Niðurstaða ársreiknings sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2023

Niðurstaða ársreiknings sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2023

Seinni umræða um ársreikning sveitarfélagsins fór fram þann 8. maí sl. og var reikningurinn samþykktur samhljóða. var niðurstaða ársreiknings mun betri en gert hafði verið ráð fyrir. 

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um kr. 77,6 milljónir, en í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum var gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu A- og B-hluta að fjárhæð kr. 86 milljónir. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um kr. 63,9 milljónir en fjárhagsáætlun A-hluta ásamt viðaukum gerði ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu um kr. 89,1 milljónir. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs og undirfyrirtækja er því umtalsvert betri en fjárhagsáætlun ársins gaf til kynna. Rétt er að geta þess að söluhagnaður rekstrarfjármuna árið 2023 var kr. 64,4 milljónir sem er óvanalegt í rekstri sveitarfélagsins.

Breyting á lífeyrisskuldbindingum A- og B-hluta var kr. 23,1 milljónir samanborið við kr. 21,5 milljón árið 2022.

Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta var kr. 143,1 milljónir, en árið 2022 var það kr. 140,2 milljónir.

Þrátt fyrir kr. 250 milljóna áætlaða lántöku árið 2023 tók hvorki A- eða B-hluti lán það ár. Þess í stað var ákveðið að ganga frekar á stöðu handbærs fjár. Handbært fé lækkaði því um kr. 67,3 milljónir frá árinu 2022 en í árslok 2023 var það kr. 231,6 milljónir. Afborganir langtímalána A- og B-hluta hækkuðu nokkuð árið 2023 og voru kr. 127,1 milljónir á sama tíma og afborganirnar voru kr. 99,6 milljónir árið 2022.

Skuldahlutfall A- og B-hluta var 68,4% samanborið við 83,6% árið 2022. Í hefðbundnu árferði ber sveitarfélögum að sjá til þess að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Húnaþing vestra er því langt undir því marki.

Langtímaskuldir A- og B-hluta voru kr. 962,9 milljónir í árslok 2023, samanborið við kr. 1.002,2 milljónir árið 2022.

Veltufé A- og B-hluta frá rekstri var kr. 211,2 milljónir, eða 9,4% í hlutfalli við rekstrartekjur. Árið 2022 var veltufé frá rekstri kr. 94,1 milljónir, eða 5,1% í hlutfalli við rekstrartekjur.

Veltufjárhlutfall A-hluta var 2,69, samanborið við 2,70 árið 2022.

Laun, launatengd gjöld og breyting lífeyrisskuldbindingar A-hluta voru 51,0% í hlutfalli við rekstrartekjur, samanborið við 56,0% árið 2022.
Fjárfestingar á árinu 2023 voru kr. 194,9 milljónir, samanborið við kr. 170,8 milljónir árið 2022. Stærstu fjárfestingar ársins 2023 voru endurbætur lagna við íþróttamiðstöðina og lagning nýrrar vatnsveitu til Laugarbakka.

Ljóst er að rekstur sveitarfélaga í landinu er almennt þungur, vegna þróunar á stýrivöxtum og hárrar verðbólgu. Þróun lífeyrisskuldbindinga hefur einnig verið íþyngjandi fyrir sveitarfélögin ásamt áframhaldandi tapi á rekstri málefna fatlaðs fólks. Annar rekstur sveitarsjóðs er í jafnvægi og stendur undir skuldbindingum sveitarfélagsins. Skuldir fara jafnframt lækkandi. Þrátt fyrir þetta er engu að síður mikilvægt að sýna áframhaldandi ráðdeild í rekstri og þarf sveitarstjórn að halda sig innan ramma fjármálareglna sveitarfélaga, sem um tíma var vikið til hliðar vegna áhrifa heimsfaraldurs. Fjármálareglur taka annars vegar til jafnvægisreglu sem segir að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hins vegar er um að ræða skuldareglu, þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Fjármálareglurnar taka gildi að nýju árið 2026 og jafnvægisreglan vegna fjárhagsáætlunar ársins 2026 mun taka til rekstrarniðurstöðu áranna 2024, 2025 og áætlunar 2026. Skuldareglan mun taka mið af skuldum og skuldbindingum í lok árs 2026, en Húnaþingi vestra hefur tekist að vera langt undir því viðmiði hin síðari ár.

Lykiltölur ársreiknings sveitarsjóðs Húnaþings vestra, standast nú að nýju viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaga sem heimilt var að víkja frá vegna áhrifa heimsfaraldurs.

Niðurstaða ársreiknings er afar jákvæð og sýnir hraðari viðsnúning í rekstri í kjölfar heimsfaraldurs en vonast hafði verið til og það þrátt fyrir óhagstætt efnahagsumhverfi. Þetta má að mestu leyti þakka skynsamri fjármálastjórn undanfarinna ára, lágmarks lántökum og almennri ráðdeild í rekstri. Sveitarstjórn vill koma á framfæri þökkum til forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins fyrir aðgæslu í rekstri sinna eininga sem skýrir að nokkru leyti jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins. Væntir sveitarstjórn áframhaldandi góðs samstarfs við forstöðumenn, sem hafa sýnt nauðsyn forgangsröðunar verkefna einstakan skilning.

Var efnið á síðunni hjálplegt?