Fimmtudaginn 29. desember sl. veitti félagið Heimafóður ehf. tvo styrki, annarsvegar til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og hinsvegar til Byggðasafnsins á Reykjum í Hrútafirði. Styrkupphæðin til hvors safns um sig nemur 740 þúsund krónum. Styrkféð er ætlað til viðhalds og endurbóta á húsakosti safnanna.
Starfsemi Heimafóðurs ehf. hófst í byrjun níunda áratugarins og fólst einkum í því að halda utan um vélasamstæðu sem malaði og kögglaði þurrt hey hjá bændum í Húnavatnssýslum. Þannig gat heimaaflað fóður fullnægt meiru af fóðurþörf búfjárins. Eftir að rúllutæknin kom til skjalanna var sjálfhætt með þessa framleiðslu. Fyrr á þessu ári kom stjórn félagsins saman og þótti fara vel á því að skipta fjármunum þess milli þessara safna.
Allir stjórnarmenn félagsins ásamt forráðamönnum safnanna og fleiri gestum komu saman í Sjávarborg á Hvammstanga þar sem afhending styrkjanna fór fram.
Eftir afhendinguna þáðu viðstaddir kaffiveitingar og áttu saman notalega stund þar sem rifjað var upp sitthvað úr búskaparsögu héraðsins sem og um starfsemi Heimafóðurs.