Jóhann Örn Finnsson hefur verið ráðinn í nýtt starf tengslafulltrúa á fjölskyldusviði sem auglýst var á dögunum. Tengslafulltrúi mun starfa með ungmennum í Húnaþingi vestra í samræmi við áherslur farsældarlaga og er tengiliður þeirra við stjórnkerfi og stofnanir. Hann mun leitast við að aðstoða ungmenni við að finna ástríðu sína og vinna að henni með fjölbreyttu tómstundastarfi og stuðningi. Hann mun hvetja ungmenni til þátttöku og verða málsvari þeirra í málum sem þau varða, tala fyrir hugmyndum þeirra í sveitarfélaginu og hvetja til virkni og þátttöku.
Tengslafulltrúi mun einnig vinna í samráði við sveitarfélagið og íbúa að þróun og uppbyggingu samfélagsmiðstöðvar í Félagsheimilinu Hvammstanga sem hugsuð er fyrir fjölbreytt tómstundastarf ungmenna og annarra íbúa sveitarfélagsins.
Jóhann Örn er með BS í íþrótta- og heilsufræði og stundar meistaranám í tómstunda- og félagsmálafræði. Hann hefur reynslu af störfum með ungmennum á vettvangi frítímans sem þjálfari, verkefnisstjóri og leiðbeinandi þar sem reynt hefur á samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum. Í vetur hefur hann starfað í félagsmiðstöðinni Óríon.
Jóhann Örn mun hefja störf á næstunni.
Jóhann Örn er boðinn velkominn í nýtt og spennandi starf sem styðja mun við farsæld barna í sveitarfélaginu. Við hlökkum til samstarfsins við hann og íbúa.