Í Leikskólanum Ásgarði ríkir mikil gleði og eftirvænting. Sumarhátíð leikskólans er í dag!
Á sumarhátíð er alltaf mikið líf og fjör en í ár fær Ásgarður afhentan sinn annan grænfána á hátíðinni, sem gerir hátíðina enn ánægjulegri.
Til að fá annan fána urðum við að setja okkur fleiri markmið. Markmiðin að þessu sinni tóku mið af starfinu okkar svona dags daglega. En svo viljum við alltaf leggja okkur að mörkum til að gera samfélagið okkar þátttakanda með okkur.
Aðal markmið skólans að þessu sinni var að auka hreyfingu nemenda og starfsfólks. Vinna skólans hefur gengið mjög vel. Förum alltaf tvisvar i viku í íþróttahúsið, erum dugleg að fara í vettvangsferðir, förum í jóga einu sinni í viku og svo fáum við auðvitað danskennslu eitt tímabil á ári. Svo ekki er hægt að kvarta yfir hreyfingarleysi.
Við vorum með í fyrsta skiptið bíllausan dag á umhverfisdeginum okkar í samstarfi við Húnaþing vestra. Sá dagur gekk vel og vonum við að það verði enn meiri þátttaka á næsta ári í sveitafélaginu öllu. Með þessum degi viljum við hvetja íbúa sem hafa kost á, að skilja bílinn eftir heima og ganga til vinnu eða hjóla. Þeir sem koma lengra að getu lagt bílum sínum við félagsheimilið og gengið þaðan. Einnig má draga úr umferð bíla með því að sameinast í bíla. Markmið þessa dags er að hvetja íbúa til aukinnar hreyfingar. Vekja fólk til umhugsunar um umhverfi okkar og hvaða áhrif útblástur bíla hefur á bæði heilsu okkar sem og umhverfið.
Leikskólinn leggur mikla áherslu á að stuðla að hollu og góðu mataræði og vinnum við eftir markmiðum Manneldisráðs Íslands. Höfum okkar litla matjurtagarð og kennum nemendum að bera virðingu fyrir matvælum og umhverfinu.
Síðast en ekki síst erum við með Sólblómabarna verkefni SOS barnaþorps. Nemendur, foreldra og starfsfólk hjálpast að við að safna pening fyrir hana Fiorellu okkar. Með því að eiga Sólblómabarn fá nemendur fræðslu um ólíka menningarheima, fá að sjá myndir og fleira tengt barninu. Það er gaman að sjá hvað náungakærleikurinn skín skært þegar farið er yfir ólíka menningarheima. Hvað er það sem við þurfum nauðsynlega og hvað er það sem við getum gert til að aðrir geti notið með okkur.
Öll þessi vinna okkar er spurning um viðhorf. Hvaða viðhorf viljum að nemendur fari út í lífið með til náttúrunnar, umhverfisins , náungans og síðast en ekki síst til síns sjálfs. Einhversstaðar er sagt „Lengi býr að fyrstu gerð“ og á það svo sannarlega vel við okkar starf. Það er okkar trú að ef nemendur læra það frá upphafi að bera virðingu fyrir sjálfum sér, umhverfinu og náunganum þá kemur það til með að fylgja þeim út lífið.
Guðrún Lára Magnúsdóttir Leikskólastjóri leikskólans Ásgarðs