóla að betri skólum. Til margra ára höfum við skapað samtalsvettvang sem hefur leitt okkur í enn meira samstarf sem er alltaf að þróast. Þökk sé frábærum kennurum.
Í Húnaþingi vestra reynum við að búa vel að kennurum í leik- og grunnskóla sem aldrei hafa hikað við að takast á við verkefni sem leiða til þess að þróa starfið enn frekar til góðs. Margra ára samvinna hefur meðal annars leitt til þess að nemendur í fyrsta bekk grunnskóla og elstu nemendur í leikskóla eru að læra sama námsefni í stærðfræði í vetur. Elstu nemendur leikskólans fara einu sinni í viku í Grunnskóla Húnaþings vestra ásamt kennurum sínum og taka þátt í náminu þar. Þess á milli vinna þau í námsefninu í leikskólanum Ásgarði. Kennarar leikskólans miðla og leggja einnig inn nýtt námsefni til 1. bekkjar. Frá og með næsta hausti munu tilvonandi nemendur í 1. bekk grunnskóla takast á við námsefni 2. bekkjar í stærðfræði og hafa því tileinkað sér meiri þekkingu fyrr á skólagöngu sinni. Það má segja að stytting framhaldsskóla hafi örvað okkur til þess að hefja stærðfræðinámið fyrr.
Markmið okkar er áfram að nemendur í Húnaþingi vestra komi betur undirbúnir út í lífið, séu hamingjusamir og að sköpunarkraftur þeirra fái að blómstra. Góður grunnur til frekara náms hlýtur að liggja í félagslegri færni, lestri og stærðfræði. Einkunnarorð okkar eru Góður skóli - gjöful framtíð.
Til hamingju með daginn kennarar.
Guðrún Lára Magnúsdóttir, skólastjóri
Sigurður Þór Ágústsson, skólastjóri